„Innst inni er ég fremur saklaus, hjartahlýr og góður maður. Svo mikið, að vinkonur foreldra minna í denn vildu alltaf klappa mér um kinn og tylla mér á hné sér í barnæsku og fram á unglingsár. Svo laðast börn og dýr að mér. Þetta fór að endingu svo í taugarnar á mér að á efri unglingsárum fór ég í uppreisn og byrjaði að drekka, haga mér ósæmilega opinberlega og stunda kvennafar meira en góðu hófi gegndi. Bara til að afsanna að ég væri drengur góður. Kannski hefur þessi uppreisn gengið of langt því að lokum gat ég ekki umflúið eðli mitt. Ég hef stóra samvisku og vil aftur nálgast hið góða í sjálfum mér.“

Þetta segir Glúmur Baldvinsson, en hvaðan kemur nafnið hans og hví var honum valið það?

„Spurðu föður minn að því. Hann réði öllum nöfnum okkar systkina, nema því fyrsta, Aldís, því hann var fjarri í Edinborg þegar hún kom í heiminn. Þegar ég fæðist er pabbi á kafi í Íslendingasögunum og heimtar nafnið Glúmur eða Illugi. Glúmur varð það að endingu; í höfuðið á einum karakter Íslendingasagnanna, Víga-Glúmi, sem var seinþroska og latur en reis loks úr rekkju og hjó mann og annan, en átti því óláni að fagna að deyja ellidauða. Glúmur kemur líka fyrir sem eiginmaður Hallgerðar langbrókar í Njáls sögu. Mikill kappi. En eins og nafnið bendir til þýðir það hinn dimmi, dökki og þunglyndi. Samanber enska orðið glum,“ útskýrir Glúmur og heldur áfram:

„Nafnið var svo óvenjulegt þegar ég var að alast upp að ég lenti oft í slagsmálum vegna þess. Sem ég vann yfirleitt. Ég hef sagt það í gamni að pabbi hafi gefið mér nafnið til að herða mig, því ef þú getur ekki lifað með svona nafni gætirðu koðnað niður. Eins og í lagi Johnny Cash, A boy named Sue. En ég lifði það af og er afar hrifinn af nafninu í dag.“

Frá mömmu fékk ég samvisku, viðkvæmni og útlitið; en hörkuna og töffaraskapinn fékk ég frá pabba. Gáfur þeirra beggja erfði ég og skriffærni. Og kannski hégómann.“

Dekurdrengur sem fékk allt

Glúmur er einkasonur Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar Schram, næstelstur í fjögurra systkina hópi. Spurður hvað hann fékk í vöggugjöf frá foreldrum sínum, svarar Glúmur:

„Frá mömmu fékk ég samvisku, viðkvæmni og útlitið; en hörkuna og töffaraskapinn fékk ég frá pabba. Gáfur þeirra beggja erfði ég og skriffærni. Og kannski hégómann.“

Barnskónum sleit hann á Ísafirði.

„Mamma segir að ég hafi verið þægilegt barn að umgangast og lítið hafi þurft að hafa fyrir mér. Það gilti um árin sem ég man ekkert eftir. Eftir sex ára aldur varð ég afar uppátækjasamur og fullur hugmyndaflugs og athafna. Til dæmis stofnaði ég fótboltablaðið Hörð á Ísafirði sjö ára, sem hét eftir fótboltafélaginu sem ég spilaði fyrir. Blaðið kom út í þrjú ár og ég seldi það grimmt og græddi vel. Svo stofnaði ég mafíu sem hafði að markmiði að ræna og rupla allar búðir á Ísafirði, og þar með talið peninga úr vösum nemenda föður míns sem var rektor Menntaskólans á Ísafirði. Það endaði illa og var ég, sem foringi mafíunnar, kallaður til yfirheyrslu lögreglu og dæmdur til að skila öllu. Það var niðurlæging fyrir foreldra mína, og sér í lagi föður minn sem þá var í prófkjöri til Alþingis fyrir Alþýðuflokkinn. En hvað átti ég að vita um það? Þetta kom allt til út af ævintýrabókum sem ég las mikið á þeim tíma, en síðan hef ég ekki stolið,“ segir Glúmur um æskuárin vestur á Ísafirði, þar sem hann spilaði fótbolta alla daga ársins, sama hvernig viðraði, enda sendi afi hans, Björgvin Schram sem þá átti Adidas á Íslandi, afadrengnum fótbolta og búninga með reglulegu millibili.

