„Markmiðið er að fólki líði minna eins og þau þurfi að keppa,“ segir Laufey Haraldsdóttir. Hún er ásamt Bryndísi Ósk Þ. Ingvarsdóttir höfundur þátttökuleiksýningarinnar Sjáið mig. Sýningin snýst um loddaralíðan og hversdagslegan keppnisskap.
Loddaralíðan, eða svikaraheilkenni, er íslenskun á hugtakinu Imposter Syndrome. Það er sú tilfinning að þú eigir ekki rétt á að vera þar sem þú ert, þú sért loddari eða svikari. Hugmyndin að sýningunni kemur frá eigin loddaralíðan Laufeyjar og Bryndísar.
„Okkur leið eins og við værum alltaf í lífinu að keppa,“ segir Laufey. „Bæði þegar kemur að vinnu og líka á samfélagsmiðlum, allir eitthvað að sýna sig, sjáið mig!“
Laufey og Bryndís höfðu aldrei áður sótt um Listamannalaun og kenndu loddaralíðaninni um. „Okkur leið alltaf eins og allir kunningjar okkar væru að fá einhver tækifæri en ekki við en það var bara af því við vorum ekki að sækjast eftir þeim,“ segir Laufey.

„Okkur leið eins og við værum að keppa við eitthvað fólk út í bæ sem vissi ekkert að það væri að keppa við okkur.“
Þær fengu þó styrkinn og á meðan þær unnu að sýningunni nutu þær mikillar velgengni í sínu fagi úr öðrum áttum. Bryndís var tilnefnd til Grímuverðlauna fyrir búninga í óperunni Ekkert er sorglegra en manneskjan og Laufey var ráðin sem spurningahöfundur Gettu betur. Þær þurftu meira að segja að fresta verkinu Sjáið mig því þær voru með aðra sýningu í Borgarleikhúsinu, Á vísum stað.
„Þegar við byrjuðum fyrir alvöru að vinna sýninguna þá föttuðum við að við vorum ekki alveg sömu manneskjur og manneskjurnar sem skrifuðu þessa umsókn, sem fengu þessa hugmynd,“ segir Laufey. „Það hafði líka áhrif á sýninguna. Það gaf aðra sýn á þessa loddaralíðan af því þá leið okkur minna eins og við værum loddarar.“
Áhorfendur keppast gegn keppnisskapi
Við gerð sýningarinnar veltu þær því fyrir sér hvort þær, og fólk yfirleitt, sé hreinlega ekki fært um að mæla eigin velgengni eða virði. „Við erum öll stundum á þessum stað,“ segir Laufey. „Þetta er svona „Hei, krakkar, við erum öll eins“-sýning.“
Sýningin byggir á þátttöku áhorfenda, sem þýðir að áhorfendur „þurfa að vera memm,“ eins og Laufey segir. Áhorfendur þurfa að leysa alls konar einfaldar þrautir á meðan á sýningunni stendur.
„Þrautirnar eru alls konar en alls ekki flóknar. Við erum mjög meðvitaðar um að sumir eru kannski smeykir við svona,“ segir Laufey. „Það eru fjölskyldumeðlimir sem hafa sagt „ég kem bara á næstu sýningu sem þið gerið, þetta er ekki fyrir mig.““

„En það þarf enginn að vera smeykur. Þetta er bara einfalt og sumar þrautirnar eru eitthvað sem fólk kannast við,“ segir Laufey. Hún nefnir að til dæmis er einföld spurningakeppni, myndagáta og ein þraut þar sem þarf bara að svara já og nei spurningum.
Sýningin er haldin í gamla íþróttasalnum í Miðbæjarskóla, sem er núna Kvennaskólinn. „Stemningin er eins og þú sért að fara í Tarzan-leik í íþróttum í gamla daga,“ segir Laufey. „Við erum í íþróttasal til að minna fólk hvernig það var að vera í íþróttum í gamla daga en þetta eru samt alls ekki íþróttir sem þau eru að keppa í.“
Að sögn Laufeyjar eru þrautirnar ekki líkamlegar. „Við setjum ekki miklar líkamlegar kröfur á fólk þannig að alls konar fólk geti komið,“ segir Laufey. „Það er óháð aldri og líkamlegri getu hvort þú standir þig vel.“
Leiksýningin frumsýnir fimmtudaginn 26. maí.