Í kvöld fara fram í Iðnó styrktartónleikar á vegum Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur. Um 70 ungir einstaklingar greinast á ári hverju og hefur það bæði áhrif á þau greindu sem og fjölskyldur og ástvini þeirra.
Tónleikarnir eru þeir síðustu í tónleikaferðalagi styrktarfélagsins um landið allt en tilefni þeirra er er alþjóðlegur baráttudagur gegn krabbameinum sem er í dag. Markmið tónleikanna er að fá fólk til að koma saman og njóta líðandi stundar því lífið er núna og styrkja gott málefni í leiðinni.
Tónleikaröðin hófst á þriðjudag á Höfn í Hornafirði en þaðan var farið í Neskaupstað, til Akureyrar og svo í Reykjanesbæ í gær. „Við erum búin að þræða landið og kynna boðskapinn,“ segir Stefán Magnússon framkvæmdastjóri styrktarfélagsins.
Að hans sögn er um að ræða fjölbreytta skemmtun sem hentar breiðu aldursbili.
Tónlistarfólkið sem kemur fram eru þau Anya, Elín Hall, Sycamore Tree, Langi Seli og skuggarnir, Unnsteinn og Hermigervill, Bríet og hljómsveit og Grunge rokkmessa og Stebbi Jak sem hefur ferðast með félaginu um landið allt.
„Þegar ég setti line-upið saman vissi ég ekki að Langi Seli og skuggarnir væru í Söngvakeppninni en það má fastlega búast við því að þeir taki Eurovision-lagið, og Breiðholtsbúgí,“ segir Stefán léttur.
Tónleikarnir í Iðnó í kvöld hefjast klukkan 19 og standa til 23 en húsið er opnað klukkan 18.
Hann segir að fólk geti komið og verið allan tímann eða litið við og hlustað á ákveðinn tónlistarmann.
Hægt er að tryggja sér miða með því að kaupa hann á tix.is eða við innganginn. „Síðustu miðarnir verða seldir við hurð,“ segir Stefán en miðinn kostar 3.500 krónur og rennur ágóði styrktartónleikanna til Krafts og starfsemi félagsins í þágu ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda.