Rumours of Being er fyrsta einkasýning Claudiu Hausfeld í Hverfisgalleríi. Þar sýnir hún tólf ný verk sem unnin eru í ýmsa miðla. Má þar nefna kolaprent, prent á hör og steinflísar og prentverk sem unnin eru í myrkraherbergi. Í verkunum gerir hún tilraunir með efni og yfirborð sem leiða til ljósmyndaverka sem oft eru í formi skúlptúra. Verkin eru ekki bara á veggjum gallerísins heldur má einnig sjá þau á gólfi.

Ljósmyndir af húsum sem eru nánast að hruni komin eru áberandi á sýningunni. „Þetta hófst með ljósmyndum sem ég tók í Finnlandi af húsum og í myrkraherberginu bætti ég ýmsu við þær. Myndir af finnsku húsunum eru hér á sýningunni og líka myndir af íslenskum húsum og ein mynd er af húsi í Marokkó. Það skiptir þó ekki máli hvar þessi hús eru, áherslan er á hús sem erkitýpur.“

En af hverju hefur hún áhuga á að mynda hús sem eru áberandi illa farin? „Þetta eru svipmyndir af húsum sem eru ekki stöðug. Ég er líka að fjalla um hugmyndina um ljósmynd sem eitthvað sem við getum treyst á. Við getum ekki treyst á að húsin verði alltaf til og við getum heldur ekki treyst á ljósmyndina sem raunveruleika. Þetta er eins konar stef við hugmyndina um að engu er endalaust treystandi.“

Á sýningunni setur hún nokkrar myndir upp eins og skúlptúra. „Þetta eru ljósmyndir sem eru líka skúlptúrar. Mig langar alltaf til að taka myndir út úr því tvívíða og fara með þær inn í hið þrívíða. Ljósmyndir fella rými saman en mig langar til að fara með ljósmyndina aftur inn í rýmið.“

Hún vinnur allar myndir sínar í myrkraherbergi. „Það er mjög skemmtilegt og er ferli sem er mikilvægt fyrir mig. Vinnslan snýst þá ekki bara um mynd og skjá og að þannig sé þetta svo komið. Ég vil vinna með efnið.“

Claudia Hausfeld fæddist í Austur-Berlín árið 1980 og stundaði nám í ljósmyndun í Listaháskólanum í Zürich og síðar myndlistarnám við Listaháskóla Íslands. Hún býr og starfar í Reykjavík og hefur verið við stjórn fjölmargra listviðburða á Íslandi, í Danmörku og í Sviss. Auk þess að sinna listsköpun sinni stýrir Hausfeld, auk annarra, ljósmyndavinnustofu Listaháskólans.