Frið­rik Ómar er í skýjunum með gær­kvöldið þar sem hann fagnaði 40 árum með við­hafnar­tón­leikum í Eld­borg í Hörpu. Vinirnir léku á hann og grættu hann á sviði í gær en Frið­rik ræddi daginn í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Hann segir að svo margt hafi verið í gangi í gær, sex­tán leyni­gestir hafi mætt svo tón­leikarnir enduðu á að vera þrír tímar í stað tveggja. Meðal gesta voru Jógvan og Páll Óskar.

„Þannig þetta var rosa­lega stór dagur og ég held bara að ég hætti núna,“ segir hann og hlær. „Ég gaf mér tíma í þetta og var laf­móður, enda hefur maður ekki sungið á svona stórum tón­leikum svo lengi,“ segir tón­listar­maðurinn.

Meint stytta af Frið­riki á Dal­vík

„Svo lugu þeir að mér, Matti og Ey­þór Ingi og komu með platta sem var undir­ritaður af Lilju mennta­mála­ráð­herra og bæjar­stjóra Dal­víkur­byggðar um að það væri verið að fara að reisa af mér styttu á Dal­vík,“ segir Frið­rik Ómar.

„Og ég trúði þessu öllu og fór að gráta og allt. Svo var þetta bara hauga­lygi,“ segir tón­listar­maðurinn og skellir upp úr.

„Ég stóð á sviðinu grátandi, svo meyr og bara trúði þessu ekki, og þeir voru búnir að fótó­sjoppa svona líkan hvar styttan ætti að vera við hafnar­svæðið þar sem þeir héldu alltaf Fiski­dags­tón­leikana,“ segir Frið­rik.

„En ég ætla að fara með þetta lengra, þeir geta ekki bakkað með þetta,“ segir hann léttur í bragði.

Fréttablaðið/Ernir