Laufey trúir ekki á skyndilausnir heldur að við séum stöðugt að hugsa um líkama og sál. „Mín upplifun er sú að það skiptir máli hvað við borðum og hvað við drekkum mikið af vatni, hvernig við sofum og ekki síst hvernig við ræktum sálina,“ segir Laufey.

Laufey býr á Seltjarnarnesi í reisulegu húsi, á tveimur hæðum við sjávarsíðuna, með fjölskyldu sinni. Á fyrstu hæð hússins er snyrtistofan Leila Boutique sem Laufey rekur og þar fá gestir stofunnar fyrsta flokks húðmeðferðir og slökun en Laufey er líka lærður nuddari sem kemur sér ákaflega vel í faginu. Sambýlismaður Laufeyjar er Friðrik Karlsson tónlistarmaður og á heimilinu búa tvö uppkomin börn Laufeyjar og dóttir Friðriks.

Þegar kom að því hjá Laufeyju að mennta sig fór hún út fyrir landsteinana. „Ég menntaði mig í Englandi í ensku og viðskiptum og alþjóðlegri snyrti-, förðunar- og nuddfræði. Ég hef ávallt haft áhuga á lífsrækt, en andleg og líkamleg rækt tengist mínu fagi.“

Umhirða húðarinnar skiptir máli

„Ég fékk áhuga á þessu fagi frá Maríu móður minni, sem seldi snyrtivörur á Akureyri. Ég ætlaði samt í hárgreiðslunám fyrst , en þar sem ég bjó úti á landi fékk ég ekki inngöngu fyrr en árið eftir. Þá æxlaðist það þannig að ég fór í nám í Englandi.“

Laufey segist alltaf hafa haft áhuga á umhirðu húðarinnar.

Getur þú gefið okkur góð ráð um hvað skiptir mestu máli þegar kemur að því að hugsa vel um húðina, sérstaklega andlitið?

„Það skilar sér alltaf síðar að hugsa vel um húðina. Það er nauðsynlegt að hreinsa húðina vel með andlitsmjólk og andlitsvatni á kvöldin og jafnvel á morgnana. Aldrei að fara að sofa með óhreina húð. Síðan þarf að bera dag- og næturkrem og jafnvel serum eða olíu undir, aldrei að gleyma hálsi og bringu,“ segir Laufey og bætir við að vert sé að byrja að nota augnkrem upp úr 25 ára aldri. „Íslendingar eru gjarnir á að nota vatn úr krananum til að þvo andlitið, sem getur þurrkað viðkvæma húð, en við þurfum að viðhalda rakanum vel.“

Sólina ber að varast

Nú er hækkandi sól á lofti og sólþyrstir Íslendingar spenntir fyrir að njóta sólarinnar.

Ert þú með einhver töfraráð til að tryggja að við getum verndað húðina?

„Eins og sólin getur glatt marga, þá ber líka aða varast hana, eins og að setja rakaserum undir og 50+ sólarvörn yfir. Eftir daginn er gott að nota kornamaska og taka með sér rakamaska í fríið.“

Laufey býður upp á nýja byltingarkennda meðferð sem hefur vakið mikla athygli. Hér er á ferðinni CACI andlitsmótunnar meðferð sem byggist á því að endurnýja húðina og lyfta henni upp án inngrips.

Meðferðin sem hefur slegið í gegn

Nýja byltingarkennda meðferðin CACI andlitsmótunin sem þú býður upp á, getur þú sagt okkur aðeins frá meðferðinni og eiginleikum hennar?

„Ég er með alla almenna snyrtiþjónustu, en legg áherslu á CACI andlitsmótunina. Fyrirtækið CACI er búið að þróa meðferðina í 30 ár og er ég búin að fá 3 ára reynslu í meðferðinni. Hún byggist á því að þjálfa andlitsvöðvana með hljóðbylgju- og loftþrýstitækni til að fjarlægja dauðar húðfrumur og djúphreinsa húðina. Ljósaþerapía og CACI fínulínubaninn. Húðendurnýjun og sýnir samstundis árangur í andliti án þessa að þú þurfir að fara undir hnífinn. Við endum síðan meðferðina á öflugri öldrunarstöðvun með hydratone andlitsmaskanum sem gefur aukinn raka og endurnýjar og lífgar upp á húðina.“

Hvernig fréttir þú af þessari meðferð?

„Ég fór á snyrtisýningu í Bretlandi og sá þar CACI stjörnumeðferðina sem ég heillaðist svo af.“

Meðferðin hefur notið vinsælda hjá viðskiptavinum. „Það hafa margir prófað hana hjá mér. Annars vegar kemur fólk reglulega, eða þá það tekur 3-6-eða 10 skipti með stuttu millibili. Gaman er líka að geta þess að augnmaskinn sem tilheyrir CACI augnmeðferðinni er verðlaunamaski ársins 2019 og aftur núna í Bretlandi, með einkunn 15/15. Einnig fékk CACI andlitsmeðferðin og hydrotone maskinn verðlaun 2017 og 2020 í Bretlandi sem bestu andlitsmeðferðir, einkunn 10/10. Allir mínir CACI-kúnnar hafa fundið fyrir því að hafa endurheimt æskuljómann, það er meiri raki, þéttari og stinnari húð og lyfting hefur átt sér stað.“

Hefur margt breyst í áranna rás þegar kemur að umhirðu húðarinnar, með aukinni þekkingu og reynslu?

„Fólk lifir allt öðruvísi lífi í dag. Það sem hefur breyst er að fólk lifir hraðar og vill fá skyndilausnir og hafa snyrtifyrirtækin tekið mið af því. Fólk gerir kröfur um umhverfisþætti og innihald vara. Allt fer í hringi. En við verðum að muna að ljóminn og fegurðin kemur innan frá, þar byrjum við að bera virðingu fyrir og þykja vænt um sjálfið.“