„Mark­miðið er að fólki líði minna eins og þau þurfi að keppa,“ segir Lauf­ey Haralds­dóttir. Hún er á­samt Bryn­dísi Ósk Þ. Ingvars­dóttir höfundur þátt­töku­leik­sýningarinnar Sjáið mig. Sýningin snýst um loddaralíðan og hvers­dags­legan keppnis­skap.

Loddaralíðan, eða svikara­heil­kenni, er ís­lenskun á hug­takinu Im­poster Syndrome. Það er sú til­finning að þú eigir ekki rétt á að vera þar sem þú ert, þú sért loddari eða svikari. Hug­myndin að sýningunni kemur frá eigin loddaralíðan Lauf­eyjar og Bryn­dísar.

„Okkur leið eins og við værum alltaf í lífinu að keppa,“ segir Lauf­ey. „Bæði þegar kemur að vinnu og líka á sam­fé­lags­miðlum, allir eitt­hvað að sýna sig, sjáið mig!“

Lauf­ey og Bryn­dís höfðu aldrei áður sótt um Lista­manna­laun og kenndu loddaralíðaninni um. „Okkur leið alltaf eins og allir kunningjar okkar væru að fá ein­hver tæki­færi en ekki við en það var bara af því við vorum ekki að sækjast eftir þeim,“ segir Lauf­ey.

Áhorfendur gera einfaldar þrautir í sýningunni.
Aðsend mynd/Leifur Wilberg

„Okkur leið eins og við værum að keppa við eitt­hvað fólk út í bæ sem vissi ekkert að það væri að keppa við okkur.“

Þær fengu þó styrkinn og á meðan þær unnu að sýningunni nutu þær mikillar vel­gengni í sínu fagi úr öðrum áttum. Bryn­dís var til­nefnd til Grímu­verð­launa fyrir búninga í óperunni Ekkert er sorg­legra en manneskjan og Lauf­ey var ráðin sem spurninga­höfundur Gettu betur. Þær þurftu meira að segja að fresta verkinu Sjáið mig því þær voru með aðra sýningu í Borgar­leik­húsinu, Á vísum stað.

„Þegar við byrjuðum fyrir al­vöru að vinna sýninguna þá föttuðum við að við vorum ekki alveg sömu mann­eskjur og mann­eskjurnar sem skrifuðu þessa um­sókn, sem fengu þessa hug­mynd,“ segir Lauf­ey. „Það hafði líka á­hrif á sýninguna. Það gaf aðra sýn á þessa loddaralíðan af því þá leið okkur minna eins og við værum loddarar.“

Áhorfendur keppast gegn keppnisskapi


Við gerð sýningarinnar veltu þær því fyrir sér hvort þær, og fólk yfir­leitt, sé hrein­lega ekki fært um að mæla eigin vel­gengni eða virði. „Við erum öll stundum á þessum stað,“ segir Lauf­ey. „Þetta er svona „Hei, krakkar, við erum öll eins“-sýning.“

Sýningin byggir á þátt­töku á­horf­enda, sem þýðir að á­horf­endur „þurfa að vera memm,“ eins og Lauf­ey segir. Á­horf­endur þurfa að leysa alls konar ein­faldar þrautir á meðan á sýningunni stendur.

„Þrautirnar eru alls konar en alls ekki flóknar. Við erum mjög með­vitaðar um að sumir eru kannski smeykir við svona,“ segir Lauf­ey. „Það eru fjöl­skyldu­með­limir sem hafa sagt „ég kem bara á næstu sýningu sem þið gerið, þetta er ekki fyrir mig.““

Markmiðið með sýningunni er að fólk minnki loddaralíðan sína og finnist það ekki þurfa að keppast endalaust.
Aðsend mynd/Leifur Wilberg

„En það þarf enginn að vera smeykur. Þetta er bara ein­falt og sumar þrautirnar eru eitt­hvað sem fólk kannast við,“ segir Lauf­ey. Hún nefnir að til dæmis er ein­föld spurninga­keppni, mynda­gáta og ein þraut þar sem þarf bara að svara já og nei spurningum.

Sýningin er haldin í gamla í­þrótta­salnum í Mið­bæjar­skóla, sem er núna Kvenna­skólinn. „Stemningin er eins og þú sért að fara í Tarzan-leik í í­þróttum í gamla daga,“ segir Lauf­ey. „Við erum í í­þrótta­sal til að minna fólk hvernig það var að vera í í­þróttum í gamla daga en þetta eru samt alls ekki í­þróttir sem þau eru að keppa í.“

Að sögn Lauf­eyjar eru þrautirnar ekki líkam­legar. „Við setjum ekki miklar líkam­legar kröfur á fólk þannig að alls konar fólk geti komið,“ segir Lauf­ey. „Það er óháð aldri og líkam­legri getu hvort þú standir þig vel.“

Leik­sýningin frum­sýnir fimmtu­daginn 26. maí.