Ljósaslóð Vetrarhátíðar er gönguleið frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll sem er vörðuð með ljóslistaverkum eftir ýmsa listamenn.
„Þetta eru alls kyns verk með alls konar miðlum. Þetta er sýning sem gerist aðallega úti og byrjar hjá Hallgrímskirkju og fer niður Skólavörðustíg, Bankastræti, Austurstræti og endar á Austurvelli. Síðan eru líka verk í Ráðhúsinu sem eru partur af slóðinni,“ segir Sesselja.

Allir tengja við ljós
Fjölbreyttur hópur listamanna tekur þátt í Ljósaslóð, þar á meðal Sigurður Guðjónsson, fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2022, sem sýnir verk í Hallgrímskirkju, Hrafnkell Sigurðsson og Þórdís Erla Zöega. Sýningin er opin dagana 2. til 4. febrúar og hvetur Sesselja fólk til að mæta og skoða ljóslistaverkin.
„Þú getur mætt á þínum tíma með þínu fólki, rölt niður leiðina og séð mismunandi verk á mismunandi stöðum,“ segir hún.
Eins og áður sagði er Sesselja einnig listrænn stjórnandi hátíðarinnar List í ljósi á Seyðisfirði ásamt Celiu Harrison en hátíðin verður haldin í áttunda skipti dagana 10. og 11. febrúar. Um er að ræða fjölskylduvæna hátíð sem baðar Seyðisfjarðarbæ í ljósadýrð á einum myrkasta tíma ársins.
Hvað heillar þig við ljóslist?
„Ég held að ljós séu eitthvað sem allir tengja við. Við erum náttúrlega að vinna með alls konar miðla og þú getur í rauninni lýst hvaða miðil sem er með ljósi, hvort sem um er að ræða myndlist, hljóðlist og fleira. En það sem er fallegt við þessar hátíðir er að fólk kemur út til þess að skoða verkin sem er kannski ekkert endilega að fara á söfn eða hefur ekkert endilega áhuga á listum. Það er það sem þessar hátíðir hafa, þær draga út alla, unga krakka sem eldri borgara.“
Það sem er fallegt við þessar hátíðir er að fólk kemur út til þess að skoða verkin sem er kannski ekkert endilega að fara á söfn eða hefur ekkert endilega áhuga á listum.
Engin sól í fjóra mánuði
List í ljósi er haldin samhliða endurkomu sólarinnar á Seyðisfjörð en á meðan skammdegið ræður ríkjum skín engin sól á Seyðisfjörð í tæpa fjóra mánuði.
„Ástæðan fyrir dagsetningunni er sú að sólin er náttúrlega búin að vera horfin í fjóra mánuði. Hún skín ekki í andlitið á okkur á Seyðisfirði í þrjá til fjóra mánuði,“ segir Sesselja.
List í ljósi hlaut Eyrarrósina 2019 sem eru verðlaun veitt árlega fyrir afburða menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins. Sesselja segir það hafa verið mikinn heiður og staðfestingu á því starfi sem þær Celia hafa unnið að í tæpan áratug. Fjölmargir listamenn koma fram á List í ljósi þetta árið, mestmegnis íslenskir listamenn frá Austurlandi og víðar.
„Við erum að einbeita okkur að fólki sem býr á Seyðisfjarðarsvæðinu og líka Íslandi yfir höfuð. En við erum með einn og einn erlendan listamann, til dæmis hana Abigail Portner sem vinnur mjög mikið fyrir Animal Collective og önnur stór nöfn í Bandaríkjunum. Hún kemur og ætlar að varpa stórum verkum á tvö hús. Síðan verðum við aftur með Sigurð Guðjónsson sem ætlar að varpa á kirkjuna okkar heima á Seyðisfirði, þannig að við ætlum að tengja hátíðirnar tvær saman með kirkjunum okkar,“ segir hún.
Skiptir hátíðin miklu máli fyrir Seyðfirðinga?
„Já, hún er mjög mikilvæg fyrir Seyðfirðinga. Hún gerist náttúrlega á dimmasta tíma ársins þannig að þetta er rosa mikill fögnuður og eitthvað sem Seyðfirðingar hlakka alltaf rosa mikið til. Það er mikill stuðningur og það eru einhvern veginn allir með okkur í liði sem er ótrúlega skemmtilegt.“

Slökkva öll ljós í bænum
Það sem er sérstakt við List í ljósi er að meðan á hátíðinni stendur eru öll ljós slökkt í bænum svo bæjarbúar og gestir geta notið ljóslistaverkanna í niðamyrkri vetrarhúmsins.
„Sem betur fer er Rarik með okkur í liði þannig að við fáum að slökkva öll ljós, götuljós og húsaljós og síðan kveikjum við á verkunum mínútu síðar og þau lýsa upp bæinn. Þannig að þetta verður mjög dramatísk og falleg stund,“ segir Sesselja.
Hafa bæjarbúar aldrei orðið pirraðir á því að ljósin séu slökkt?
„Nei, alls ekki, þeim finnst bara held ég svolítið rómantískt að fá að labba um í myrkrinu. Á köflum er náttúrlega algjört myrkur, ef það er langt á milli verka, og það er eitthvað sem fólk upplifir mjög sjaldan. Að fá bara ró og næði og labba um í myrkri. Oftar en ekki koma líka norðurljósin og kíkja aðeins á okkur.“