Þó Covid hafi gert lífið leitt fyrir flesta eru nokkrir sem geta glaðst yfir heppni sinni. Í gær var einn með allar tölur réttar í gamla góða Lottóinu og fær hann rúmlega 41 milljón króna í sinn hlut.

Á miðvikudag vann heppinn Íslendingur rúman hálfan milljarð í Víkingalottó en stutt er síðan tilkynnt var um að meira en milljarður hefði komið á miða í sama lottói.

Það voru sannarlega gleðileg jólin hjá ljónheppnum Íslendingi sem var einn með fyrstu vinning þegar dregið var í Vikingalottó á miðvikudag. Að sjálfsögðu var hann kallaður lukkunnar pamfíll í tilkynningu.

Þessi lukkunnar pamfíll var með tölurnar sínar í áskrift og fékk símtal á Þorláksmessumorgun þar sem honum var tilkynnt um vinning upp á nákvæmlega 438 milljónir og 930 þúsund.

Er þetta næst hæsti vinningur sem komið hefur á einn miða hérlendis.

Hæsti vinningur Íslendings kom í júní þegar annar lukkunnar pamfíll vann 1,3 milljarða króna í sama lottói. Sá pamfíll sem vann aðeins hálfan milljarð og fékk símtal á Þorláksmessu er ekki sá fyrsti sem hefur fengið góðan jólabónus. Árið 1993 fór stærsti vinningur í sögu Lottósins til sjö manna fjölskyldu á Seltjarnarnesi og var fjárhæðin 61,9 milljónir króna.

Þá fór 104 milljón króna lottóvinningur til hjóna á Selfossi 26. desember í fyrra en þau komu á íslenska getspá í byrjun árs og vitjuðu vinningsins. Skoppuðu inn eins og framkvæmdarstjórinn sagði.

Lottóævintýrið á Íslandi hófst 22. nóvember 1986 þegar þáverandi forsætisráðherra í ríkisstjórn Íslands, Steingrímur Hermannsson, keypti fyrsta miðann í Lottói 5/32, sem var jafnframt fyrsta beinlínutengda lottóið í Evrópu.

Á heimasíðu íslenskra getrauna segir að með Lottóinu hafi íslenski happdrættismarkaðurinn breyst verulega, sem fram að því hafði verið einhæfur og flokkahappdrættin allsráðandi.

Fyrsti útdrátturinn fór fram í íslenska ríkissjónvarpinu viku síðar. Viðtökur almennings voru góðar; miklu betri en bjartsýnustu menn höfðu þorað að vona.

Frétt úr Morgunblaðinu 1986 um Lottó tölvuna.

Miklar vinsældir Lottósins urðu þess fljótlega valdandi að leikformið 5/32 varð of lítið fyrir happdrættismarkaðinn. Leiknum var því breytt í 5/38 í byrjun september 1988. Við breytinguna fjölgaði yfirhlaupum og sala jókst samfara því. Samkeppnin jókst einnig gífurlega á þessum tíma, því með tilkomu Lottósins hófu önnur happdrættisfyrirtæki að líta í kringum sig eftir nýjungum og skafmiðahappdrætti og ýmsir sjónvarpsleikir litu dagsins ljós.

Árið 2008 var aftur ákveðið að breyta leiknum í Lottó 5/40 til að hækka vinningsupphæðirnar og gera leikinn ennþá meira spennandi

En það er ekki aðeins Lottó sem hefur verið að gefa þessi jól. Því í byrjun desember var sagt frá frá fjölskylduföður á Vesturlandi sem breyttist í lukkunnar pamfíl þegar hann vann 110 milljónir króna í Happdrætti Háskóla Íslands. Í tilkynningu frá HHÍ sagði að vinningshafinn hafi verið miðaeigandi til áratuga.

Hvað er pamfíll?

Á vísindavefnum svaraði Guðrún Kvaran stóru spurningunni. Hvað er pamfíll? Segir í svarinu að pamfíll sé þekkt í íslensku máli frá því á 18. öld. Elsta dæmi Orðabókar Háskólans er úr orðabókarhandriti Jóns Ólafssonar úr Grunnavík, aðstoðarmanns Árna Magnússonar handritasafnara.

Orðið var notað um sérstakt spil sem meðal annars er sagt frá hjá Ólafi Davíðssyni í bókinni Gátur, þulur, skemmtanir og vikivakar. Pamfíll var líka notað um laufagosa í spilinu púkki, að minnsta kosti á Suðurlandi.

Þriðja merkingin í orðinu er 'náungi', oftast í sambandinu lukkunnar pamfíll 'heppinn maður, sá sem lánið leikur við'.

Pamfíll er tökuorð úr dönsku pamfilius þar sem það var notað um laufagosann og sérstakt spil eins og hér en einnig almennt um fólk. Danska orðið er aftur fengið að láni úr latínu þar sem Pamphilius var mannsnafn tekið að láni úr grísku Pámphilos.