Einkennin sem Sigríður Rósa fékk voru mikill bjúgur, hún þyngdist um 16 kíló á níu mánuðum þrátt fyrir að vera alltaf að hreyfa sig og borða hollt að mestu leyti og ofan á þetta bættist við þunglyndi.

„Ég þekkti engan með skjaldkirtilsvandamál svo ég kveikti ekki á þessum einkennum. Ég var ekki með hita svo ég var því ekki veik að mínu mati. Þetta varð til þess að ég datt fyrst í algjört þunglyndi og vildi helst ekki fara neitt eða hvað þá þjálfa eða kenna því mér fannst ég hreinlega afmynduð. Það var alveg sama hvað ég gerði fyrst, það gekk ekkert, ég náði engum kílóum af mér og ef nokkur fóru þá var það liggur við með svelti,“ segir Sigríður Rósa.

Hún lenti einnig í að fá mikið hárlos og önnur augabrúnin fór alveg af henni en hún fékk sér augnabrúna-tattú sem bjargaði henni að hennar sögn.

„Annar aukakvilli sem fylgdi þessu var þurrkur í húð. Fæturnir á mér voru alltaf þurrir og ég prófaði mörg krem og hef fundið það sem hentar mér,“ segir hún.

Fyrstu árin eftir greiningu þjáðist Sigríður Rósa af miklu orkuleysi og hún prófaði helling af fæðubótarefnum og vítamínum til að reyna að ráða bót á því.

„Ég þurfti helst að fá 10-11 tíma svefn ef ég átti að eiga góðan dag,“ segir hún.

Átta mánaða áskorun

Sigríður Rósa ákvað að reyna að taka á vandanum og vera sýnileg og opin um skjaldkirtilssjúkdóminn sem hrjáði hana. Hún ákvað að hefja átta mánaða áskorun á sjálfa sig og leyfa fólki að fylgjast með hennar aðferðum við að lifa í sátt með sjúkdómnum, án öfga.

„Ég notaði mig sem tilraun á því sem ég hafði trú á. Sem er að vera á hreinu fæði og lágkolvetna. Ég veit í dag að sykurinn er minn versti óvinur,“ segir Sigríður Rósa en hún byrjaði á áskoruninni í lok júní og er að klára hana núna, eða þann hluta sem fólk fær að fylgjast með henni en hún ætlar ekki til baka í gamla lífsstílinn.

„Ég fór í myndatökur og mælingar til að sýna hvað væri að gerast og fór einnig í sumarfrí erlendis og sýndi þar hvað ég gerði til að vera á réttu róli í mataræðinu. Ég hafði engar öfgar þar heldur. Svo komu jólin og allt var uppi á borðinu þá líka,“ segir hún.

„Þetta er búið að ganga svo vel að ég sjálf er mjög hissa. Ég átti ekki alveg von á svona góðu gengi. En þetta ferðalag er búið að setja mig í réttan gír til framtíðar og mér líður frábærlega í eigin líkama og orkan er komin margfalt til baka.“

Hárið kom til baka

Á þessum átta mánuðum hefur Sigríður Rósa náð að léttast um 15 kíló og líkaminn er að komast í sama form og hann var áður en skjaldkirtillinn varð vanvirkur. Hún kann betur að meta hvaða vítamín líkami hennar þarf og passar að sleppa þeim ekki því þá finnur hún mun á sér.

„Ég hef líka verið að borða 16/8 í fjögur ár. Þá er ég að borða fyrstu máltíðina í hádeginu sem er algjör snilld fyrir minn líkama. En ég breyti stundum út af vananum, eins og í sumarfríinu en svo byrja ég strax aftur því ég finn svo mikla vellíðan á að vera í þeirri rútínu,“ segir Sigríður Rósa.

„Ég þarf minni svefn núna, 7-8 tímar duga mér. Einnig hefur hárið komið til baka og eins augabrúnin. Ég held mér hafi sjaldan liðið eins lifandi og vel eins og í dag. Af því að það að hlusta á líkamann sinn er allt sem þarf. Hann er svo fullkominn að hann lætur vita hvað hann þarf og vill bara að maður hlusti á einkennin.“ ■