Hin 29 ára gamla Amy Hart var einn kepp­enda í raun­veru­leika­þáttunum Love Is­land árið 2019. Hún mætti í dag fyrir nefnd breska þingsins um ein­elti á netinu og segist hafa fengið fjölda hótana og ljótra orð­sendinga á Insta­gram vegna þátt­töku sinnar. Hart vill að yfir­völd og sam­fé­lags­miðlar taki harðar á netein­elti og hótunum.

„Allir eru með trygginga­númer. Ef þú ert undir 16 ára aldri og ert ekki með slíkt, þá ættu for­eldrar að skrá sitt því ein morð­hótun var rakin til 13 ára barns,“ sagði Hart og vill að allir þeir sem búi til reikninga á sam­fé­lags­miðlum gefi upp rétt nafn til að draga megi úr nafn­lausum hótunum gegnum netið en megnið af netníð er dreift af nafn­lausum reikningum.

Flettir fólki upp á Face­book

„Þú veltir fyrir þér, ef þetta er það sem þau eru að gera 13 ára í svefn­her­berginu heima hjá mömmu og pabba, hvað munu þau gera upp á eigin spýtur þegar þau eru 18 og á eigin vegum?“ spurði hún þing­nefndina. Hún sagði að ef fólk skrifaði ljót um­mæli undir eigin nafni fletti hún fólki upp. „Ef ein­hver sendir mér ó­geð­fellda hluti og gera það af sínum eigin reikning fer ég beint á Face­book til að fletta þeim upp,“ sagði Hart.

„Ég var hrellt af hjúkrunar­fræðingum og fólki sem á eigin­menn og börn. Ég velti fyrir mér, ferðu í matar­boð og segir fólki að þú sért að hrella ein­hverja 29 ára gamla konu sem þú þekkir ekki? Ertu stolt/ur? Ég skil þetta ekki.“

Hart sagði nefndinni að þegar hún hóf þátt­töku í Love Is­land hafi hún verið með 300 þúsund fylgj­endur á Insta­gram. Eftir það voru þeir orðnir fleiri en milljón.

Sam­fé­lags­miðlarnir veita ekki stuðning þegar kemur að netníð.

„Sam­fé­lags­miðlarnir veita ekki stuðning þegar kemur að netníð. Ég hef til­kynnt sum skila­boð áður og þeir svara til baka 'Við höfum skoðað þetta og þetta brýtur ekki gegn skil­málum'.“ Þetta þykja henni ekki nógu góð svör.

„Ég er bara, sjáið þetta skila­boða­flóð sem býður mín fyrir klukkan sjö að morgni, þar sem ég fæ að heyra hve mikið þau hata mig, hversu hræði­leg ég er, af hverju allir hata mig, hversu ljót ég er - frá fölsuðum reikningi, reikningi net­hrellis, nafn­lausum reikningi. Og þú segir mér að það brjóti ekki gegn reglum?“ sagði Hart og bætti við að það gerði lítið gagn að til­kynna ljót skila­boð. „Ég eyði hlutum en þú sérð þessi skila­boð og ég hef senni­lega hætt að til­kynna þau því að það er til­gangs­laust.“