Sigmundur Davíð gerir söfnunaráráttu sína að umtalsefni í kosningaauglýsingu þar sem formaður Miðflokksins segist safna ótrúlegustu hlutum þótt hann reyni að halda sig á hefðbundnum slóðum frímerkja, myntar og penna.

Þar skín einnig í augnablik í fágæt og eftirsótt Stjörnustríðsleikföng sem svipta hulunni af forsætisráðherranum fyrrverandi sem ástríðufullum Star Wars-nörd sem eins og margir slíkir varðveitir í gömlum leikföngum bernskuminningar og barnið í hjarta sínu.

„Það er ánægjulegt að fá að ræða um það sem maður hefur mestan áhuga á,“ segir Sigmundur Davíð þegar hann er beðinn um að gera nánari grein fyrir Star Wars-dótinu sem hann hefur í öndvegi á skrifstofunni heima hjá sér.

„Þetta er hjartans mál. Það er nákvæmlega það sem það er. Ég segi ekki trúarbrögð en þetta hafði veruleg áhrif á líf manns. Var bara mjög mikilvægt í æsku og er ennþá.“

Tíminn, miskunnarleysi foreldra í hreinsunum og tímabundið áhugaleysi granda oftar en ekki gullum æskunnar og unglingsáranna þannig að ekkert situr eftir nema minningin um hluti sem maður hefði betur varðveitt.

„Yfir til þín, Rouge Leader, skipti!“ Sigmundur Davíð stýrir Loga Geimgengli í bardaganum við fjórfættu drápstólin AT-AT.
Fréttablaðið/Eyþór

„Ég hef reynt að gera það,“ segir Sigmundur Davíð sem má sjálfsagt fyrst og fremst þakkað rótgrónu safnaraeðli sínu að hann standi uppi á fimmtugsaldri með Star Wars pálmann í höndunum og góðan lager af gömlu leikföngunum.

„Allt Star Wars-dótið sem ég á hef ég átt frá fyrri tíð en hef dálítið verið að vandræðast með það hvort ég ætti að bæta við safnið því sem mig langaði alltaf í en fékk ekki,“ segir hann þegar hann viðurkennir að vissulega hafi hann stundum rennt hýru auga til eBay.com og víðar þar sem slíkir munir ganga kaupum og sölum án þess þó að láta freistast.

Vopnaleit á háalofti

„En ég á töluvert af þessu og þegar foreldrar mínir voru að flytja af æskuheimilinu vildu þau að ég færi að losa dótið mitt þannig að þá fór ég og náði í, ekki hvað síst, Star Wars-dótið mitt.

Reyndar fannst mér vanta nokkra hluti. Sérstaklega vopnin þannig að ég skreið um allt háaloftið í leit að vopnum sem höfðu hugsanlega dottið úr kössunum,“ segir Sigmundur Davíð sem síðan fór heim með æskugóssið til nánari yfirferðar.

„En maður lendir í ýmsu,“ heldur hann áfram og tekur af öll tvímæli, hafi einhver verið, um að hann tekur þessi mál grafalavarlega. „Eins og þegar ég fór að sækja dótið þá var kassinn undan X-Wing bara horfinn. Og ég átti kassann með límmiðunum.“

Hinn eftirsótti Lobot sem Sigmundur lét sér úr greipum ganga og forláta X-Vængja án kassans sem er akkúrat sama staða og uppi er hjá Sigmundi eftir dularfullt kassahvarf á háalofti æskuheimilisins.
Fréttablaðið/Samsett

Fyrir þá sem ekki eru innvígðir og innmúraðir í ævintýraheim fjarlægrar vetrarbrautar til forna þá var önnur útgáfa leikfangaframleiðandans Kenner á geimflaug Loga Geimgengils búin tveimur settum af límmiðum til þess að skreyta hana. „Ég átti bæði hefðbundnu límmiðana og þessa með tjóninu eftir að vélin hafði lent í því og ég bara finn þetta hvergi.

