Með haustinu koma kaldari vindar og nýjar flensur og þá er um að gera að klæða sig vel. Flíkurnar síkka og litirnir dekkjast frá sumri og því ber að fagna hér á Íslandi að peysur í öllum stærðum og gerðum voru áberandi á tískupöllunum í vetur þegar hausttískan var kynnt. Ullin var þá áberandi á tískupöllunum líkt og vanalega á haustin, enda einstaklega hlýtt og skemmtilegt hráefni sem hentar vel í yfirhöfn á hlýrri svæðum eða í flík undir jakka á kaldari stöðum. Þá var hið svokallaða „eftirskíða-útlit“ eða „après ski“ sérlega áberandi.

Það er list að blanda mynstrum en það tekst frábærlega með þessum flottu ullarpeysum frá Missoni. Leyndarmálið er að vinna með svipaða litatóna og ólík mynstur.
Getty

Mynstrin öll

Sérstaklega bar á mynstruðum ullarpeysum fyrir öll kyn. Mynstrin koma í öllum litum og gerðum, sum eru geómetrísk og önnur lífræn og flæðandi. Ýmis peysumynstur eru í einföldum litum á meðan aðrar peysur eru í áberandi litum. Nokkur minna ansi hressilega á íslensku lopapeysurnar sem við flest eigum einhvers staðar inni í skáp.

Íslenska lopapeysumynstrið leysist upp í geómetrísk flæðandi form og yrjóttan neðripart hjá Prada í Mílanó í febrúar. Liturinn vekur athygli.
Getty

Teygjum lopann

Nú er um að gera að leita í skápunum og fara í gegnum pokana í geymslunni og athuga hvort ekki finnist einhverjar fallegar handprjónaðar ullarpeysur sem komu sem jólagjafir síðustu ár. Ekki er svo verra ef einhverjir skemmtilegir litir eru í prjóninu.

Stór ullarpeysa úr smiðju Philosophy. Haust og vetur 2021/22 voru kynnt í Mílanó í febrúar.
Getty
Giorgio Armani er með puttann á púlsinum með þessari flottu og formfögru ullarpeysu í febrúar.
Getty