Fjórir karlmenn hafa að þessu sinni rétt upp hönd og eru mislangt komnir með að ganga frá umsóknum sínum sem leggja á fyrir þjóðina í sumar. Guðni Th. Jóhannesson hefur þegar náð tilskyldum fjölda meðmælenda til þess að geta lagt fram gilda umsókn um að fá að gegna embættinu í fjögur ár til viðbótar.

Axel Pétur Axelsson, Guðmundur Franklín Jónsson og Arngrímur Friðrik Pálmason eru komnir skemmra á veg en voru þó óbugaðir síðast þegar fréttist. Engin skömm er þó heldur að því að heltast úr lestinni enda geymir sagan og Tímarit.‌is ófáar sögu forsetaframbjóðenda sem aldrei urðu.

Þurfti að gera allt sjálfur

Málarinn Rögnvaldur Pálsson renndi hýru auga til Bessastaða 1980 en í lok maí útskýrði hann í viðtali við Vísi hvers vegna ekkert yrði af framboði hans. „Ég tel, að stuðningsmenn mínir hafi ekki unnið nógu vel fyrir mig, við höfum verið fáliðaðir og ég hef þurft að sinna 92% söfnunarinnar sjálfur,“ sagði Rögnvaldur sem taldi sig þó ekki hafa skort meðmælendur.

Kengurinn hafi helst verið sá að í ljós kom „að margur hafði blandað saman gögnum úr nokkrum kjördæmum“. Rögnvaldur sagðist í Vísi telja að kosningabaráttan hefði kostað hann eitthvað á milli 10-15 milljónir króna sem honum þætti ekki mikið í samanburði við aðra frambjóðendur.

„Ég tel að aldrei hafi nokkur alþýðumenntaður maður komist jafnlangt og ég í sambandi við forsetakjör,“ sagði forsetaframbjóðandinn fyrrverandi sem ætlaði að snúa sér að stjórnmálum en halda fyrst málverkasýningu.

Rögnvaldur hætti við snemmsumars 1980 meðal annars vegna þess að stuðningsmennirnir sinntu að hans sögn framboðinu með hangandi hendi.

Sá fyrsti varð síðastur

Áður en Ólafur Ragnar Grímsson stal senunni 1996 steig Ragnar Jónsson orgelleikari fram og varð sá fyrsti til að lýsa sig reiðubúinn til þess að taka við embætti forseta af Vigdísi Finnbogadóttur.

Alþýðublaðið kynnti hann til leiks 24. mars í örfrétt sem hafði yfir sér dálítinn feigðarboða sem átti eftir að rætast á mettíma. „Ragnar Jónsson var senuþjófur síðustu viku þegar hann tilkynnti fyrstur manna um forsetaframboð. Ekki er vitað hvað organistanum gengur til, enda var hann til skamms tíma gersamlega óþekktur.“

Alþýðublaðið bætti við að á næstunni ætti Ragnar eftir að fá að „kynnast þeim funhita sem einatt fylgir sviðsljósinu“ og upplýsti að Helgarpósturinn væri að vinna úttekt á ferli hans og myndi birta „sitthvað sem tæpast kemur forsetaframbjóðandanum til góða í kosningabaráttunni ...“

Fjórum dögum síðar birti Morgunblaðið tilkynningu frá Ragnari þar sem hann sagðist „í ljósi þess að ákveðin dagblöð hafa farið offari í að sverta mína persónu í málflutningi sínum varðandi framboð mitt. Í samráði við mitt stuðningsfólk hef ég ákveðið að draga framboð mitt til forseta Íslands til baka. Vil ég færa þeim fjölmörgu, sem hafa stutt mig, kærar þakkir.“

Friður á jörð

„Hér með er upplýst að ég hef ákveðið að fara í framboð til embættis forseta Íslands. Ákvörðunin kemur eingöngu frá sjálfum mér. Hins vegar hafa aðilar komið að máli við mig og lagt þetta til að eigin frumkvæði eftir að ég hafði tekið ákvörðun og án þess að vita af því að ég hefði gert það. Meginástæðan fyrir ákvörðun minni er sú að með þessu hef ég aukið tækifæri til að koma á framfæri hugsjón minni um frið á Jörð.“

Þannig hljómaði tilkynning frá Guðmundi Rafni Geirdal, nuddara með meiru, sem Helgarpósturinn birti á nokkuð háðskum nótum hinn 1. febrúar 1996. Forsetadraumur Guðmundar fjaraði út á rúmum þremur mánuðum og því hélt HP einnig vandlega til haga 30. maí undir fyrirsögninni „Andstaða var við framboð mitt innan fjölskyldunnar“.

