Sálfræðimenntaða f lugfreyjan og jógakennarinn Anna Gréta Oddsdóttir opnaði nýlega vefverslunina elba.is þar sem hún selur náttúrlegar húðvörur sem hún hefur reynt á eigin skinni. „Ég var með mjög slæma húð og það hafði mikil áhrif á sjálfstraust mitt og líðan og það hefur svo margvísleg áhrif á líf manns ef manni líður ekki vel með sjálfan sig,“ segir flugfreyjan og jógakennarinn Anna Gréta Oddsdóttir sem opnaði nýlega vefverslunina elba.is, ekki síst af hugsjón. 

„Ég hef þurft að kynna mér alls konar snyrtivörur og þegar ég var að prufa mig áfram fann ég að náttúrlegar snyrtivörur henta húð minni mjög vel og ef við veljum lífrænar snyrtivörur, sem eru jafnvel oft vegan og ekki prófaðar á dýrum, þá fer þetta allt saman. Að bera virðingu fyrir sjálfum sér, jörðinni og dýrunum.“ 

Þegar Anna Gréta fór að hugsa á þessum nótum fannst henni vanta einfalda leið fyrir fólk að kaupa sér snyrti- og húðvörur sem hvorki skaða það sjálft né umhverfið. 

„Húðin er náttúrlega stærsta líffærið okkar og við þurfum að hugsa vel um hana. Við erum mörg oft í ræktinni og vöndum okkur við að borða hollt og svo berum við kannski endalaust af eiturefnum á húðina. Og það bara passar ekki saman.“ 

Anna Gréta leggur einnig áherslu á að tilgangur snyrtivara eigi ekki að vera að breyta útlitinu. „Við eigum frekar að nota okkar innri ljóma og nota förðunarvörur sem ýta undir innri fegurð okkar. Þú átt aldrei að vera að fela neitt.“ 

Vefverslunin er nefnd eftir leikaranum Idris Elba en það var þó nokkuð þvingað. 

„Án gríns þá var ég búin að vera að leita að nafni sem stæði fyrir eitthvað sem er hreint og tært en Frigg og Mjöll voru frátekin af efna- og málningarverksmiðjum þannig að ég gat ekki notað þau. Þá datt mér Idris í hug en fólk misskildi það hægri vinstri þannig að þá hugsaði ég bara: „En hvað um Elba.is? Eins og Idris Elba. Þannig að síðan er í alvörunni nefnd eftir honum, enda er ekki hægt að segja neitt ljótt um Idris Elba. Hann er bara afar myndarlegur, flottur og góður leikari .“