Lögreglustjórinn á Suðurnesjum birti myndband þar sem lögreglufólk sést stíga trylltan dans í takt við lagið Blinding Lights með tónlistarmanninum Weekend. Blikkandi sírenur og ljósastikur setja svip sinn á myndbandið sem hefur hlotið mikið lof áhorfenda. Nú þegar hafa yfir 17 þúsund manns horft á myndbandið sem birt var í gærkvöldi.

Blóð, sviti og tár

Með myndbandinu bætist lögreglan á Suðurnesjum í hóp viðbragðsaðila í framlínu sem hafa tekið áskorun um að sýna tónlistaratriði.

„Við verðum að taka þátt í þessu með öðrum viðbragðsaðilum í framlínunni. Okkar framlag var sko ekki tekið í einu skoti heldur kostaði þetta blóð, svita og tár,“ segir í lýsingu myndbandsins á Facebook. Sjón er sögu ríkari en myndbandið má sjá hér að neðan.