Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sett upp jólaskreytingar á lögreglustöðinni, er það ekki frá sögum færandi nema að þær eru að sjálfsögðu í anda lögreglunnar. Er meðal annars búið að setja lögregluborða utan á jólatréð. Þá er hinn frægi lögregluþjónn jólanna, John McClane úr kvikmyndinni Die Hard orðinn að skrauti á tölvu eins lögregluþjóns.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að stutt sé í húmorinn þegar kemur að skreytingum.

„Húmor er það sem gerir okkur að manneskjum, sameinar fólk og léttir okkur augljóslega lífið. Það á ekki síst við í vinnu lögreglu, þar sem húmor er notaður til mótvægis við mörg erfið verkefni,“ segir í tilkynningunni.