„Ég hef aldrei verið á Þjóðhátíð. Hvorki til að skemmta mér né til að skemmta fólki,“ segir Herbert Guðmundsson, sem ætlar að taka alla sína „hittara“ í Eyjum um verslunarmannahelgina.

„Mér finnst þetta rosa heiður. Það verður nú að segjast eins og er. Ég er á sunnudeginum á undan Brekkusöngnum þannig að það er bara heiðurinn ógurlegi,“ segir Hebbi og dregur hvergi úr því hversu peppaður hann er fyrir þessu giggi sem, ef af líkum lætur, verður það fjölmennasta sem hann hefur mætt á allan sinn feril.

En hvað kemur til? Hringdi bara þjóðhátíðarnefnd í þig og bara: You can´t walk away. Nú kemurðu í Dalinn?

„Já, það var einhvern veginn þannig, sko. Ég er náttúrlega mjög tengdur Eyjunum. Ég var á sjó þarna. Ég var kokkur á Guðberginu. Ég var á loðnunni þarna í „old days“ þannig að ég á bræður í Vestmannaeyjum. Raggi rakari er bróðir minn og Siggi Gúmm, sem er frægur Vestmannaeyingur og var formaður Hrekkjalómafélagsins,“ heldur Hebbi áfram.

Nær til krakkanna

„Síðan er ég náttúrlega búinn að eiga lag sem fór í 1. sæti, Með stjörnunum, og svo er bara einhvern veginn búinn að vera rosalegur meðbyr. Ég er búinn að vera svo mikið að skemmta krökkunum í fjölbrautaskólunum og menntaskólunum. Ég var á árshátíð Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum um daginn, sextán til nítján ára krakkar.

Ég er að skemmta í tvítugsafmælum. Ég er bara að ná til krakkanna og finnst það æðislegur heiður,“ segir Hebbi sem telur vindinn sem hann er með í seglunum loksins hafa skilað honum á hátíðina þar sem hann ætlar að keyra stuðið í botn.

„Ég er nú með svona stuðprógramm sem ég tek mikið þegar ég er að skemmta,“ segir Hebbi þegar hann er spurður hvort hann ætli að bjóða upp á gamalt efni í bland við nýtt.

„Tekurðu ekki örugglega Can´t Walk Away?“ segir hann með leikrænum tilþrifum þegar hann ber upp þráláta spurningu sem hann fær reglulega. Nei, ég sleppi því,“ svarar hann síðan sjálfum sér í hæðni.

„Auðvitað tek ég Can´t Walk Away og ég tek Með stjörnunum og Eilíf ást. Ég er með svona uppfærða Stop Wait Go útgáfu af Eilíf ást sem virkar ofsalega vel þegar ég er að skemmta á stórum árshátíðum, böllum og svona. Svo les maður salinn, skilurðu?“

Dansa eins og óðir

Auðvitað verður ekki hjá Can´t Walk Away komist en ertu orðinn leiður á því?

„Nei. Maður kemst yfir það þegar þú horfir á salinn og allir spretta upp og byrja að dansa eins og óðir. Það gefur manni svo mikið kikk að sjá hvernig það virkar á salinn,“ segir Hebbi og kallar til vitnis plötusnúða sem hann hitti stundum. „Þeir segja mér að ef það er þungur salur þá setji þeir bara Can´t Walk Away á og allir fara á gólfið.“

Þetta er náttúrlega tærasta 80´s-lag allra tíma og hefði í raun átt að gera þig heimsfrægan. Hvað var eiginlega að gerast í hausnum á þér þegar þú hittir á þennan hreina tón?

„Maður á svona lög bara. Þetta er eitthvert „magic“. Ef ég vissi formúluna þá væri ég búinn að nota hana oft. En náttúrlega nýja lagið mitt, Með stjörnunum, nú eru menn sko að segja við mig að þeim finnist Með stjörnunum eiginlega betra en Can´t Walk Away. Svo segja aðrir bara: Nei, ekki að ræða það. Það er gaman af þessu.“