Jón Kalman Stefánsson er þekktastur fyrir skáldsögur sínar sem hafa verið þýddar á fjölda tungumála og unnið til verðlauna víða um heim. Hann tók þó sín fyrstu skref í bókmenntaheiminum með þremur ljóðabókum sem komu út á árunum 1988-1993 og nú eftir nærri þriggja áratuga bið sendir hann frá sér fjórðu bókina, sem ber titilinn Djöflarnir taka á sig náðir og vakna sem guðir.

Aðspurður um hvernig það hafi verið að snúa aftur til ljóðsins eftir svo langa veru í prósanum segir Jón Kalman að því hafi í raun verið öfugt farið.

„Það var eiginlega frekar þannig að ljóðið sneri aftur til mín. Ég man eftir því að þegar ég gaf út þarsíðustu ljóðabókina, Hún spurði hvað ég tæki með mér á eyðieyju, 1993, fann ég að ég var ekki alveg sáttur við sjálfan mig. Eða fannst eins og ég næði ekki alveg að fanga það sem ég fann fyrir innra með sjálfum mér, og ég held að það hafi verið þess vegna sem ég leitaði yfir í prósann.“

Jón Kalman hefur sent frá sér sína fyrstu ljóðabók í nærri þrjá áratugi
fréttablaðið/sigtryggur ari

Æð sem opnaðist

Jón Kalman segist hafa saknað ljóðsins en þó hann hafi ekki ort ljóð lengi þá hafa þau alltaf verið með honum á einn eða annan hátt. Að sögn hans byrjuðu ljóðin að koma aftur í kjölfar breytinga í hans persónulega lífi.

„Þetta kom eiginlega án þess að ég reyndi að knýja það fram. Ég fann, eða skynjaði, að ég gat ekki tjáð ákveðna hluti nema með ljóðinu og þá opnaðist einhver æð. Ég orti lungann úr bókinni á tæpu ári, það gekk mikið á um tíma. En sjálf ljóðin komu þó öll án átaka. Svolítið eins og þau hafi flætt upp á yfirborðið. Auðvitað var einhver vinna í þeim eftir á en þau komu nokkuð hrein, ólíkt því sem var áður þegar ég var yngri. Þá var ég yfirleitt mjög lengi að vinna í hverju ljóði.“

Myndirðu segja að þetta væri persónuleg bók?

„Ljóðið hefur oft verið kallað persónulegasta formið, en reyndar er allur gangur á því. Ég hef alltaf verið persónulegur höfundur, ef svo má segja, líka í mínum skáldsögum og gef mig allan í það sem ég er að skrifa. En eðli málsins samkvæmt er skáldsagan allt öðruvísi, maður nálgast heiminn með allt öðrum hætti og það koma miklu fleiri ytri þættir inn í heldur en í ljóðinu. Því má alveg segja að þessi ljóðabók sé að einhverju leyti persónulegri en skáldsögurnar en það liggur kannski ekkert síður í eðli formsins.“

Brot úr Kannski inniheldur það fuglasöng

Ljóðið

er eina lesefnið sem hinir dánu

geta lesið, það eina sem kemst

á milli, og þessvegna

eru skáldin

celeb eilífðarinnar, gleymdu

kvikmyndastjörnum, gleymdu áhrifavöldum,

leiðtogum, íþróttastjörnum,

þeirra áhrif nema staðar í dauðanum

þar sem skáldin eru rétt að byrja að hitna

Það dýpsta og elsta í mannsandanum

Í síðasta ljóði bókarinnar, Kannski inniheldur það fuglasöng, fjallar Jón Kalman um tengsl skáldskapar og handanheimsins og setur þar fram þá afdráttarlausu yfirlýsingu að ljóðin séu einu tíðindin sem berist á milli hinna lifandi og hinna dauðu. Er blaðamaður biður hann að útskýra þá hugmynd segir Jón Kalman að ljóðið sé elsta formið. Ekkert liggi jafn djúpt í mannkynssögunni og mannsandanum og ljóðið, nema kannski tónlistin.

„Ljóð eftir gott skáld er alltaf miklu, miklu stærra en sjálft skáldið. Það er miklu dýpra, miklu vitrara, miklu eldra. Þegar skáld yrkir gott ljóð þá verður það þúsund ára gamalt. Þannig að ef eitthvað kemst á milli lífs og dauða þá er það náttúrlega það elsta og það dýpsta og það skrýtnasta, það sem rökhugsunin nær aldrei yfir,“ segir hann.

Það er þá eitthvað órætt sem kemst þarna á milli og virkjar skáldin og skáldskapinn?

„Já, og þess vegna finnst mér svo dapurlegt að fleiri skuli ekki lesa ljóð. Af því að fólk áttar sig ekki á því hversu mikið það fer á mis við. Að lesa ljóð getur fært þér svo mikið, það getur fært þér kyrrð, það getur fært þér óvissu, spurn, fegurð, háska. Ljóð sem er á einni síðu og tekur þig mínútu að lesa getur bærst í þér allt þitt líf. Ég er alveg viss um að ef fólk myndi yfirstíga þá hugsun, þann misskilning, að það sé erfitt eða leiðinlegt að lesa ljóð og myndi bara nálgast ljóðið án fordóma og algjörlega afslappað, þá myndi það flæða inn í það.“

Leit að tilgangi lífsins

Djöflarnir taka á sig náðir fjallar töluvert um endalok, hvort sem það eru endalok lífs, endalok ástar eða jafnvel endalok heims. Spurður hvort bókin sé einhvers konar uppgjör svarar Jón Kalman því að hann telji allar bækur sínar vera á vissan hátt uppgjör.

„Þegar ég byrja á nýrri skáldsögu þá er ég alltaf sannfærður um að með því að skrifa þá bók muni ég komast að því hvort það sé líf eftir dauðann, hvort guð sé til og hver sé tilgangur lífsins. Þetta er ákveðið naívítet en ég er alltaf jafn innilega sannfærður um að það takist og að skáldskapurinn sé sú aðferð og það vopn sem dugi til þess. En ég held að það sé líka eðlilegt og ósjálfrátt að þegar maður snýr aftur til ljóðsins, eða ljóðið kemur aftur til manns eftir allan þennan tíma, að þá hugsi maður líf sitt og heiminn upp á nýtt. Allt það sem hefur komið fyrir mann, öll sú reynsla og þroski, öll þau mistök og áföll sem fylgja lífinu, það auðvitað flæðir inn í ljóðið,“ segir Jón Kalman.