Glúmur kveðst hafa fundið fyrir því með ýmsu móti að alast upp með fegurstu konu Íslands og umsjónarmann Stundarinnar okkar fyrir móður, og pabba sem varð ráðherra og áberandi í pólitíkinni.

„Hvað fegurð móður minnar varðar, þá vissi ég ekkert hvað fegurð var fyrr en ég var tólf ára og einhver sagði að mamma væri fegurðardrottning. Svo ég spurði hana, en hún vildi ekkert við það kannast. Hún talaði aldrei um það við okkur börnin. Ég man þó alltaf, að hvert sem við fórum, hvort sem það var í Reykjavík eða stórborgum útlanda, þá gláptu allir á hana, bæði karlmenn sem kvenmenn, og þá áttaði ég mig á því að móðir mín væri líklega óvenju falleg. Stundin okkar gerði hana svo voða fræga og ég verð að viðurkenna að hennar vegna urðu stelpur oft skotnar í mér á unglingsárunum. Það var dálítið gaman, og ég var stoltur af mömmu.“

Glúmur var að ljúka stúdentsprófum frá Verzló þegar faðir hans varð fjármálaráðherra.

„Og hann verður ekki bara ráðherra heldur mest umræddi og umdeildi stjórnmálamaður þessara ára. Ég sá ekki fyrir að það ætti eftir að gerast því fram til þessa hafði hann setið sem reiður, ungur maður og rifist við sjónvarpið. En pabbi breyttist eftir að hann varð númer eitt og það var gaman að fylgjast með honum vinna kappræður og sýna snilld sína og uppskera loks það sem hann sáði.“

Glúmur segir velgengni foreldra sinna hafa stigið sér til höfuðs.

„Auðvitað, og vegna þeirra eignaðist ég marga vini og varð vinsæll meðal kvenna og karla. Ég naut þess í botn, var alls staðar vel tekið og fékk fyrirgreiðslu og forgang sem aðrir fá ekki. Ég uppskar líka hlýtt viðmót en ég hafði líka vanist því áður vegna orðspors fjölskyldunnar í heild, og þá sérstaklega afa mín Björgvins Schram og ömmu Aldísar, og svo Hannibals afa. Því má segja að ég hafi verið dekurdrengur sem fékk allt.“

Glúmur segist hafa mátt undirbúa sig betur fyrir framboð sitt í haust. Hann eigi miklu meira inni. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Missir systra mesta sorgin

Fjölskylda Glúms hefur orðið fyrir þungum raunum á lífsleiðinni.

„Æska mín var lituð hamingju og samstöðu innan fjölskyldunnar. Ekki bara æskan heldur allt lífið fram að fertugsaldri. Þá lék allt í lyndi,“ segir Glúmur og lítur til baka.

„Mín mesta sorg er missir systra minna. Snæfríðar sem lést óvænt í blóma lífsins. Og svo missir Aldísar sem hvarf inn í sorta veikinda sem hún afneitar og getur því ekki komið til baka og orðið sú skemmtilega systir sem var sólargeisli æsku minnar. Þær eru báðar horfnar mér. Árásir á föður minn og móður hafa náttúrlega valdið mér kvíða og þunglyndi, en ég hef reynt að bera höfuðið hátt,“ segir Glúmur, en hvernig?

„Ég þekki foreldra mína og veit sem varðhundur heimilisins frá byrjun að faðir minn er hafður fyrir rangri sök. Aldrei varð ég var við allan þann viðbjóð sem hann var sakaður um og trúðu mér: Hefði ég orðið var við slíkt sneri ég við honum baki. Ég var vakandi yfir öllu á mínu heimili, og kannski of mikið. Ég trúi því að systir mín og móðursystir standi í þessari aðför að föður mínum, ekki til að ná sér niður á honum, heldur móður minni. Þar spilar öfund stórt hlutverk. Sagan er djúp og löng og teygir sig langt aftur í tímann, en ég kæri mig ekki um að rekja hana hér.“

Í vikunni var Jón Baldvin sýknaður af ákæru fyrir kynferðislega áreitni.

