Lögmaðurinn Árni Helgason sýndi á sér nýja og ef til vill nokkuð óvænta hlið þegar hann steig nýlega á svið á The Secret Cellar og reytti af sér brandara á opnu uppistandskvöldi á vegum Golden Gang Comedy.

„Ég hef bara haft áhuga á þessu í gegnum tíðina,“ segir Árni og bætir við að hann hafi ekki haft neina sérstaka ástæðu til þess slá til aðra en bara að skemmta sjálfum sér og vonandi öðrum í leiðinni.

„Ég hef farið þarna einu sinni eða tvisvar áður og troðið upp og þetta er bara skemmtilegt. Þarna koma ýmsir fram og í sjálfu sér má hver sem er stíga á stokk og þótt þetta séu mikið til ferðamenn þá er eitthvað af Íslendingum líka.“

Árni segir grínið í The Secret Cellar vera á ensku þar sem fyrst og fremst sé skemmtunin ætluð erlendum ferðamönnum. „Það var vont veður þetta kvöld og norðurljósaferðunum frestað þannig að túristarnir mættu bara í staðinn á uppistand.“

Sjaldgæft eintak

Árni hefur komið víða við í félags- og stjórnmálum og því eðlilega ófeiminn við að taka til máls fyrir framan fullan sal af fólki. Þótt hann hafi þó ekki gert mikið af því að fara með gamanmál á ensku greip hann hljóðnemann frekar slakur. „Það var bara svona smá fiðringur, eins og gengur og gerist, og þetta snýst bara um að nýta stressið, eins og menn segja.“

Árni var á sínum tíma framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins, formaður Heimdallar, oddviti Vöku í Stúdentaráði Háskóla Íslands og forseti Framtíðarinnar, málfundafélags Menntaskólans í Reykjavík, á menntaskólaárunum.

Hægrisinnaðir lögmenn eru sjálfsagt þekktir fyrir flest annað en að vera fyndnir. Ertu einhvers konar frávik?

„Það má kannski upplýsa að ég er ekkert hægrisinnaður lögmaður og hef siglt undir fölsku flaggi í mjög mörg ár,“ segir Árni og hlær. „Þetta er að koma upp á yfirborðið núna. Hvernig ég hef lætt mér inn í valdakjarnann.“

Árni sækir innblástur í sitt daglega amstur í uppistandinu, fjölskyldulífið og vitaskuld lögmennskuna enda liggja lögmenn oft vel við höggi í gríninu.

Hillumetrar af lögmannagríni

„Lögfræðingabrandarar eru einhver þéttasta bókmenntagrein heims og það eru til heilu hillumetrarnir af þeim sem fela oftar en ekki í sér einhvers konar lýsingar á því hvernig megi koma hægfara dauðdaga lögmanna við,“ segir Árni léttur í bragði.

„Ég hef líka oft haft gaman af því að bera þetta sjónvarpsþáttalíf lögmannsins saman við raunveruleikann, eðlilega vegna þess að það er nú líka til mikið af þessum sjónvarpsþáttum.“

Þættir á borð við Ally McBeal, Boston Legal, The Good Wife, The Practice, L.A. Law og jafnvel hinn íslenski Réttur draga oftar en ekki upp glansmynd af lögmönnum og störfum þeirra sem er nokkuð á skjön við raunveruleikann.

„Fólk sér þá oft fyrir sér þá týpu og að starfið sé einhvern veginn svona. Þetta er nú oft aðeins hægara og meiri realismi í þessu,“ segir Árni. „Þetta tekur oft aðeins lengri tíma, glæsileikinn aðeins minni en í þessum þáttum. Það er oft meira verið að rífast um einhverja drenlögn árum saman en það er gaman að því líka.“

Áhættustýring í óvissu

Upptaka af uppistandi Árna á The Secret Cellar hefur fallið í frjóan jarðveg á Facebook þar sem vinir og samferðafólk hans eys hann lofi og hvetur til dáða. Hann segist aðspurður ekki vera með neinar stórar áætlanir með framhaldið.

„Ég er í lögmennskunni á daginn og oft yfirleitt á kvöldin líka þannig að það er svo sem nóg að gera,“ segir hann en dregur hvergi úr því að það sé skemmtilegt að vera með grínið á hliðarlínunni.

„Eigum við ekki bara að segja að maður haldi öllu opnu í þessu? Það er aldrei að vita nema maður geri eitthvað meira. Í þessu efnahagsástandi er náttúrlega ekki verra að vera með smá áhættustýringu á starfinu, eitthvert svona plan b,“ segir lögmaðurinn og hlær. „Maður hefur bara gaman af þessu og gaman að þetta gekk vel og fólk hafi eitthvað getað glott yfir þessu.“