Einar Andri er einstaklega fjölhæfur maður og margt til lista lagt. Hann starfar sem iðnaðarmaður og fyrirsæta, er kærasti og gæludýraeigandi.

„Fyrir nokkrum árum fékk ég með nokkrum semingi þó að skipta rækjukokteilnum sem hafði hitað upp fyrir jólasteikina á aðfangadag fram að þessu út fyrir rjúpusúpu sem ég lagaði einu sinni áður og kolféll fyrir þennan sama vetur. Við höfum alltaf frá því að ég man eftir mér verið stór hópur saman á aðfangadag svo núna varð ég heldur betur að skella mér í stórustrákaskóna og sanna fyrir fjölskyldunni ágæti rjúpunnar.

Þarna var ég tiltölulega nýbyrjaður að stunda rjúpnaveiði og fannst alveg upplagt að innleiða inn í fjölskylduna þessa hefð svo margra Íslendinga, að borða rjúpu um jólin, enda alveg geggjuð villibráð í alla staði. Ég skellti mér í svuntuna og eyddi svo heilum degi í eldhúsinu að saxa og skera og sjóða og ég veit ekki hvað og viti menn, hún slær svona rækilega í gegn.“

Á næstu dögum bauð Einar Andri fleirum upp á súpuna enda hafði veiðst vel hjá honum það árið og ávallt voru góðar undirtektir og á þeim vendipunkti varð matargerðarsögu Einars ekki aftur snúið. „Ég lærði meira að segja í kjölfarið að meta gráðaost sem ég hafði alltaf fúlsað við, en það er dass af þeim bláa í súpunni.“

Einar Andri segist halda fast í hefðir og siði og vera mikið jólabarn. „Ég fylgist gjarnan með því þegar amma, og seinna meir með dætrum hennar þegar þær tóku við keflinu, töfraði fram kalkúninn sem var iðulega framreiddur á aðfangadagskvöld. Ég fékk iðulega að hjálpa til við smærri verkefni eins og að leggja á borð. Í seinni tíð hef ég svo séð um forréttinn á aðfangadag, rjúpusúpuna, sem reyndar kom inn sem nýr siður eftir að ég hafði töfrað gestina upp úr skónum eins fram hefur komið.“

Hlusta á marrið í snjónum og niðinn í vindinum

Einar Andri segist elska líka allt umstangið í kringum jólin eins og smákökugerðina, jólalyktina, viðburðina og rólegu kvöldstundirnar. „Frítíminn sem fæst til að eyða með þeim sem mér þykir vænst um er ómetanlegur um jólin og svo auðvitað árlega rjúpnaveiðin sem er svo heilandi og góð hugleiðsla. Að kúpla sig aðeins niður úr öllu borgaramstrinu og hlusta bara á marrið í snjónum og niðinn í vindinum uppi á snæviþöktu hálendinu.“

Hér sviptir Einar Andri hulunni af uppskriftinni að rjúpusúpunni sem allir eiga eftir að elska að njóta. „Soðið er tímafrekt svo verið tilbúin til þess að eyða í það um það bil fimm klukkustundum. Ágætt að gera soðið kvöldinu fyrir eldunina ef þið eruð í tímaþröng.“

Rjúpusúpan ljúfa að hætti Einars

Fyrir 6

2 stk. rjúpur (hamflettar)

1 lítill laukur

1 lítil gulrót

1 sellerístilkur

4 piparkorn

2 lárviðarlauf

4 einiber

½ tsk. timjan

1 msk. sherríedik eða rauðvínsedik

1 grænmetisteningur

3 súputeningar

2 msk. rifsberjahlaup

2½ dl rjómi

100 g gráðaostur

60 g smjör

60 g hveiti

1 msk. villibráðarkraftur

Fyrst takið þið rjúpurnar og hamflettið. Skerið bringur frá og geymið í bili.

Sjóðið um það bil 2,5 l af vatni.

Höggvið bein, háls og læri smátt og brúnið með olíu á pönnu við háan hita, kryddið með salti og pipar og bætið út í sjóðandi vatnið.

Saxið grænmetið smátt og brúnið á sömu pönnu. Bætið því svo út í sjóðandi vatnið ásamt piparkornum, lárviðarlaufi, einiberjum, timjan, ediki, grænmetiskrafti, kjötkrafti og rifsberjahlaupi.

Látið sjóða og fleytið af froðu, lækkið hitann og látið sjóða við vægan hita í 4-5 tíma.

Sigtið soðið og mælið upp 1,3 l og setjið í annan pott. Bræðið smjörið og lagið smjörbollu með því að bæta hveitinu við. Vinnið smjörbolluna saman við og látið sjóða.

Bætið í rjómanum og gráðaostinum, látið sjóða við vægan hita þar til osturinn er uppleystur. Bragðbætið með salti, pipar, kjötkrafti og smá skvettu af púrtvíni. Skerið bringurnar í strimla og bætið í sjóðandi súpuna rétt áður en hún er borin fram og njótið.

Rjúpusúpa sem allir eru að missa sig yfir og er í miklu uppáhaldi.