Þar birti blaðið vikugamalt símbréf frá Guðmundi Rafni sem var nú „fyrrverandi væntanlegur forsetaframbjóðandi“. Guðmundur upplýsti í faxinu að hann hefði ákveðið að draga framboð sitt til baka þegar hann var kominn með 505 meðmælendur.

Guð­mundur Rafn Geir­dal hafði ekki erindi sem erfiði þegar hann reyndi meðal annars að safna með­mælendum á síðum Morgun­blaðsins enda hefur sagan kennt á­hugu­sömum að meira en viljann þarf til að komast alla leið á Bessa­staði.

Að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið hefði honum ekki þótt réttlætanlegt að trufla einkafrið og mikilvægari störf embættismanna frekar með því að sækja um undanþágu frá skilafresti.

Auk þess að hafa ekki náð „fullnægjandi tölu meðmælenda“ tiltók Guðmundur Rafn þrjár aðrar meginástæður fyrir því að hann ákvað að leggja árar í bát. Í fyrsta lagi 0-2% fylgi í skoðanakönnunum, í öðru lagi hefði verið andstaða við „framboð mitt innan fjölskyldu minnar“, og í þriðja lagi hefðu fáir mætt á kosningafundi hjá honum.

Trúr hugsjónum sínum lýsti hann síðan yfir stuðningi við alla hina frambjóðendurna sem náðu að skila inn framboði með tilskyldum fjölda meðmælenda.

Taka tvö

Guðmundur Franklín Jónsson gerir nú aðra atrennu að Bessastöðum en aðdáun hans á þá fráfarandi en þó kannski ekki forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni, varð honum fjötur um fót fyrir fjórum árum.

Viðskiptablaðið sagði frá framboði Guðmundar Franklíns 20. mars 2016 og þá var hann kynntur til leiks sem fyrrum formaður Hægri grænna sem stýrði rekstri Hotel & Café Klippen í Danmörku. Þá var hann einnig sagður „yfirlýstur aðdáandi Ólafs Ragnars Grímssonar, fráfarandi forseta, og var áberandi í samfélagsumræðunni í kjölfar bankahrunsins“.

Guðmundur Franklín hætti síðan við allt saman og dró framboð sitt til baka þegar Ólafur Ragnar tilkynnti að hann hygðist, eftir allt saman, gefa kost á sér eina ferðina enn. Séra Vigfús Bjarni Alfreðsson og rafmagnstæknifræðingurinn Heimir Örn Hólmarsson völdu sömu útleið og Guðmundur en í kjölfarið hætti svo Ólafur Ragnar aftur við allt saman og dró sig í hlé.

Skuggi Ólafs

Þetta sama ár hætti Youtube-stjarnan Ari Jósepsson við, því hann sá ekki fram á að sú vinna sem þyrfti að leggja í framboðið skilaði tilætluðum árangri og mjólkurfræðingurinn Benedikt Kristján Mewes náði ekki að safna nægilega mörgum meðmælendum og gekk úr skaftinu.

Benedikt, sem fæddist í Þýskalandi, fékk ríkisborgararétt 2009, sagðist, án þess þó að gera sér of miklar vonir, langa til að „verða fyrsti samkynhneigði maðurinn sem verður forseti“.

Ari, Vigfús Bjarni og Heimir Örn, sem skaut upp kollinum í fréttum 2018 þegar hann seldi é netinu armbönd sem slá á sjó- og bílveiki, hafa öðrum hnöppum að hneppa núna en Guðmundur Franklín safnar hins vegar liði og undirskriftum laus undan skugga Ólafs Ragnars og sennilega mun ekkert koma í veg fyrir framboð hans núna. Nema vitaskuld ef ske kynni að Ólafur Ragnar gefi aftur kost á sér.