En það segir nú kannski sína sögu um hversu stórt atriði þetta er í lífi okkar Star Wars-manna þegar maður getur orðið jafn miður sín yfir týndum pappakassa með nokkrum gömlum límmiðum.

Ég fór síðan í gegnum þetta allt saman. Sumt fór í plastpoka og bóluplast ofan í plastkassa til varðveislu en ég hélt Hoth-senunni eftir hérna heima á skrifstofunni,“ segir Sigmundur Davíð og vísar til sígilds snjóbardaga í upphafi annarrar Star Wars-myndarinnar The Empire Strikes Back.

Ljúfur jólahrollur

Þar ber mest á býsna voldugu stríðstóli hins illa keisaraveldis sem í daglegu tali kallast AT-AT sem er skammstöfun á All Terrain Armored Transport. Sannkallaður dýrgripur sem flesta dreymdi um að eignast á sínum tíma en fengu ekki.

Þetta hlýtur að teljast alger happafengur?

„Heldur betur, maður!“ segir Sigmundur af nokkrum þunga og rifjar síðan upp jólin 1983. „Ég bjó þá í Bandaríkjunum og ég man ennþá tilfinninguna og fæ nánast hroll við tilhugsunina þegar maður opnaði jólapakkann og þarna var AT-AT komið!“

Þarna naut Sigmundur þess vissulega að búa í landi Stjörnustríðstækifæranna, Bandaríkjunum. „Já, já, þetta var náttúrlega besti staðurinn til þess að eignast þetta og ég man að þegar ég kom heim ’84 þá þótti safnið mitt nokkuð gott. Ég hitti bara einn strák í bekknum sem svona nánast gat skákað því.“

Sigmundur Davíð má líklega fyrst og fremst þakka safnaraeðli sínu að hann geti enn sett á svið orrustuna miklu á Hoth.

Sigmundur Davíð segist hafa verið alveg forfallinn á meðan hann bjó í Bandaríkjunum og hafa safnað því sem hann gat. En þrátt fyrir að safnarakrókurinn hafi beygst snemma gerði Sigmundur litli mistök sem hann sér enn eftir þegar hann lét sér gullmola ganga úr greipum.

Lobot óbættur hjá garði

Sigmundur var þá með móður sinni í stórverslun sem verið var að loka vegna gjaldþrots. „Það var allt á útsölu og þeir voru að selja afganginn af Star Wars-köllunum og áttu einn. Hvað heitir hann aftur? Hann var ekki einn af þeim eftirsóttustu. Hann var einhvers konar umsjónarmaður hjá Lando Calrissian. Sköllóttur …“ segir Sigmundur og af lýsingunum að dæma á hann við Lobot nokkurn, sköllóttan mann með einhvers konar tölvu ígrædda í hnakkann.

„Og hann kostaði 99 sent. Ég man þetta ennþá því ég er enn að svekkja mig á þessu. Mamma bauðst til að gefa mér þetta,“ segir Sigmundur sem ákvað að afþakka þar sem Lobot var ekki einn af þeim sem hann langaði mest í þannig að hann taldi farsælla að eiga þetta inni fyrir eftirsóttari fígúru.

„Nú er þessi náttúrlega einn sá fágætasti af því að hann var ekki með þeim eftirsóttustu. Og þarna hefði ég getað tryggt mér hann á 99 sent en sleppti því,“ segir Sigmundur Davíð sem hlýtur þó að mega vel við una með allan þann æskuminningafjársjóð sem hann varðveitir enn í bóluplasti og plastkössum.

„Algjörlega sammála,“ segir Sigmundur Davíð þegar hann tekur undir að Star Wars-dótið vegi þungt þegar kemur að því að varðveita barnið í hjarta sér. „Ég fæ hvergi eins mikla nostalgíu og í tengslum við Star Wars.“