„Nú er eina dómsmálinu sem höfðað hefur verið gegn föður mínum lokið og hann sýknaður. Fyrir utan allar lögreglukærurnar sem hefur líka verið vísað frá. Ég á mér þá ósk heitasta að foreldrar mínir megi njóta ævikvöldsins í friði og gleði, eins og þau eiga skilið, enda hafa þau svo sannarlega gert sitt í þessu lífi. Þau hafa staðið sína plikt og unnið fyrir því að eiga fagurt ævikvöld. Ég vil sjá þau blómstra næstu áratugina og þá er ég glaður.“

Glúmur er nánastur föður sínum, sem hann segir sinn besta vin og að engan sé betra að tala við.

„Faðir minn hvatti mig til að vinna og nýta hæfileika mína. Hann hvatti mig til að skrifa og hugsa og hann hefur alltaf verið minn besti vinur, því hvernig sem ástatt er í lífi mínu þá leita ég til hans til að fá ráð og huggun og kraft til að halda áfram. Pabbi er hlýr maður og enginn skemmtilegri viðræðu. Við áttum margar góðar stundir að spjalli fram á nótt hér í denn. Hann gerir kröfur til mín um að standa í lappirnar og sýna karlmennsku. Kannski hef ég stundum tekið það of langt. Skemmtilegri faðir finnst ekki. Hann er í raun átrúnaðargoðið mitt, en ég vil losna úr þeim viðjum einn góðan veðurdag,“ “ segir Glúmur, um dýrmætasta veganestið frá foreldrum sínum.

„Mamma gaf mér ævintýraþrá og ástríðu fyrir að skoða heiminn, enda ferðaðist hún með okkur öll sumur um útlönd. Ég fékk þá ferðabakteríuna og hef þegar heimsótt sjötíu lönd í þessum heimi. Næst á dagskrá er Suður-Ameríka. Mamma reyndi líka að temja mér kurteisi, sér í lagi við þá sem minna mega sín. Hún reyndi af öllum mætti að lækka í mér hrokann sem fór vaxandi með velgengni fjölskyldu minnar upp úr tvítugu. Mamma er samviska mín.“

Föðurafi Glúms var Hannibal Valdimarsson, alþingismaður og ráðherra.

„Ég átti lítið samneyti við afa því þeir pabbi áttu óuppgerð mál sem ég þekkti ekki til, svo því var hann fjarri mér mína æsku. Þó vissi ég af honum því stundum þegar ég var lítill strákur og gekk um götur á Ísafirði komu að mér menn og konur og spurðu: „Er ekki afi þinn Hannbal?“ og svo var ég knúsaður í mína óþökk, enda ekki karlmannlegt fyrir dreng að vera knúsaður. En þetta fólk virtist líta á þennan Hannibal sem hálfguð þarna fyrir vestan. Einu sinni lenti ég í slagsmálum við drengstaula frá Bolungarvík sem kom að mér og sagði: „Mikið var að beljan bar í fjósinu hjá Hannibal“. Tók ég þettu óstinnt upp og réðist á drenginn, en vona að hann sé búinn að ná sér núna, enda 48 ár síðan,“ segir Glúmur glettinn.

„Síðar á lífsleiðinni, þegar pabbi og afi urðu sáttir, komu þau Sólveig amma reglulega til okkar í sunnudagssteik eða læri. Þá sá ég þennan glæsilega hálfguð sem sagði fátt en þegar hann mælti var það yfirleitt af mikilli speki. Við áttum hlýtt samband en ég sé eftir því að hafa ekki kynnst honum betur.“

Ég er ekki bindindismaður og hef á stundum glímt við áfengisvanda í kjölfar ákveðinna áfalla í lífinu. Það er djöfulleg barátta.

Vill ganga til liðs við annan flokk

Mörgum þótti spennandi þegar Glúmur bauð sig fram til Alþingis fyrir Frjálslynda íhaldsflokkinn í haust. Eftirminnileg ummæli hans í kosningabaráttunni voru að ætla að rífa kjaft kæmist hann á þing.

