Ég er mikil útivistarkona, geng oft á fjöll og er hálendi Íslands minn uppáhaldsstaður,“ segir keramíkhönnuðurinn Hanna Gréta Pálsdóttir sem stikar Laugaveginn milli Landmannalauga og Þórsmerkur eins oft og hún getur, nú síðast tvisvar í sumar.

„Ég prílaði líka upp á alla hóla í Landmannalaugum og þar greyptist litadýrð náttúrunnar í huga mér, þessi ljósbrúni og græni litur sem er svo einkennandi fyrir borðbúnaðinn minn.“

Notið við öll lífsins tilefni

Hanna Gréta er að vísa til gullfallegra matarstella og eldhúsáhalda sem hún vinnur úr keramíki.

„Einkenni sköpunarverks míns eru sterkir jarðlitir, einfaldleiki og fjölþætt notagildi. Ég er alltaf með hugann við að fylla ekki skápana af of miklu leirtaui heldur nota til fulls það sem er til. Ofneysla á veraldlegum hlutum hefur fyllt mig nýrri hugsun og því hefur flest sem ég bý til fleiri en eitt notagildi. Þannig geta kaffibollarnir líka nýst sem ílát fyrir bráðið smjör út á fiskinn eða súkkulaðisósur og súpuskálarnar jafnt fyrir grauta eða sósur með sunnudagslærinu,“ segir Hanna Gréta.

Borðbúnaður Hönnu Grétu er sterkur og þolir meira að segja að fara í uppþvottavélina.

„Ég bý til minn eigin rammsterka glerung og leitast við að endurspegla náttúru landsins í því sem ég vinn með. Ég hef aðeins verið að fikra mig áfram með blágrýti og íslenskan leir en þó er Hekluvikur og granít orðið að vörumerki mínu,“ segir Hanna Gréta sem vill að litir og form fái notið sín. „Því set ég ekki heldur mikið af höldum eða hönkum á vörurnar því það eykur bæði brothættu og passar verr inn í skápana.“

Keramíkin kallaði óvænt á Hönnu Grétu þegar hún var í listnámi á Englandi.

„Ég ætlaði mér alltaf að verða listamaður og tók keramíkskúlptúr sem lokaverkefni en þá varð ekki aftur snúið. Ég kolféll fyrir notagildi leirsins og því að búa til nytjalistmuni til heimilisins. Mig langaði að skapa eitthvað sem hefur tilgang og allt eru það hlutir sem þurfa ekki að geymast inni í skáp heldur eru til prýði á borðum og fyrst og fremst til daglegrar notkunar. Matarstell á nefnilega að nota og njóta við öll lífsins tækifæri, jafnt hvunndags og við hátíðlegri tilefni.“

Vinnustofan í garðinum

Hanna Gréta keypti í fyrra íbúð á Langholtsvegi með ónýtum bílskúr í garðinum. Eftir ársvinnu Hönnu Grétu og föður hennar er skúrinn nú orðinn að glæsilegri vinnustofu sem var opnuð á dögunum.

„Við pabbi klæddum skúrinn nýju bárujárni, endurnýjuðum þakið og skiptum um glugga en það eina sem við gerðum ekki upp á eigin spýtur var að tengja rafmagn í skúrinn. Það er góð tilfinning að hafa nostrað við þetta sjálf og við pabbi erum full stolts og gleði að verkinu loknu,“ segir Hanna Gréta og hrósar happi yfir því að hafa hnotið um nýju heimkynnin.

„Það er vitaskuld draumur að vera með vinnustofu í garðinum og geta farið snemma í skúrinn um helgar en á sama tíma sinnt fjölskyldunni vel og verið með kvöldmatinn á skikkanlegum tíma. Ég á þrjá stráka sem eru duglegir að nota vörurnar mínar og sýna keramíkinu áhuga. Þeir ná sér frekar í keramíkskál undir morgunkornið en plastskál, drekka úr bollunum mínum og leggja á borð með stellinu hennar mömmu sinnar,“ segir Hanna Gréta og líkir sér við smið þar sem heimilið situr á hakanum.

„Það er þó táknrænt fyrir hugsjón mína að nota sem best það sem til er, en ég er alltaf með samtíning af því sem ekki hefur selst hjá mér. Það kemur samt að því einn daginn að ég verð búin að gera borðbúnað fyrir sjálfa mig.“

Lærir margt af fólkinu í Ási

Hanna Gréta vinnur nú að kappi við að bæta nýjum vörum í línuna sína.

„Fyrir jól í fyrra hannaði ég skál fyrir hunang og nú bætist við ný skál fyrir olíu og lítill bakki undir þessa samsetningu. Margir safna þessum borðbúnaði sem samanstendur af skálum, litlum diskum og nú nýjum matardiskum, og svo eldföstum mótum og saltstaukum sem ég bjó til fyrir sjálfa mig af því mig vantaði einn slíkan en sló svo óvænt í gegn,“ segir Hanna Gréta sem selur vörur sínar hjá Systrum og mökum og svo heima í vinnuskúrnum.

„Þeir sem versla mest við mig eru Íslendingar. Þetta er því ekki túristavara þótt hún sé svona náttúruleg og það er ótrúlega skrýtið,“ segir Hanna Gréta sem starfar einnig við keramíkkennslu hjá Styrktarfélaginu Ási en þar starfa einstaklingar með skerta starfsgetu.

„Ég er mjög svo heppin að vinna með þessu góða og skapandi fólki, og hef lært mikið af því. Við vinnum að vöruhönnun, skarti, mósaík og nytjalist og það er margt mjög fallegt sem við gerum,“ segir Hanna Gréta en á Ási er listmunabúð og svo jólamarkaður þegar nær dregur jólum.

Hægt er að hafa samband við Hönnu Grétu á Facebook eða í tölvupósti í gegnum heimasíðuna hannagretakeramik.com.

„Fólk er alltaf velkomið þegar ég er heima og á laugardögum fyrir jól verður opið á vinnustofunni.“