Þriðji þátturinn í Marvel seríunni um Loka kom út í dag á Disney plús og staðfesti að hann sé tvíkynhneigður.

HÖSKULDARVIÐVÖRUN

Loki staðfestir kynhneigð sína í samtali við nýja dularfulla persónu að nafni Sylvie, sem er kvenkyns útgáfa af Loka frá annarri tímalínu. Sylvie spyr Loka hvort hann hafi verið í ástarsambandi við einhverjar prinsessur eða jafnvel prinsa og Loki svarar: „Sitt af hvoru tagi.“

Kate Herron, framleiðandi og leikstjóri þáttanna, segir mikilvægt að segja beint út að Loki sé tvíkynhneigður.

„Það var gríðarlega mikilvægt fyrir mig alveg frá upphafi að staðfesta það að Loki væri tvíkynhneigður. Þetta er hluti af honum og hluti af mér. Ég veit að þetta er bara lítið framfaraskref en ég er svo ánægð og mér hlýnar um hjartarætur að segja að þetta sé staðfestur hluti af sögunni.“

Líkt og Íslendingar vita vel er Marvel persónan byggð á vömm allra goða og manna, Loka Laufeyjarsyni úr norrænni goðafræði. Þá er alveg hægt að segja að hann sé ekki gagnkynhneigður en hann eignast börn með ýmsum vættum af mismunandi kynum, þar á meðal tröllkonunni Angurboðu og hestinum Svaðilfara en þá brá Loki sér í líki hryssu og eignaðist hestinn Sleipni.

Hýrginning ekki lengur í boði

Hinsegin kvikmynda- og sjónvarpsþáttaaðdáendur hafa lengi kallað eftir því að handritshöfundar hætti að gefa í skyn að persónur séu hinsegin án þess að staðfesta það. Sú aðferð hefur verið kölluð á hýrginning (e. queerbaiting), og eru þá hinsegin áhorfendur lokkaðir að skjánum án þess að fæla frá áhorfendur sem eru með fordóma gegn hinsegin fólki. Sem dæmi um hýrginningu má nefna samband Sherlock Holmes og John Watson í BBC þáttunum Sherlock og Castial og Dean Winchester í Supernatural, sem höfundar reyndar leiðréttu eftir mikla gagnrýni frá hinsegin áhorfendum.

Önnur tegund af hýrginningu er að segja að persónur séu hinsegin án þess að nefna það í bókum eða handritum, eins og Albus Dumbledore og Gellert Grindelwald í Harry Potter heiminum.