Fyrsti þátturinn af raunveruleikaþáttaröð LXS hópsins fer í loftið í kvöld, en þar er skyggnst inn í líf áhrifavaldanna Sunnevu Einars, Ínu Maríu, Birgittu Lífar, Magneu Bjargar og Ástrósar Trausta.

Kristín Péturs og Hildur Sif Hauksdóttir hafa einnig verið kenndar við hópinn, en svo virðist sem þær séu ekki hluti af þáttaröðinni.

Svipar til Kardashian fjölskyldunnar

Það má til gamans geta að kynningarstikla LXS hópsins er keimlík nýlegri stiklu Kardashian-fjölskyldunnar. Þar má nefna sama lagið, Feed Me Diamonds, klæðaburður er svartur í báðum myndböndum og þá eru bæði myndböndin klippt á samskonar hátt.

Á dögunum fór fram forsýningarpartý á þáttaröð LXS á Bankastræti Club þar sem fyrstu tveir þættirnir voru sýndir fyrir augum aðstandenda og vina.

Stúlkurnar mættu í sínu fínasta pússi og skáluðu fyrir afrakstrinum og má með sanni segja að þær hafi staðið upp úr sem stjörnur kvöldsins.