Ellie Violet Bramley skrifar á vef The Guardian um Ófærð 2, sem BBC Four, sýnir í Bretlandi og hvetur þá sem ekki hafa nú þegar kveikt á Ófærð að drífa sig í því. Hún lætur þess getið að þættirnir hafi slegið hressilega í gegn og góðar og gildar ástæður séu fyrir því að tíu milljón manns hafi horft á Ófærð í Bretlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Norðurlöndunum, að sjálfsögðu.

Hún segir Ófærð 2 hverfast um málefni sem brenni á samtímanum; öfga hægri, efnahagskvíða, umhverfisvá og svo einnig „ullapeysuklám.“ Þá taki þættirnir einnig á hómófóbíu, íslamfóbíu og útlendingaandúð sem öllu sé svo blandað saman við stóran skammt af eitraðri karlmennsku.

Þótt viðfangefni Ófærðar 2 séu um margt alþjóðleg segir hún þá vera áberandi íslenska og þar vegi náttúran þungt. Hún rifjar upp ummæli helsta hugmyndafræðings þáttanna, Baltasars Kormáks, um að þeir séu blanda af Nordic noir og Aghötu Christie þá felist sérstaða þeirra einnig í því að góðum skammti af David Attenborough er bætt saman við blönduna.

Hún segir ýmislegt hafa breyst síðan 2016, bæði í veröldinni og heimi Ófærðar, en sem fyrr bjóði þættirnir upp á skandinavíska rökkurblöndu vandræða og notalegheita með mikill mannlegri dýpt. „Og gleymum ekki ullapeysukláminu.“