Berglind segist ekki hafa mikið verið í því að elda fyrir fermingarveislur. „Ég á tvö börn sem eru búin að fermast og í báðum tilfellum pantaði ég mat,“ segir hún hlæjandi. „Ég hef einfaldlega lagt mikið upp úr því að vera ekki á haus á fermingardaginn sjálfan heldur njóta hans til hins ýtrasta.“

Hún mælir með því fyrir fólk sem stefnir sjálft á að sjá um veitingarnar að það deili verkefnum á vini og vandamenn. „Það er nefnilega þannig að þessi litlu verk sem maður ætlar að rumpa af rétt fyrir veisluna taka oft meiri tíma en maður áætlar. Þá er gott að hafa fleiri hendur en færri til að aðstoða og auðvitað dásamlegt að sjá matinn birtast með gestunum.“

Berglind segir sniðugt að bjóða upp á taco í veislum vilji fólk góðan mat sem einfalt er að búa til. „Þá er hægt að skera niður hráefnin og fólk raðar því svo bara á litla tortillu. Það er eitthvað sem allir elska og hentar flestum. Ef fólk til dæmis borðar ekki kjöt þá bara sleppir það því. Ég er líka voðalega hrifin af salötum því þau eru svo falleg á veisluborðið. Svo er líka þægilegt að hafa súpu.“

Berglind ráðleggur fólki að hafa ekki of marga rétti, kannski tvo til þrjá aðalrétti og tvo eftirrétti. Hún mælir einnig með að hafa litríkan mat á veisluborðinu. „Veisluborð með þannig réttum þarfnast ekki mikilla skrautmuna. Það kemur sér vel fyrir mig því ég er agalega lélegur stílisti. Ég læt matinn sjá um mínar skreytingar.“

Camembert brauðréttur er einfaldur og klassískur.

Camembert brauðréttur

6-7 sneiðar franskbrauð

7 sneiðar skinka

1 camembert ostur

250 ml rjómi

1 rauð paprika

1 græn paprika

Skerið skorpuna af brauðinu og rífið niður í bita.

Smyrjið eldfast mót og setjið brauðið í botninn.

Skerið skinkuna í litla bita og setjið ofan á.

Skerið camembert í bita og setjið ásamt rjóma í pott og bræðið saman við vægan hita. Hrærið reglulega í blöndunni þar til allur osturinn er uppleystur. Hellið blöndunni þá yfir brauðið og stráið að lokum smátt skorinni papriku yfir allt. Látið í 170°C heitan ofn í 15 mínútur eða þar til rétturinn er heitur í gegn og osturinn rétt að byrja að verða gylltur. Berið fram með rifsberjahlaupi.

Pastasalatið er alltaf vinsælt.

Pastasalatið sem alltaf slær í gegn

fyrir 4-6

300 g pastaskrúfur

4 msk. sólþurrkaðir tómatar í olíu

2 msk. basilíka

2 msk. steinselja

2-3 hvítlauksgeirar

1 dl jómfrúarólífuolía

2 msk. balsamedik

1 tsk. hlynsíróp (ég nota oft bara sírópið í grænu dósunum)

4 msk. furuhnetur, ristaðar á þurri pönnu

80 g pepperóní, skorið niður

½ krukka ólífur, t.d. grænar fylltar

Kál, gott með en má sleppa

Parmesanostur, rifinn

Salt og pipar

Sjóðið pastaskrúfurnar í söltu vatni í um það bil 10 mínútur.

Látið sólþurrkuðu tómatana, kryddjurtirnar, hvítlauksgeirana, jómfrúarólífuolíuna, balsamedikið og hlynsírópið í matvinnsluvél.

Keyrið í nokkra hringi og grófhakkið saman.

Blandið saman við pastað og bætið furuhnetum, pepperóníi, ólífum og káli út í. Blandið öllu vel saman. Saltið og piprið eftir smekk. Stráið rifnum parmesanosti yfir áður en salatið er borið fram.

Ljúffeng frönsk súkkulaðikaka er góð með ís eða rjóma.

Klassísk frönsk súkkulaðikaka

Botn

2 dl sykur

200 g smjör

200 g suðusúkkulaði

1 dl hveiti

4 egg

Þeytið eggin og sykurinn vel saman. Bræðið smjörið og súkkulaðið saman við vægan hita í potti. Blandið hveitinu saman við eggin og sykurinn. Bætið bráðnu súkkulaðinu og smjörinu að lokum varlega út í deigið.

Bakið í vel smurðu tertuformi við 170°C í um 30 mínútur.

Súkkulaðibráð

150 g suðusúkkulaði

70 g smjör

2 msk. síróp

Látið hráefnin saman í pott og bræðið við lágan hita. Kælið bráðina lítillega og berið síðan á kökuna.