Hinn 78 ára gamli Durst leit illa út þegar dómur var upp kveðinn í réttarsal í Los Angeles á fimmtudaginn. Hann var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að hafa myrt Susan Ber­man þann 23. desember árið 2000 á heimili hennar í Los Angeles.

Dómurinn markar tímamót, enda hefur milljónamæringurinn gengið laus án dóms og laga allar götur frá því að konan hans hvarf með dularfullum hætti árið 1982.

Ekki hefur sést tangur né tetur af henni síðan, en vinkona Roberts, Susan Berman, átti bókaðan fund með lögreglu árið 2000.

Er talið að þar hafi hún ætlað að ræða aðstoð sína við milljónamæringinn við að fela slóðina eftir morðið á eiginkonunni Kathleen Durst árið 1982. Hún komst aldrei til fundarins þar sem hún fannst látin á heimili sínu, skotin í hnakkann.

The Jinx komu upp um hann

Saga milljónamæringsins er lyginni líkust. Hann var ekki meðal grunaðra vegna morðsins á Susan Berman um margra ára skeið, en viðtöl við Durst í heimildaþáttunum The Jinx: The Life and Deaths of Robert Durst, sem kom út árið 2015, breyttu öllu.

Óhætt er að mæla með að horfa á þá og eru þeir líklegast einhverjir bestu glæpaheimildaþættir samtímans. Í þáttunum var varpað ljósi á ný sönnunargögn sem bendluðu Durst með beinum hætti við morðið á Susan Berman, auk þess sem milljónamæringurinn kom upp um sig með lygilegum hætti.

Alltaf að myrða

Hér er ekki einu sinni búið að minnast á að Durst tókst að myrða einn til viðbótar eftir að hafa myrt Susan og Kathleen og löngu áður en hann ræddi mál sín við kvikmyndagerðarmanninn Andrew Jarecki í The Jinx.

Árið 2001 hafði Durst flust búferlum lengst út í buskann, til Galveston-borgar í Texas. Þar fundust óvænt líkamsleifar í poka í október og kom í ljós að þar var á ferðinni gamalmennið Morris Black. Sá var svo óheppinn að búa við hliðina á Durst.

Með lygilegum hætti og peningum komst Durst þó undan réttvísinni. Bestu lögmenn Bandaríkjanna sannfærðu kviðdómendur um að Durst hefði drepið Black í sjálfsvörn.

Því fór sem fór og Durst gekk laus þrátt fyrir allt. Lögreglumenn telja að líklega hafi Morris ætlað að kúga Durst og hafa af honum fé.

Sögunni ekki lokið

Durst bar nú í réttarhöldunum í Los Angeles ítrekað fyrir sig heilsuleysi. Allt kom fyrir ekki og hann var sekur fundinn.

Lögfræðingar hans hyggjast þó áfrýja málinu, svo mögulega getur milljónamæringurinn skrifað enn eina lygasöguna í bókina um ævi sína. Hvar Kathleen Durst er, veit hins vegar enginn og verður það sjálfsagt aldrei upplýst.