Leikhús

Lára og Ljónsi, jólasaga

Þjóðleikhúsið

Höfundur: Birgitta Haukdal

Leikgerð og leikstjórn: Guðjón Davíð Karlsson

Leikarar: Þórey Birgisdóttir, Bjarni Kristbjörnsson og Kjartan Darri Kristjánsson

Tónlist og söngtextar: Birgitta Haukdal

Leikmynd og búningar: María Th. Ólafsdóttir

Lýsing: Jóhann Bjarni Pálmason

Hljóðhönnun: Elvar Geir Sævarsson

Myndbandshöfundur: Signý Rós Ólafsdóttir

Daginn eftir breytingar á sóttvarnalögum, sem nú krefur leikhúsgesti um neikvætt harðpróf næstu vikurnar, frumsýndi Þjóðleikhúsið Lára og Ljónsa, jólasögu byggða á vinsælum persónum Birgittu Haukdal.

Kúlan virðist líka hafa farið í gegnum breytingu og er nú kallað Litla sviðið, staðsett í kjallara Jónshúss á Lindargötunni sem síðastliðin ár hefur verið vettvangur leiksýninga ætlaðra börnum.

Hér er á ferðinni algjörlega saklaus saga um vináttu og jólin, skreytt með jóla- og leikhúsgleði. Þó verður að nefna sokkaskrímslið sem gæti stuðað okkar viðkvæmustu áhorfendur en ekkert er að óttast þrátt fyrir að leiksviðið myrkvist í örskamma stund. Bækur Birgittu hafa notið mikilla vinsælda á síðastliðnum árum en hér semur hún bæði tónlist og söngtexta sem eru hugljúf en skilja ekki mikið eftir sig.

Tónlistin er fremur daufleg og textarnir hlaðnir endurtekningum en leikararnir gera sitt besta með takmarkað efni.

Sáldrar leikhústöfrum

Leikstjóri er Guðjón Davíð Karlsson en hann skrifar líka leikgerðina. Þó að sagan sé kannski með einfaldasta móti þá notar Guðjón Davíð hvert tækifæri sem gefst til að sáldra smá leikhústöfrum yfir leiksviðið. Sýningin er hugsuð til þess að bjóða litla leikhúsfólkið velkomið í töfraheim sviðslistanna með góðum árangri.

Birgitta Haukdal er höfundur leikritsins
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hann undirstrikar fallega hvernig heimur barna umbreytist í fjarveru foreldra þar sem skápar geyma aðra veröld, leirpiparkökur bakast í alvöru snarl og tuskudýr taka heljarstökk.

Sýningin gerist öll í svefnherbergi Láru, sem hannað er af Maríu Th. Ólafsdóttur sem sér líka um búningana. Leyndu rýmin færa líf inn í annars fremur pasteldofið herbergið þar sem mismunandi tegundir af bleiku ráða ríkjum. Tveir gluggar eru í herbergi Láru sem endurvarpa líðandi stund með hugvitssamlegri myndbandshönnun Signýjar Rósar Ólafsdóttur.

Hljóðið var ekki með besta móti á frumsýningu og eitthvert misræmi í hljóðnemum leikaranna sem virtust vera á mismunandi styrkleika, önnur tæknivinna var annars ágæt.

Smitandi orka

Þórey Birgisdóttir fer með hlutverk hinnar hugmyndaríku Láru, ímyndunaraflið varpar henni inn í alls konar ævintýri sem áhorfendur taka þátt í. Hún kemur svo sannarlega með kátínu og leikgleði inn í verkefnið en skortir sjálfsöryggi í röddinni, og hljóðvandamálin hjálpuðu ekki, en raddbeitingin þróast örugglega í rétta átt á sýningartímanum.

Kjartan Darri Kristjánsson sýndi og sannaði hversu vel barnaleikhús á við hann sem leikara í verkinu Kafbátur, sem einmitt var sýnt á sama sviði á síðasta leikári. Hann staðfestir hér sess sinn sem einn frambærilegasti túlkandi barnaleikrita landsins. Orkan sem hann gefur frá sér á sviðinu í hlutverki Atla, leikfélaga Láru, er smitandi, einlæg og hressandi.

En auðvitað má ekki gleyma Ljónsa, trúnaðarvini Láru og inniljóni. Þrátt fyrir ungan aldur er Bjarni Kristbjörnsson reynslumikill á leiksviðinu. Líkt og Þórey þarf hann að vinna aðeins betur í raddstyrknum en sviðsnærvera hans er heillandi og skemmtileg.

Lára og Ljónsi, jólasaga er tilvalin sýning fyrir allra yngstu leikhúsgestina sem fá líka tækifæri til að hitta persónur verksins eftir sýningu, siður sem er orðin regla frekar en frávik á íslenskum barnaleiksýningum. Hér er á ferðinni krúttleg tæp klukkustund í góðum félagsskap þar sem leikhústöfrar svífa yfir leiksviðinu eins og snjókorn. n

Niðurstaða: Hugljúf, örlítið einföld leiksýning um vináttu og töfra ímyndunaraflsins.