Vanessa Bry­ant hefur á­kveðið að höfða mál gegn fé­laginu Is­land Express sem átti þyrluna sem fórst þann 26. janúar og varð níu manns að bana, þar á meðal Kobe og Gianna Bry­ant. Að því er kemur fram í frétt TMZ um málið segir í kærunni að þyrlan hafi ekki átt að fá leyfi til að fljúga þann dag vegna slæmra veður­skil­yrða.

Í yfirlýsingu sem Island Express gáfu út í kjölfar slyssins kom fram að hætt hafi verið við öll flug hjá fyrirtækinu þar til það þætti við hæfi að bjóða upp á flug á ný.

Samkvæmt TMZ fer Vanessa fram á bætur vegna slyssins en ekki kemur fram hversu háar bæturnar eru. Einnig er farið fram á að fyrirtækið greiði útlagðan útfararkostnað. Þá kemur fram að flug­maðurinn hafi verið að ferðast á 290 kíló­metra hraða þrátt fyrir mikla þoku, að hann hafi ekki fylgst nægi­lega vel með veðri og ekki tekið til­lit til breyttra veður­skil­yrða.

Líkt og áður hefur verið greint frá hrapaði þyrlan í Cala­basas í Kali­forníu og létust allir um borð við brot­lendingu. Fjölmargir hafa minnst Kobe og dóttur hans frá því að þau létust og hafði dauði þeirra mikil áhrif víða, ekki aðeins innan körfuboltaheimsins.

Minningar­at­höfn fyrir Kobe og dóttur hans Gianna fer nú fram í Stap­les Center í Los Angeles í Kali­forníu. Hægt er að fylgjast með at­höfninni í beinni hér fyrir neðan.