Menn hafa baðað sig upp úr heita vatninu sem hér rennur um allar trissur síðan land var numið og eru Hrólfur, Marcos og Sigríður sammála um dýrmæti þess að fá tækifæri til þess að þróa þá sögu áfram um land allt. „Það er spennandi að nýta heita vatnið og orkuna sem Ísland hefur upp á að bjóða, en umræðan um vistvænt umhverfi og nýtingu jarðorkunnar hefur verið áberandi upp á síðkastið,“ segir Sigríður. Fyrsta skrefið í sérhverju verkefni er að kynnast menningarsögu og jarðfræðilegri legu staðarins. Efnisnotkun endurspeglar þá oftar en ekki eiginleika umhverfisins og spilar ríkan þátt í hönnun bygginganna.

Blue Lagoon

Bláa lónið ýtti ævintýrabátnum úr vör. Að mati þremenninganna er Grímur Sæmundssen, eigandi Blue Lagoon, frumkvöðull í því að vekja upp og þróa áfram baðstaðamenninguna á Íslandi. Uppbygging lónsins hófst um 1990 og opnaði fyrsti áfangi verkefnisins árið 1999. Síðasti stóri áfanginn opnaði 2018. Basalt hlaut árið 2018 hönnunarverðlaun fyrir hönnunina á GeoSea á Húsavík og Retreat við Báa lónið. Verðlaunin voru veitt fyrir þróun baðmenningar á Íslandi. „Það voru ansi margir vantrúaðir á þessar stóru fyrirætlanir Gríms í upphafi og töldu hann setja markið allt of hátt. En þarna setti hann ákveðinn vendipunkt í uppbyggingu ferðamannastaða og vandaðri þjónustu fyrir alla,“ segir Sigríður.

Bláa lónið og hraunið í jarðfræðilegum dans.
Mynd/Giorgio Possenti

Jarðsagan er vel nýtt í Bláa lóninu og er hraunið víða tekið inn í hönnun, arkitektúr og efnisnotkun. Það rammar inn baðstaðinn sjálfan en er einnig rammað inn af gluggum og opum í byggingunni líkt og málverk.

Mynd/Ragnar Th Sigurðsson / Arctic Images

Blágrænir þörungar, kísill og salt skapa sérstöðu í lóninu en vatnið býr yfir eiginleikum sem hefur reynst fólki með sóríasis mjög vel. Vegna efnasamsetningar er ekki hægt að byggja úr hvaða efni sem er. „Ef þú gleymir kopar úti í lóninu eða nálægt því, yfir nótt, þá er hann ónýtur á morgun,“ segir Sigríður.

Skrímslavakir sem aldrei leggur

Vök á Egilsstöðum tengist gömlum sögnum en sagt er að skrímslið Tuska haldi til í vatninu. Undarlegt þótti að ákveðna fleti á stöðuvatninu lagði aldrei að vetrum þó afgangurinn frysi. Menn útskýrðu þetta með skrímsli miklu sem kæmi í veg fyrir það. Svo kom í ljós að á botni vatnsins streymir heitt vatn upp á yfirborðið og myndaði vakir á vatninu. Nú hefur heita vatnið verið virkjað og þjónustar þéttbýlið.

Skrímslið Tuska eða uppstreymi heits vatns?
Mynd/Vök Baths

Sagan er endurvakin í heitum laugum sem eru eins og vakir í vatninu þó allt leggi í kring. Heita vatnið sjálft er eina vottaða drykkjarhæfa heita vatnið á landinu. Það er um 70°C heitt og má meðal annars neyta þess í teformi á veitingastaðnum í Vök.

„Ein af okkar reglum er að sækja aldrei innblásturinn langt yfir skammt. Til að tengja umhverfið inn í bygginguna nýttum við trjádrumba sem mót í steypunni. Þannig fengum við andhverfuna af trjánum á veggina og endurspeglum Hallormsstaðarskóg í hönnuninni,“ segir Hrólfur.

Trjábolir voru notaðir í steypumótin í veggi Vök til að endurspegla skóginn.
Mynd/Basalt arkitektar

GeoSea

„Sjóböðin á Húsavík eru staðsett skemmtilega norðarlega, upp við Atlantshafið og vildum við nýta þá staðreynd. Á hásumrin, þegar sólin sest, þá sest hún raunar ekki alveg, heldur rétt dottar hún í sjóndeildarhringnum og rís svo aftur upp. Þetta þótti okkur mikilvægt að sæist vel frá böðunum,“ segir Sigríður.

GeoSea sjóböðin eru staðsett á Húsavík.
Mynd/Geosea

Guðlaug

Guðlaug á Langasandi á Akranesi er byggð fyrir tilstuðlan minningarsjóðs hjónanna frá Bræðraparti. „Þegar við fórum að skoða aðstæður hafði geisað stormur sem orsakaði að grjót lá um alla ströndina. Þegar fjarar inn og út myndast litlir pollar í kringum grjótið og veitti það okkur innblástur við hönnunina,“ segir Hrólfur. Byggingin er í þremur stöllum með útsýnispalli efst og vatnið kemur úr Deildartunguhver.

Heita vatnið er dýrmæt náttúruauðlind og nýtist vel í þessari fallegu byggingu.
Mynd/Ragnar Th Sigurðsson / Arctic Images

„Stundum er svo mikill straumur og rok frá Atlantshafinu að öldurnar skella alveg upp að göngustígnum. Við vildum gefa fólki tækifæri til að upplifa kraftinn í öruggu skjóli,“ segir Hrólfur. Fyrir neðan útsýnispallinn eru tvær laugar. Efri er heitari og býður upp gott skjól. Neðri tekur við affallinu frá efri lauginni og er því kaldari. Með þessu er betri nýting á heita vatninu. Neðri laugin hentar á heitum sumardögum, en er einnig hugsuð sem miðstig fyrir sjósundsiðkendur. „Það getur valdið yfirliði að fara úr of köldum sjónum yfir í of heitt. Hitastig kaldari laugarinnar passar vel sem millistig áður en fólk færir sig yfir í heita pottinn á efri hæðinni,“ segir Sigríður.

Mynd/Magnús Aðalmundsson

Fjallaböðin í Þjórsárdal

Í Fjallaböðunum í Þjórsárdal var unnið sérstaklega með landslagið, fjöllin og Rauðakamb í kring með því að fella húsin inn í fjallið. Jarðvegurinn er nýttur til að minnka sjónræn umhverfisáhrif og laga bygginguna að náttúruinni. „Þannig verða jarðsagan og jarðlögin hluti af húsinu,“ segir Marcos.

„Við erum óhrædd við að nota náttúruleg byggingarefni í húsin. Þá höfum við reynslu af því að samtvinna byggingar umhverfinu svo að náttúran verður hluti af innra rýminu. Þá kemur fyrir að vatnið úti leiti inn en húsið er hannað til að taka á móti rigningunni á eðlilegan hátt eins og umhverfið. Þetta getur um leið orðið mikil upplifun fyrir gesti þar sem mörk þess sem er inni og úti verða óskýr,“ bætir Hrólfur við.

Fjallaboðin í Þjórsárdal eru stórt og áhugavert verkefni þar sem húsin eru bókstaflega byggð inn í fjallshlíðina.
Mynd/Basalt arkitektar

Skógarböðin

Skógarböðin á Akureyri eru í uppbyggingu hjá stofunni en þau eru staðsett inni í skógi. Þar nýta arkitektar efni úr umhverfinu og húsið er að hluta til byggt úr timbri og klætt ur timbri. Svo er trjám meira að segja plantað í miðjum laugunum. „Þannig viljum við að gestir upplifi umhverfið og skóginn með Akureyri bakgrunni,“ segir Hrólfur.

Böðin falla vel inn í umhverfið.
Mynd/Basalt arkitektar

Heitavatnið sem mun renna í Skógarböðin fannst við gerð Vaðlaheiðagangna. Þessi heita uppspretta mun því nýtast í böðunum áður en það rennur út í sjó. Böðin opna fyrri hluta árs 2022