Þegar Matrix Revolutions, þriðja myndin í seríunni, var sýnd 2003 þvertóku Wachowski-systurnar, sem þá voru reyndar Wachowski-bræðurnir, fyrir að sú fjórða yrði nokkurn tíma gerð. Það var ekki fyrr en 2019 að tilkynnt var að sú fjórða yrði gerð, Lana Wachowski myndi leikstýra henni en Lilly systir hennar yrði ekki með að þessu sinni. Hins vegar myndu Keanu Reeves og Carrie-Anne Moss snúa aftur í hlutverkum Neos og Trinity.

Matrix Ressurections er engin smáframleiðsla. Við tökur á nætursenu í miðborg San Francisco þurfti að loka allri miðborginni fyrir annarri umferð. Í einni senunni stökkva Neo og Trinity fram af 43 hæða byggingu með háhýsi borgarinnar og Golden gate-brúna í baksýn. Strengja þurfti víra yfir í bygginguna handan við götuna og við það notaðir drónar. Atriðið virðist sannarlega vera stórhættulegt fyrir áhættuleikarana en Scott Rogers, sem sá um áhættuatriðin, bar fullkomið traust til alls öryggisbúnaðar. Svo mjög, að sú sem leikur áhættuatriðið í stað Moss er engin önnur en dóttir hans, Ella Ann Rogers.

Söguþráðurinn er svo vel varðveitt leyndarmál að nær ekkert er vitað um hann. Þó er vitað að bardagasenurnar eru undir miklum kung fu-áhrifum og höfundur þeirra horfir mikið til kínverskrar bardagalistar og í víðum skotum er lögð áhersla á samfelldar og flæðandi hreyfingar en þegar myndavélin kemur nær verða hreyfingarnar og átökin hrjúfari og harkalegri.

Matrix-myndirnar eru fyrir löngu orðnar költ og fagnaðarefni er að nú skuli bætast í þá smiðju.

Sambíóin Álfabakka, Egilshöll Kringlunni, Akureyri, Keflavík, Smárabíó, Laugarásbíó, Borgarbíó Akureyri og Háskólabíó.

Frumsýnd 22. desember 2021

Aðalhlutverk:
Keanu Reeves, Christina Ricci,
Priyanka Chopra Jonas
og Carrie-Anne Moss.

Handritshöfundar:
Lana Wachowski, David Mitchell
og Aleksandar Hemon.

Leikstjóri:
Lana Wachowski.

Sýnd í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll Kringlunni, Akureyri, Keflavík, Smárabíó, Laugarásbíó, Borgarbíó Akureyri og Háskólabíó.

Ekki ætluð yngri en 12 ára.

Fróðleikur

  • Leonardo DiCaprio, Ewan McGregor og David Duchovny höfnuðu allir hlutverki Neos áður en Keanu Reeves var boðið það.
  • Will Smith hafnaði boði um að leika Neo til að leika í WIld Wild West.
  • Sean Connery vildi ekki leika arkitektinn í The Matrix Reloaded.