„Ég er nú fremur kurteis dags daglega og vil engum mein og allra síst særa fólk. Þegar það gerist get ég ekki beðið eftir að biðjast afsökunar, sem ég geri oftast nær. En þú verður að skilja að vera sonur þessa fólks eða þessarar fjölskydu, þá þarf maður að læra að verja sig og ég hef þróað þá list í gegnum árin. Að svara fyrir mig og ég læt engan vaða yfir mig. Engan. Oft er leikurinn til þess gerður að kenna fólki að reyna ekki að fara aftur í mig. Því þá tapar það,“ segir Glúmur, alvarlegur í bragði.

Hann gengst við því að vera skapmikill.

„Það fæ ég úr báðum ættum. Ellert, móðurbróðir minn er skaphundur, og amma hafði líka mikið skap. Ég fæ þetta úr Schram-ættinni, en þú vilt ekki heldur æsa upp föður minn sem er alla jafna yfirvegaður en í þau fáu skipti sem hann hefur reiðst um ævina hefur verið best að forða sér. En þótt ég sé skapmikill er ég þannig náttúraður að ég kem niður á örskotsstundu og allt er gleymt. Ég hata engan og ber ekki kala til neins og ef mér finnst ég hafa gengið of langt er ég fyrstur manna til að biðjast afsökunar. Ég hef þetta dæmigerða latneska skap. Fljótur upp og fljótur niður. Mér finnst þó gaman að rífa kjaft á gamla mátann, eins og ég varð vitni að í mínu ungdæmi þegar vestfirskir stjórnmálamenn tókust á á fundum og kölluðu ekki allt ömmu sína. Eftir fundina féll svo allt í ljúfa löð og allir voru vinir. Það kann ég að meta og finnst slíkt vanta á Alþingi í dag.“

Í kosningabaráttunni stal Glúmur svolítið senunni, en hvers vegna telur hann?

„Ég hef ekki grænan grun. Kannski af því ég reif kjaft, eins og ég lýsti að ofan. Kannski stuðaði ég hinn almenna borgara. Allavega skilaði það ekki miklum atkvæðum. Ástæðan er kannski sú að ég var í röngum flokki. Ég hef íhugað að ganga til liðs við annan stjórnmálaflokk og auglýsi það hér með.“

Glúmur var gagnrýndur fyrir að hafa mætt drukkinn í kosningakappræður í sjónvarpi.

„Það var tóm þvæla. Gísli Marteinn hrakti þá sögusögn og sminkurnar á RÚV. Það hefði ekki farið framhjá neinum ef ég hefði verið drukkinn. Ég gekk þarna um gólf af tveimur ástæðum; ég er hávaxinn og fæ í mjóhrygginn við að standa tímunum saman við dvergvaxið púlt. Í annan stað leiddist mér á köflum að komast lítið að í tvo og hálfan tíma. Hugsaðu þér, tveir og hálfur tími og ég fékk að tala í fimm mínútur. Það þarf að breyta þessu fyrirkomulagi og leyfa fólki að sitja í þennan óratíma sem gefur því fimm mínútur að segja eitthvað vitiborið. Ég er hins vegar ekki bindindismaður og hef á stundum glímt við áfengisvanda í kjölfar ákveðinna áfalla í lífinu. Það er djöfulleg barátta,“ segir Glúmur af hreinskilni.

Hann kveðst eflaust misskilinn eins og margir, en lætur þó ekki deigan síga.

