Stikla úr þriðju seríunni af Ó­færð er loksins komin á netið. Fyrstu tvær seríurnar með lög­reglu­fólkinu Andra og Hin­riku, leikin af þeim Ólafi Darra Ólafs­syni og Ilmi Kristjáns­dóttur slógu í gegn í Ríkis­út­varpinu.

Í nýju seríunni er Andri kominn í nýtt hlut­verk innan lög­reglunnar, hann sinnir nú rann­sókn efna­hags­brota þar sem gömul störf gengu of nærri honum. Hann er hins­vegar kallaður til þegar maður finnst látinn sem Andri hafði af­skipti af átta árum áður.

Fyrsti þáttur í seríunni verður sýndur á RÚV þann 17. októ­ber. Meðal leikara er hinn heims­frægi Tomas Bo Larsen frá Dan­mörku sem gerði garðinn frægan í kvikmyndunum Jagten og Druk, en Frétta­blaðið ræddi við hann í fyrra þegar hann var á landinu við tökur.

Í þetta skiptið taka þau Andri og Hin­rika höndum saman að nýju og rann­saka flókið morð­mál. Þeim til halds og trausts er Trausti, yfir­maður Andra, leikinn af Birni Hlyn Haralds­syni.