Aðdáendur Game of Thrones hafa beðið í ofvæni síðan í ágúst 2017 eftir lokakafla þáttanna og í gær tilkynnti kapalstöðin HBO að nú eru aðeins 90 dagar eftir þar sem fyrsti þáttur áttundu seríu fer í loftið þann 14. apríl.

Þessi lokakafli telur aðeins sex þætti sem þó verða allir lengri en klukkustund og hermt er að í raun sé hver og einn þeirra ígildi bíómyndar. Lokaþáttur síðustu seríu skildi við áhorfendur og persónur þáttanna á ögurstundu þegar veggurinn í norðri var við það að falla og ljóst að framundan er blóðugt lokauppgjör margar og ólíkra fylkinga.

Í stiklunni sem fylgdi tilkynningunni um upphaf áttundu seríu sjást Stark-systkinin Jon Snow, Arya og Sansa koma saman í kjallara ættaróðalsins í  Winterfell við styttur forfeðra sinna þar sem þau draga sverð úr slíðrum tilbúin til þess að mæta aðsteðjandi ógn.