Lóa Pind Aldísardóttir, fjölmiðlakona, er ekki lengur vegan. Í gær lauk þáttaseríu hennar „Kjötætur óskast“ á Stöð 2 en þar hafa áhorfendur síðustu vikur fylgst með kjötætum taka sín fyrstu skref á grænkeramataræði, eða vegan-mataræði.

Áður en síðasti þáttur seríunnar var sýndur í gær birti Lóa Pind færslu á Facebook þar sem hún játaði að hafa ekki verið vegan lengur en tilraunin stóð. Það er fjórar vikur í haust.

„JÁTNING: Ég er ekki lengur vegan. Fannst samt gaman - og erfitt - að neita mér um að borða flest það sem mér finnst best í heimi í 4 vikna vegantilraun í haust,“ sagði Lóa í færslunni.

Hún sagði að sér hefði þótt erfiðast hvað það vantaði mikla gleði í matinn en að það hafi lagast þegar hún uppgötvaði „umami“

„Eftir það varð ég ögn hamingjusamari veganisti. Mæli með að fólk lesi sér til um Umami áður en það stígur skref í átt að grænkeratilveru.“

Hún segir að hún sé komin nokkur skref í þá átt, nú fjórum mánuðum síðar, og að lengi hafi hún verið með samviskubit yfir því að hafa verið meðvitundarlaus neytandi.

„En ég vona að einhverjir hafi haldið út í meira en nokkrar sekúndur við að horfa á vegantilraunadýrin mín engjast - og gleðjast - í fjórar vikur í Kjötætum óskast. Takk elsku tilraunadýr. Þið voruð bestu, skemmtilegustu, jákvæðustu og neikvæðustu og fyndnustu tilraunadýr sem ég hefði getað fengið í þessa veganvegferð,“ segir Lóa að lokum í færslunni sem má sjá hér að neðan.

JÁTNING: Ég er ekki lengur vegan. Fannst samt gaman - og erfitt - að neita mér um að borða flest það sem mér finnst best...

Posted by Lóa Pind Aldísardóttir on Monday, 8 February 2021