Fjórða þáttaröð Venjulegs fólks er komin í Sjónvarp Símans og þar segir af áframhaldandi hremmingum og hversdagslegum ævintýrum vinkvennanna Völu og Júlíönu sem bera nöfn leikkvennanna sem skópu þær.

„Það er bíó, bókstaflega, að fylgjast með vinkonunum en þær eru alltaf að reyna að finna sig og aðlagast nýjum aðstæðum,“ segir Júlíana.

„Þegar við byrjuðum að skrifa fyrstu þáttaröð af Venjulegu fólki óraði okkur ekki fyrir því að við myndum fara í fimm seríur,“ heldur hún áfram en þær eru þegar byrjaðar að skrifa fimmtu seríuna með sínu fólki.

„Þetta er algjör draumur og ég tala nú ekki um að vinna með svona frábæru fólki en þetta hafa alltaf verið við Vala Kristín, Fannar Sveins og Dóri DNA í handritaskrifunum en við fengum annan frábæran handritshöfund með okkur í lið í fjórðu seríu, hana Karen Björgu,“ segir Júlíana en sem fyrr framleiðir Glassriver þættina.

Það er náttúrlega algjör lottóvinningur að skrifa efni sem hefur fengið svona mikinn meðbyr en ég held að ástæðan sé meðal annars sú að það er alltaf þakklátt að fá aðeins meira grín í skammdegið og lægðirnar á þessu landi.“

Júlíana bætir síðan við að ekki spilli fyrir að fólk eigi að geta tengt við sögupersónurnar þar sem seríurnar fjalli um venjulegt fólk og uppákomur sem það lendir í.

„Og áhorfendur vilja greinilega sjá meira af ævintýrum þess,“ segir Júlíana spennt fyrir framhaldinu.
