Hérna eru tvær hugmyndir að gómsætum vegansmáréttum sem allir geta notið. Hægt er að margfalda uppskriftirnar eftir gestafjölda.

Tófúspjót

Það er fátt sem býður upp á jafn marga möguleika í eldamennsku eins og tófú. Þetta er einföld útfærsla en hægt er að marinera það upp úr hvaða sósu sem hugurinn girnist eins og til dæmis teryaki- eða Sriracha-sósu. Þá eru tófúspjótin einstaklega góð með hnetusósu.

1 pakki tófú, skorið í kubba

2 msk. tamari-sósa

2 msk. BBQ-sósa

1 tsk. hvítlauksduft

1 msk. hlyn-, döðlu- eða agavesíróp (má sleppa ef BBQ-sósan er mjög sæt)

Viðar- eða málmspjót

Þurrkið tófúið vandlega og skerið í kubba.

Blandið saman innihaldsefnunum í marineringuna og leyfið tófúinu að liggja í leginum í að minnsta kosti hálftíma.

Raðið bitunum á spjót og grillið í 10-15 mínútur, steikið á grillpönnu eða bakið í ofni við 200°C í 20-25 mínútur.

Athugið: Ef notuð eru viðarspjót er mikilvægt að leggja þau fyrst í bleyti svo að þau brenni ekki.

Tófúspjótin gómsætu eru tilvalin á veisluborðið. MYND/GETTY

Hnetusósa

½ bolli hnetusmjör

¼ bolli jurtamjólk

2 msk. tamarisósa

2 msk. límónusafi

1 msk. Sriracha- eða önnur sterk sósa

½ tsk. hvítlauksduft

Vatn eftir smekk

Blandið saman öllum innihaldsefnum með töfrasprota eða matvinnsluvél. Einnig er hægt að hita sósuna í potti.

Blómkálsvængir

Blómkál, líkt og tófú, býður einnig upp á marga valmöguleika en svokallaðir blómkálsvængir hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár.

Blómkálshaus, skorinn í hæfilega stóra bita

Olía

½ bolli hveiti eða möndlumjöl

1 tsk. hvítlauksduft

6 msk. jurtamjólk að eigin vali

1 bolli brauðrasp (ef vill)

¾ bollar buffaló-sósa

Nokkrar teskeiðar vegansmjör eða olía

Hitið ofninn að 210°C og setjið bökunarpappír á eldhúsplötu.

Veltið blómkálsbitunum upp úr olíu.

Blandið saman þurrefnum annaðhvort í skál eða í stóran ziplock-poka og þekið bitana.

Næst er jurtamjólkinni bætt við (ásamt brauðraspinu en ef það er notað er mikilvægt að gæta þess að það sé fínt mulið).

Raðið blómkálsbitunum á bökunarpappírinn og bakið í 20-25 mínútur.

Gott er að snúa þeim einu sinni við svo að þeir eldist jafnt.

Blandið svo saman buffaló-sósunni og vegansmjörinu eða olíunni í skál og dýfið bitunum.

Setjið bitana svo aftur inn í ofninn og bakið í 15 mínútur.

Berið fram með sósu að eigin vali.