„Algengasti misskilningurinn er að ég sé hrokafullur forréttindadrengur sem ætli á þing í kjólfaldi föður míns. Án þess að eiga það skilið. Ég er auðvitað óreyndur með öllu og sýndi ekki mitt besta. Ég hefði mátt brosa meira í anda mömmu og koma mínum sjónarmiðum á framfæri með skýrari hætti. Ég hefði mátt undirbúa mig miklu betur. Ég á miklu meira inni.“

Glúmur þolir ekki heigulshátt nútímans þar sem enginn þorir að gagnrýna eitt né neitt. Hann vill storka hinu viðtekna. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI

Vill yrkja eitt ljóð sem lifir

Glúmur er víðförull heimsborgari. Hann lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði og hagfræði frá Háskóla Íslands, MSc-gráðu í alþjóðaviðskiptum og Evrópufræðum frá London School of Economics og MA-gráðu í alþjóðasamskiptum og alþjóðaviðskiptum frá University of Miami. Hann hefur starfað vítt og breitt um heiminn, hjá Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, Sameinuðu þjóðunum, International Relief and Development í Washington, ICEAID, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Íslensku friðargæslunni, Tryggingarstofnun ríkisins, sem fréttamaður á RÚV og Stöð 2, og við leiðsögumennsku og sjómennsku. Þessa dagana vinnur hann að bók, mögulegu framboði í komandi borgarstjórnarkosningum, og í bígerð er að hefja vikulegt podcast með góðum gestum.

„Við líf mitt og störf um heiminn hef ég séð að það er víða pottur brotinn og að Ísland er ekki nafli alheimsins. Ísland hefur tækifæri til að verða fyrirmyndarríki jöfnuðar og velsældar sem önnur ríki munu líta til við að byggja upp falleg samfélög. Þess vegna vil ég breyta íslensku samfélagi úr samfélagi óttans yfir í samfélag djörfungar þar sem allir hafa málfrelsi og kjark til að segja sína skoðun umbúðalaust. Ég vil yrkja eitt ljóð sem lifir,“ segir Glúmur.

Hann þolir ekki heigulshátt nútímans.

„Hér þorir enginn að gagnrýna eitt né neitt. Ég vil rífa kjaft, hrífa fólk með mér upp úr heigulshættinum og þora að hjóla í yfirvaldið. Tökum RÚV sem dæmi; sjónvarp allra landsmanna. Þetta er ekki lengur fréttastofa heldur áróðursmiðill. Dæmi; að allt sé í fínasta lagi í Svíþjóð og engin ógn stafi af glæpaklíkum innflytjenda. Að ESB sé draumalandið. Að loftlagsbreytingar eða hnattræn hlýnun muni drepa oss innan skamms, nema Greta Thunberg fái að grípa inn í og breyta loftslaginu. Að þolendur hafi alltaf rétt fyrir sér. Að Covid-19 sé drepsótt. Það er með ólíkindum að fréttamiðill sem hefur þá þjóðarskyldu að draga fram allar hliðar málsins geri það ekki. Svo ertu slaufaður ef þú ert á móti skoðunum fréttastofu sem á ekki að hafa skoðun heldur segja fréttir. Þannig var faðir minn besti rýnandi á innlend og alþjóðastjórnmál á landinu og tíður gestur í Silfrinu hans Egils, en slaufaður af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna ásakana kvenna sem búið er að þagga, og í annan stað af því hann telur ESB ekki ákjósanlegt fyrir Ísland í dag. Ég vil storka hinu viðtekna.“

Hér þorir enginn að gagnrýna eitt né neitt. Ég vil rífa kjaft, hrífa fólk með mér upp úr heigulshættinum og þora að hjóla í yfirvaldið.

Íhugar framboð til borgarstjóra

Áhugi Glúms á að hasla sér völl í pólitík jókst eftir framboðið í haust, en hvers vegna vill hann ná metorðum á æðstu stöðum?

„Af því ég tel mig öllum kostum búinn til að verða frábær pólitíkus. Það hvatti mig líka áfram að sjá hvernig samfélagið réðst að fjölskyldu minni. Svo það var hefndarhugur í mér. Ég tel mig geta gert betur en nánast allir sem nú sitja á þingi. Ég hef menntunina, reynsluna, orðfærið og pennann, og það er ekki öllum gefið,“ segir hann sposkur.

Eftir alþingiskosningarnar sagðist Glúmur næst bjóða sig fram til borgarstjóra og forseta.

