Fegurðin er ekki skraut er nýútkomin bók þar sem átta listfræðingar, sýningarstjórar og aðrir fræðimenn fjalla um íslenska samtímaljósmyndun. Í bókinni er að finna mikinn fjölda ljósmynda eftir helstu ljósmyndara landsins.

Titill bókarinnar er úr ljóðinu „Raddir í loftinu“ eftir Sigurð Pálsson:

Hvað sem hver segir

er fegurðin ekki skraut

heldur kjarni lífins.

Ritstjórar bókarinnar eru Sigrún Alba Sigurðardóttir, menningarfræðingur og dósent við Listaháskóla Íslands, og Æsa Sigurjónsdóttir, listfræðingur og dósent við Háskóla Íslands.

Félag íslenskra samtímaljósmyndara átti stóran þátt í að bókin varð að veruleika. „Félagið setti fjármagn í þessa bók vegna þess að samtímaljósmyndun hefði ekki nægilega sterka rödd í menningarsamfélaginu,“ segir Æsa.

Fræðimenn úr ólíkum áttum

Um efni bókarinnar segir Sigrún: „Þetta er greinasafn um ljósmyndun þar sem átta fræðimenn, sem koma úr mjög ólíkum áttum, skrifa um ljósmyndun. Áherslan er á samtímaljósmyndun, sem spannar síðustu fjörutíu ár, með vísunum lengra aftur í tímann. Ljósmyndun er skoðuð sem virkt fyrirbæri sem hefur áhrif á okkur og er stór þáttur í myndlist samtímans.

Mörgum greinarhöfundum er hugleikið samband ljósmyndunar og myndlistar og þær ljósmyndir sem eru til skoðunar í bókinni má kalla listljósmyndun í þeim skilningi að þær hafa annað markmið en bara að skrásetja eða upphefja veruleikann; þær hreyfa við fólki og fá það til að hugsa. Greinarhöfundar nálgast ljósmyndun til dæmis út frá heimspeki, menningarfræði, fréttaljósmyndun og femínískum fræðum, en Linda Ásdísardóttir dregur í grein sinni fram konur sem voru að gera mjög áhugaverða hluti á seinni hluta 20. aldar.“

Sögulegir þræðir

„Greinahöfundarnir eru að velta fyrir sér inntaki miðilsins, sem hefur tekið gríðarlega miklum breytingum frá því ljósmyndin varð til sem miðill um miðja 19 öld. Stafræna byltingin kom í lok 20. aldar og breytti því hvernig við sem einstaklingar upplifum heiminn og hvernig listastofnanir nálgast myndlistina,“ segir Æsa. „Íslensk söfn fóru fyrst að sýna og kaupa ljósmyndir í lok 20. aldar og síðan hafa ljósmyndarar átt sífellt greiðari leið inn í söfnin.“

Ljósmyndir eru mikilvægur þáttur í lífi fólks. „Fólk notar þær til að hjálpa sér að muna og deilir þeim. Þetta hefur haft í för með sér að þeir sem vinna með ljósmyndun sem listmiðil hafa þurft að endurhugsa hann. Ég held að þessir tímar séu mjög inspírerandi fyrir ljósmyndara,“ segir Sigrún.

„Þegar höfundarnir fóru að kafa ofan í viðfangsefni sín virtust þeir hafa þörf fyrir að draga inn marga sögulega þræði. Þannig að þótt greinarnar séu sjálfstæðar og fókusinn sé vissulega á samtímann, þá er sagan til staðar, þannig að bókin verður jafnframt ljósmyndasaga þar sem Ísland er ekki skoðað sem einangrað fyrirbæri heldur í samtali við umheiminn,“ segir Æsa.