Maríu G. Davíðsdóttur, hesteiganda, var heldur brugðið í vikunni þegar hún frétti af því að hestarnir hennar fimm fóru í bæjarferð í Hafnarfirði.

Hestarnir fimm eru yfirleitt í gerði í Hlíðarþúfum í Sörla í Hafnarfirði en sluppu þaðan út, á þriðjudag, hlupu alla leið að hringtorgi við N1, yfir það og að Lækjarskóla.

María segir að það hafi verið vandasamt verk að ná þeim aftur en bæði vanir hestamenn og lögreglumenn í Hafnarfirði unnu í sameiningu að því að ná þeim.

„Við erum nýbúin að kaupa okkur eina nýja meri, en hinir fjórir búnir að vera þarna í allan vetur. Nýja merin ætlaði líklega að spretta þangað sem við keyptum hana, í Kópavoginn, og allir hinir hestarnir eltu hana þangað. Hún leiddi hópinn, eflaust í leit að heimilinu sínu,“ segir María.

Hestarnir komu sér vel fyrir við Lækjarskóla.
Mynd/Aðsend

Hún segir að það hafi allir brugðist vel við en segir að þau séu mjög heppin að ekki hafi farið verr. Hringtorgið sé eitt það fjölfarnasta í bænum. Þau voru misfljót að ná hestunum aftur en náðu þeim öllum á endanum.

„Löggan ásamt vöskum hestamönnum fór í æsispennandi eltingaleik og náðust allir að lokum. Þetta hefði getað farið illa en sem betur fer fór allt vel,“ segir María sem segir að nú grínist þau með það að hestarnir fái ekki að fara í aðra bæjarferð í bráð.

Hér að neðan má sjá myndband af hestunum við hringtorgið.