„Ég sagði það nú meira í gríni en alvöru, en öllu gríni fylgir einhver alvara. Ég væri til í að taka þátt í borgarstjórnarkosningum í vor, en það er bara spurning um flokk. Enn og aftur auglýsi ég krafta mína því ég vil Dag burt og allt sem núverandi borgarstjórn stendur fyrir. Hvað forsetaembættið varðar var það helbert grín. Ég yrði frábær forseti, en ekki strax. Fyrst þarf ég að sanna mig annars staðar. Forsetinn í dag er að mínu mati of daufur og ekki nægilega hrífandi. Hann er engu að síður góður maður og vill vel. Komi að því að ég sækist eftir forsetaembætti mætti búast við forseta í anda Ólafs Ragnars. Ég myndi hvorki láta þingið né ríkisstjórnina í friði þegar upp kæmu stór mál sem þingið ræður ekkert við. En það verður að bíða, enda á ég engan séns í það embætti að svo stöddu.“

En hvernig borgarstjóri yrði Glúmur?

„Sem borgarstjóri yrði ég miklu sýnilegri gagnvart borgarbúum og héldi uppi reglulegu sambandi og samtali við þá. Ég myndi vinda ofan af margri vitleysunni sem framkvæmd hefur verið í borginni, straumlínulaga kerfið og fækka þeim gríðarlega fjölda blýantsnagara sem þar sitja. Ég myndi einnig banna starfsmönnum að skrifa níð um annað fólk úti í bæ. Það eitt og sér yrði brottrekstrarsök.“

Ég var bálskotinn í Línu Rut þegar ég var fimmtán og hún vann í ísbúðinni í Úlfarsfelli vestur í bæ. Mér fannst hún of falleg til að þora að yrða á hana einu orði. Hún var yfir mig hafin.

Hégómagjarn kvennaljómi

Glúmur hefur lengi verið annálaður kvennaljómi.

„Í sanni sagt fékk ég kannski meiri athygli kvenna en gengur og gerist fyrir þá staðreynd af hvaða fjölskyldu ég var. En svo þegar ég fluttist utan komst ég að því að þar var sama sagan, þar sem enginn vissi hver ég var. Auðvitað naut ég þess út í ystu æsar; ég er hégómagjarn maður með afbrigðum, en það kom mér oft í bobba,“ segir hann og brosir.

„Lífið er dásemd og gjöf sem má ekki kasta á glæ. Að eldast finnst mér gott, sér í lagi þegar einstaka kona gefur mér enn auga, þótt ekkert þurfi að verða meira úr því. En svo lengi sem heilsan bregst mér ekki hlakka ég til að fá grá hár, sem virðist seint ætla að ganga eftir.“

Listakonan Lína Rut Wilberg fangaði hjarta Glúms fyrr á árinu. Hún er ekki síður þekkt fyrir glæsileik og ein fegursta kona Íslands.

„Ég var bálskotinn í Línu Rut þegar ég var fimmtán og hún vann í ísbúðinni í Úlfarsfelli vestur í bæ. Mér fannst hún of falleg til að þora að yrða á hana einu orði. Hún var yfir mig hafin. Við strákarnir fórum ekki þangað til að kaupa ís heldur bara til að sjá Línu. Við kynntumst svo 45 árum síðar á göngu í Keflavík. Þá hleypti ég í mig kjarki til að yrða á hana. Það endaði vel. Hún er allt önnur týpa en ég og bætir við líf mitt reglu, festu og ró. Hún er praktísk á meðan ég er ópraktískur. Hún er jarðbundin á meðan ég svíf um í draumum. Kannski er hún sú eina rétta?“ segir Glúmur, spurður um ástarlífið.

Honum líður best í Reykjabyggð í Mosfellssveit, þar sem foreldrar hans búa part úr ári.

„Afi minn, Björgvin Schram keypti þetta land árið 1960 fyrir sumarbústað með sundlaug. Þaðan á ég góðar æskuminningar með stórfjölskyldunni. Þar er ég kominn til annars heims. Einhvers konar útlanda þar sem laufin þjóta í vindinum, trén vaxa og friðurinn er algjör. Þetta er sveit þótt stutt sé í borgina og þar líður mér best. Þegar ég fer til útlanda líður mér best í litlu þorpi á Ítalíu þar sem karlarnir karpa og spila boccia og kerlingarnar á endanum skipa þeim æpandi að drattast heim í háttinn. Ég væri til í að eyða ellinni þar.“