Ellefta ljóðabók Margrétar Lóu Jónsdóttur heitir Draumasafnarar. „Ég fór í þriggja mánaða reisu rétt fyrir COVID og bjó í Galisíu á Norður-Spáni. Síðan lá leiðin til Gotlands þar sem ég dvaldi í mánuð í miðaldabænum Visby í baltnesku höfunda- og þýðingamiðstöðinni. Bærinn stendur innan myndarlegra virkisveggja og þar hafði ég gott næði til að vinna í ljóðahandritinu,“ segir Margrét Lóa.

Um ljóðin í bókinni segir hún: „Í fyrsta hluta eru styttri ljóð og síðan taka við tveir ljóðabálkar. Miðhlutinn er hugsaður sem dagbók frá pílagrímsgöngu og síðan tekur lokahlutinn við sem ber nafnið Draumasafnarar, en sá bálkur er elegía um æskuvin minn sem dó mjög ungur. Ég fjalla um einveru, sársauka og ofbeldi en líka um lífsgleði og hlátur. Ég reyni að koma frásögninni til skila með því að draga upp myndir en vil um leið skilja ákveðna hluti eftir í einhvers konar tómarúmi og þögn. Fyrsta ljóð bókarinnar heitir Skýjasafnarar og fjallar um draum sem mig dreymdi þegar ég var nýbyrjuð að setja handritið saman. Ljóðið spratt fullskapað fram og um leið vissi ég að ég væri komin með upphafsstef fyrir bókina.

Fyrsti kafli bókarinnar heitir Allt sem lifir deyr. Ég er upptekin af lífinu og dauðanum. Þegar við verðum fyrir áföllum og þegar dauðinn skekur tilveru okkar þá virkar margt í lífinu fremur lítilfjörlegt og hégómlegt en það er mikilvægt að halda áfram, gefast ekki upp. Þess vegna ákvað ég að skrifa um pílagrímsgöngu en hún gengur út á það eitt að halda áfram, láta einfaldlega annan fótinn fram fyrir hinn. Gangan er líkamleg áreynsla en þessi hreyfing er okkur um leið svo eðlislæg.“

Fyrsta ljóðabók Margrétar Lóu kom út árið 1985, þegar hún var einungis átján ára gömul. Hún er spurð hvort henni finnist hún hafa lært mikið á þeim tíma sem liðinn er. „Ég les miklu meira, nýt þess alltaf betur og betur að lesa ljóð og hlusta á þau. Ljóðið er form sem á að hljóma, þannig lifnar það við. Ég ber alltaf jafn mikla virðingu fyrir ljóðforminu en í seinni tíð finnst mér mest spennandi að semja ljóð sem mynda bálk. Ferlið við hverja bók felur í sér nýjar uppgötvanir og þótt áratugir líði þá er formið alltaf jafn ferskt. Maður er alltaf á einhvers konar byrjunarreit. Ljóðið hættir aldrei að vera ákveðin glíma og þess vegna er eðlilegt að vera hógvær gagnvart því.“