Rétturinn vakti mikla athygli áhorfenda, en uppskriftina fékk Sjöfn hjá Friðgeiri Trausta Helgasyni matreiðslumeistara, sem býr í Los Angeles. Hann hefur meðal annars verið yfirkokkur á Hótel Flatey síðastliðin sumur og hefur komið með ferska strauma inn í matargerðina frá New Orleans, sem á vel við ferskt og íslenskt hráefni. Klippu úr þættinum má horfa á neðst í fréttinni.
Friðgeir, sem ávallt er kallaður Geiri kokkur, segist ekki síður hafa lært af aðstoðarkonunum sem hann vann með á fínu veitingastöðunum og eins af öllum fínu og merkilegu matreiðslumeisturunum. Þar segist hann til að mynda hafa lært að gera ekta djúpsteiktan kjúkling eins og hann gerist bestur og ein af mörgum leiðum til að bera hann fram er með vöfflu. Sjöfn var svo heppin að fá Geira til gefa sér uppskriftina og leyfir hér lesendum að njóta hennar.
New Orleans Hood Style kjúklingurinn
4 bringur, skornar í tvennt
1 l súrmjólk
1 tsk. salt, gróft
1 tsk. svartur pipar
1 tsk. paprika
1 tsk. cayenne-pipar
1 tsk. hvítlauksduft
1 tsk. laukduft
1 tsk. timían
1 tsk. oreganó
1 tsk. basilíka
Setjið allt kryddið í súrmjólkina og hrærið saman. Setjið síðan kjúklingabitana út í. Setjið plast yfir og geymið í ísskáp í 12 til 24 tíma, því lengur sem kjúklingurinn er í krydduðu súrmjólkinni, því bragðbetri verður hann.
Hjúpur fyrir djúpsteikingu
2 bollar hveiti
1 msk. lyftiduft
1 tsk. salt, gróft
1 tsk. svartur pipar
1 tsk. cayenne-pipar
1 tsk. hvítlauksduft
1 tsk. laukduft
1 tsk. timían
1 tsk. oreganó
1 tsk. basilíka
Blandið lyftiduftinu og kryddinu saman við hveitið. Takið kjúklinginn, einn og einn bita upp úr krydduðu súrmjólkinni og veltið honum upp úr hveitinu. Setjið svo kjúklinginn, svona 2 til 3 bita í senn út í djúpsteikingarpott, með góðri kornolíu á 375°C gráðu hita í um sex til átta mínútur, eða þangað til kjúklingurinn verður fallega brúnn og að minnsta kosti 73°C. Leggið bitana á ofnplötu með grind ofan á.
Þegar kemur að vöfflunum er hægt að nota Vilko-vöfflumixið. Þið getið þá sparað ykkur tíma og einfaldað eldamennskuna. Þá er upplagt að bæta við það 1-2 teskeiðum af vanilludropum og svo er hægt að toppa þær með því að bæta við einum bolla af gróft hökkuðum pekanhnetum. Alltaf er þó best að gera sínar eigin vöfflur frá grunni, en uppskriftin að vöfflunum hans Geira fylgir hér með líka.

Vöfflur að hætti Geira
1 ½ bolli hveiti
1 tsk. salt, gróft
½ tsk. matarsódi
1 tsk. sykur
2 msk. smjör, mjúkt
1 tsk. kornolía
½ bolli hálfur & hálfur (rjómi og mjólk)
½ bolli mjólk
¼ bolli súrmjólk
¼ tsk. vanilludropar
1 bolli pekanhnetur, grófsaxaðar
1 egg, skilið
Blandið öllu saman nema egginu. Sláið eggjarauðuna og blandið í deigið. Mixið vel. Sláið eggjahvítuna þangað til hún er stinn, brjótið saman við deigið, ekki mixa of mikið né þeyta of mikið. Hitið vöfflujárnið og bakið fallegar vöfflur.
Hrásalatið hans Geira
½ hvítkálshaus
1 paprika, rauð
1 rauðlaukur
2 gulrætur
Graslaukur og fersk steinselja eftir smekk
1 tsk. fennelfræ
1 tsk. kúmen
1 tsk. salt, gróft
1 tsk. svartur pipar
2 tsk. sykur
½ tsk. cayenne-pipar
½ tsk. paprika
1 tsk. hvítlauksduft
1 tsk. cumin
Safi úr 1 sítrónu
2 tsk. sérrí-edik
1 msk. majónes
1 msk. Dijon-Sinnep
Skerið allt grænmetið í þunna strimla og blandið öllu saman. Bragðið og lagið eftir smekk.
Lögur á kjúkling
1 bolli smjör, bráðið
½ bolli Sriracha-sósa
½ bolli pönnukökusíróp, Maple (hlynsíróp) til að mynda.
Setjið kjúklinginn í bakarofn í 5 mínútur á 180°C hita.
Blandið smjörinu, Sriracha og pönnukökusírópinu í skál. Veltið kjúklingnum upp úr öllu gúmmulaðinu. Setjið graslaukinn og steinseljuna út í.
Leggið vöfflu á disk og svo 2 kjúklingabita ofan á. Hellið svo aðeins meiri sósu yfir. Má líka bæta við smá hlynsírópi ofan á ef þið eruð í stuði. Framreiðið að lokum með hrásalatinu hans Geira.