Leikhús

Jólaævintýri Þorra og Þuru

★★★★

Agnes Wild og Sigrún Harðardóttir

Leikhópurinn Miðnætti

Tjarnarbíó

Leikstjórn: Sara Martí Guðmundsdóttir

Leikarar: Agnes Wild, Sigrún Harðardóttir og Sveinn Óskar Ásbjörnsson

Leikmyndar-, búninga- og brúðuhönnun: Eva Björg Harðardóttir

Ljósahönnun: Hafliði Emil Barðason

Dans- og sviðshreyfingar: Elísabet Skagfjörð

Tónlist og söngtextar: Sigrún Harðardóttir og Agnes Wild

Hljóðhönnun: Haffi Tempó

Hljóðfæraleikarar í upptökum: Eysteinn Eysteinsson, Guðmundur Stefán Þorvaldsson, Hafþór S. Karlsson, Halldór Smárason, Kristófer Rodriguez, Loftur S. Loftsson, Margrét Arnardóttir og Sigrún Harðardóttir

Fyrsti í aðventu boðar byrjun hátíðar ljóss og friðar. Vel er við hæfi að frumsýna jólaleikrit á þessum ágæta degi. Leikhópurinn Miðnætti hefur verið að hasla sér völl á sviði barnaleikrita síðustu ár með góðum árangri og frumsýndi nýjasta verk sitt í Tjarnarbíó þar sem áhorfendur eru boðnir velkomnir í ævintýraheim álfavinanna Þorra og Þuru.

Þorri og Þura eru bestu vinir en eru ekki alltaf sammála og eiga til að kýta við minnsta tilefni. Þegar afi Þorra kemur í heimsókn hrindir hann af stað óvæntri atburðarás. Í farteskinu geymir hann nefnilega jólakristalinn sem inniheldur jólagleðina. Á meðan afi gamli fer að dansa línudans treystir hann Þorra og Þuru fyrir gerseminni. Allt í einu slökknar á kristalnum, þá eru góð ráð dýr því ef vinirnir ná ekki að kveikja aftur á dýrgripnum koma engin jól.

Fallegur boðskapur

Agnes Wild og Sigrún Harðardóttir leika Þorra og Þuru. Að auki skrifa þær handritið, söngtextana og semja tónlistina í sýningunni. Öll þessi verkefni leysa þær vel af hendi, sagan er einföld en inniheldur fallegan boðskap um vináttu og góðvild. Tónlistin er ljúf og textinn skýr þannig að allir geta skilið innihaldið. Agnes nær ágætis tökum á hinum aulalega Þorra sem reynir stundum að vera stórkarlalegur í stíl við stóru skóna sína en kemur sér þannig í klandur. Sigrún er sömuleiðis skemmtileg í hlutverki skellibjöllunnar Þuru sem er í senn saklaus en full ábyrgðartilfinningar. Stundum mætti þó liggja aðeins meiri söngkraftur undir lögunum sem eiga til að blandast svolítið saman.

Þeim til halds og trausts er Sveinn Óskar Ásbjörnsson sem sinnir öllum aukahlutverkum sem eru eins fjölbreytt og þau eru mörg; tilfinningaraskaði búálfurinn Hulda með biluðu töfraskikkjuna, jólakötturinn sem er búinn að tapa málinu ef ekki mjálminu og jólasveinninn sem er hreinlega búinn að gleyma sjálfum jólunum. Hann nýtur sín best í brúðuleiknum og tekst vel að lauma inn bröndurum fyrir eldri áhorfendurna.

Hugljúf leikhússtund

Sara Martí Guðmundsdóttir leikstýrir og leggur áherslu á skýrleika í framsetningu sem hentar sýningunni vel. Hér er ekki verið að finna upp hjólið en ávallt verið að hugsa fyrst og fremst um börnin í salnum. Eva Björg Harðardóttir spilar stórt hlutverk í þessum ævintýraheimi enda hannar hún hvern krók og kima; leikmynd, búninga og brúður. Hún leggur áherslu á einfaldar og klassískar en fagurfræðilega sterkar lausnir. Heimili Þorra gleður augað, búningarnir eru sömuleiðis sérlega fallegir þar sem bjartir litir ríkja í bland við náttúruliti, kjóllinn hennar Þuru stendur þar upp úr samansettur úr blúndum og glimmeri.

Jólin þurfa nefnilega ekki jólakristal til, þetta læra Þorri og Þura á sinni vegferð. Lykilatriðið er kærleikur og góðvild mannanna á milli. Leikhópurinn Miðnætti leggur metnað í að töfra fram barnasýningar sem byggja á sterkum grunni, hljómþýðum sönglögum og skýrri framsetningu. Vonandi taka fleiri leikhópar sér Miðnætti til fyrirmyndar í framtíðinni. Jólaævintýri Þorra og Þuru er blásaklaus og hugljúf leikhússtund sem hentar afskaplega vel fyrir okkar yngstu leikhúsgesti.

Niðurstaða: Blíð og litrík barnasýning um tilgang jólanna.