„Þegar ég var sextán ára hlotnaðist mér sú gæfa að heimsækja bláa húsið hennar Fridu Kahlo í Mexíkóborg og hafði það mikil áhrif á mig. Heimili hennar er varðveitt sem safn og þar, innan um litrík húsgögn og aðra innanstokksmuni, má finna listaverk eftir Fridu sjálfa og vini, m.a. Wassily Kandinsky.
Ég man að á þeim tímapunkti skildi ég allt í einu að listamenn væru fólk en ekki bara nöfn úr listasögubókum og þá varð til sá skilningur í höfðinu á mér að ég gæti líka orðið listamaður. Súrrealisminn og dramað í málverkunum höfðaði til mín og ég var auðvitað líka mjög ginkeypt fyrir sorglegu lífshlaupi frú Kahlo. Ég held að unglingar séu almennt móttækilegir fyrir drama, ég var að minnsta kosti algjörlega óð.

Á næstu stoppustöð í áhrifamikilli list voru öskrandi páfamálverkin eftir Francis Bacon og Ophelia eftir John Everett Millais. Enn meira drama og vesen. Svo má nefna lagið Stúlkan sem starir á hafið eftir Bubba og bókina Dýragarðsbörnin eftir Kristjönu F. Ég teiknaði endalausar myndir af starandi stúlku (stjarfri með augun mött) og unglingsstelpum með heróínfíknivanda. Það mætti jafnvel segja að ég hafi velt mér upp úr þessu.
Ég má líka til með að nefna senuna í hasarmyndinni Bound eftir Wachowski-systur sem ég sá þegar ég var sautján ára. Þar er maður skotinn, hann fellur í gólfið og í sömu andrá hellist úr hvítri málningu sem lekur út um allt. Ég var dolfallin yfir fegurðinni þegar blóðpollurinn blandaðist við málninguna og fannst þetta vera hápunktur kvikmyndagerðar.“
Ég man að á þeim tímapunkti skildi ég allt í einu að listamenn væru fólk en ekki bara nöfn úr listasögubókum og þá varð til sá skilningur í höfðinu á mér að ég gæti líka orðið listamaður.