Lóa Hjálmtýsdóttir, söngkona hljómsveitarinnar FM Belfast, leikskáld og listamaður með meiru sem þekkt er fyrir teiknimyndasögur sínar undir nafninu Lóaboratoríum, gleymdi óvart kirsuberjatré úti í búð síðastliðinn fimmtudag. Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Lóa tapaði trénu úr vörslum sínum en hún gleymdi því í miðjum flutningum fyrir nokkru.

„Fyrst gleymdi ég því í flutningum á Rauðalæk í þrjá mánuði. Ég mundi svo loksins eftir því en þegar ég fór að ná í tréð, endaði með því að ég gleymdi því greinilega í Krambúðinni.“

Guðni Rúnar Gefnarson vakti athygli á málinu á Facebook grúppu fyrir íbúa Laugarneshverfis og hefur það vakið mikla katínu netverja.

„Grunaði aldrei að ég myndi einhvern tímann þurfa að spyrja að þess. En. Gleymdi einhver trénu sínu hérna í Krambúðinni?“ spurði Guðni. Lóa viðurkenndi þá að um hafi verið að ræða kirsuberjatré í hennar eigu.

Trjábolskonan

Lóa segir í samtali við Fréttablaðið að hún hafi verið að flytja í nýtt húsnæði í sama hverfi og þess vegna hafi hún verið fótgangandi með tré. Hún hafi áður geymt það á svölum í gömlu íbúðinni sinni. Kirsuberjatréð fékk hún í IKEA á sínum tíma en hún var nýbúin að endurheimta það þegar Fréttablaðið sló á þráðinn.

Hún minntist þess þegar hún fékk að sitja fyrir í tímaritinu Grapvine sem trjábolskonan (e. Log Lady) úr Twin Peaks fyrir grein um hljómsveit sína, FM Belfast.

Lóa gaf nýlega út barnabókina Saga um þakklæti ásamt Evu Einarsdóttur. Um er að ræða huggulega kvöldlestrarbók fyrir yngstu börnin. Útgefandi er Bókabeitan.

„Þetta er búið að vera svolítið hektískt verkefnahaust hjá mér sem er sennilega ástæðan fyrir því að ég er farin að gleyma trjágróðri í kjörbúðum,“ segir Lóa og hlær.

Grapevine/Timarit.is