Lífið

Logandi stuð í Havarí

Hátíðin Sumar í Havarí byrjar nú í lok maí og stendur yfir fram í lok ágúst. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin formlega. Mikið af tónlist og fjöri er komið á blað, meðal annars verður Hæglætishátíð um verslunarmannahelgina þar sem verður sett í bakkgír.

Svavar og Berglind verða með fullt fjós af fjöri í allt sumar. Fréttablaðið/Valli

Þetta er annað árið í röð sem við höldum þessa sumarhátíð sem við köllum Sumar í Havarí. Þetta byrjar núna tuttugasta maí. Við byrjum á því að Prinsinn af Karlsstöðum ætlar að enda túrinn sinn í Havarí á sunnudaginn og byrja þar með Sumarið í Havarí,“ segir Svavar P. Eysteinsson, bóndi, staðarhaldari og tónlistarmaður, sem er í miðjum klíðum við að undirbúa Havarí undir sumarið þegar blaðamaður nær tali af honum – en þar verður standandi festival allt frá maí og langt fram í ágúst.

„Þetta er gamla fjárhúshlaðan á bænum sem við tókum í gegn fyrir tveimur, þremur árum og umturnuðum yfir í veitinga- og tónleikastað – aðallega tónleikastað því að okkur langaði að bjóða upp á lifandi músík, myndlist og bíó, bara menningarvettvang. Svo eru veitingar líka: kaffi og bulsur og með því. Svo fórum við bara að bóka hljómsveitir – Jónas Sig opnaði þetta hjá okkur fyrir þremur árum. Síðan hefur þetta bara undið upp á sig. Hljómsveitirnar vilja koma og okkur hefur gengið vel að draga hljómsveitir á staðinn, fólk hefur verið duglegt að mæta þannig að þetta hefur verið dúndrandi stemming hérna hjá okkur á sumrin. Við erum að miða við að það sé gigg aðra hverja helgi en svo hefur þetta aðeins breyst – stundum eru nokkur gigg í viku, fer svolítið eftir því hvenær listamennirnir eru á ferðinni og svona.“

Listafólk staldrar reglulega við í Havarí enda alltaf heitt á könnunni og glóðvolgar bulsur á grillinu og stjörnumeðferð í boði frá ábúendum.

„Við reynum líka að bjóða listamönnunum að vera bara eins og þeir vilja, að slaka á hjá okkur og gera eitthvað úr þessu, njóta lífsins og við reynum að dekra við þau eins og við getum.“

Og dagskráin er þétt og má finna helsta tónlistarfólk landsins á henni. Emmsjé Gauti kemur þarna við á ferðalagi sínu um landið, en það verður allt kvikmyndað og birt í sérstökum netþáttum. Um miðjan júní verður Sing-a-Long sýning á Með allt á hreinu. Í júlí verður Regnbogahátíð í samstarfi við Pink Iceland. Svo er það hæglætishátíðin um verslunarmannahelgina.

„Við ætlum að fara í bakkgírinn í slökun. Við gerðum þetta í fyrra og þá vorum við með jógagöngur niður í fjöru og tónlistarmaraþon með tónlist um hafið og bara alls konar hæglætis-vitleysu. Við vitum ekki nákvæmlega hvað við ætlum að gera eða hverjir ætla að spila – en það eru nokkrir í pottinum. Við mælum bara með að fólk taki frá verslunarmannahelgina fyrir austan og við sjáum um skemmtunina.“

Sumrinu lýkur svo með Ed Hamell, listapönkara frá Bandaríkjunum.

„Það verður logandi stuð á sviðinu í allt sumar og dansgólfið alveg rennandi blautt.“

Sumar í Havarí

20. maí Prins Póló

1. júní Emmsjé Gauti

2. júní Ævintýri President Bongo og Tilbury

15. júní Með allt á hreinu – Söngbíó

30. júní Valdimar

6. júlí FM Belfast + Hermigervill

9. júlí Olga Vocal Ensemble

12. júlí Austurvígstöðvarnar

13. og 14. júlí Regnbogahátíð í samstarfi við Pink Iceland. Hljómsveitin Eva og Lay Low.

19. júlí Hildur

26. júlí Ösp Eldjárn

29. júlí GÓSS – Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson og Guðmundur Óskar

verslunarmannahelgin Hæglætishátíð – dagskrá auglýst síðar

11. ágúst Hildur Vala og Jón Ólafsson

18. ágúst Ed Hamell

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

Jón Viðar dásamar Ófærð: „Hvað vill fólk meira?“

Heimilið

Fá hjón verja jafn miklum tíma saman

Tíska

Hildur Yeoman í Hong Kong

Auglýsing

Nýjast

„Ég er mikið kvikindi“

Fékk stað­gengil í nýjustu seríu Game of Thrones

Grænkerar í sjálfkeyrandi bílum

„Hæfileg óreiða finnst mér heilbrigð“

Komnar með bakteríuna

Hef sofnað á ýmsum skrýtnum stöðum

Auglýsing