Vigfús er 18 ára gamall og kemur frá Hellissandi á Snæfellsnesi. Hann kemur úr fjölskyldu þar sem margir eru húsasmiðir svo hann á áhugann á faginu ekki langt að sækja. Hann er nemi á þriðja ári í húsasmíði og mun því ljúka námi í FVA að lokinni þessari önn ef allt fer eftir áætlun.

„Ég þarf svo að ljúka 72 tímum af vinnu við smíði til að geta tekið sveinsprófið,“ útskýrir hann.

„Ég hef alltaf haft gaman af verklegri vinnu og að búa til hluti. Þess vegna heillaði nám í húsasmíði,“ segir Vigfús aðspurður að því hvers vegna hann valdi námið.

„Mér finnst mjög gaman í náminu. Það sem mér finnst áhugaverðast er að það er meira sem ég þarf að læra en bara smíðina. Til dæmis þarf ég að læra lög varðandi húsasmíði,“ segir Vigfús.

Vigfús lærir húsasmíði í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og stefnir á að klára í vor. FRÉTTABLAÐIÐ/PJETUR

En í náminu eru líka ýmsar fleiri bóklegar greinar sem koma að gagni í húsasmíðinni.

Vigfús er ekki alveg blautur á bak við eyrum þegar kemur að húsasmíði en síðustu fjögur sumur hefur hann unnið við smíðar á Snæfellsnesi þar sem hann hefur að mestu leyti verið að gera upp hús og breyta þeim.

„Það hefur hjálpað mér mikið við námið finnst mér,“ segir Vigfús. „Við fáum líka verklega þjálfun í skólanum. Við smíðum lítinn sumarbústað og gerum alls konar verkefni til að læra á verkfærin og kunna nauðsynlega hluti.“

Vigfús segir að andinn í FVA sé mjög góður og félagslífið sé gott.

„Ég mæli 100 prósent með þessu námi fyrir þá sem hafa áhuga og vilja starfa við húsasmíði í framtíðinni.“