Draumey Aradóttir er kennari, skáld og förukona. Nýjasta bók hennar ber titilinn Varurð, og fjallar um óttann, upptök óttans og uppgjör höfundar við þessa tilfinningu.
„Þetta er ljóðför í gegnum óttann. Ég hef skrifað tvær ljóðabækur áður sem hafa líka verið ferðalög og þessi bók er þá ferðalag í gegnum óttann í þremur hlutum. Fyrsti hlutinn fjallar um rætur óttans, þar sem óttinn verður til. Í Varurð er það í bernskunni því þetta er persónuleg bók. Ég er í raun og veru að fjalla um mitt líf,“ segir Draumey.
Varurð hefur vakið töluverða athygli og setið á metsölulista Eymundsson yfir ljóðabækur nánast samfleytt frá því hún kom út í september.
„Miðhlutinn fjallar um átökin við óttann, það að þora að mæta óttanum og skoða hann. Sjá hann eins og hann er og reyna þannig að sigrast á honum. Það eru átökin í þessum miðhluta því það tel ég vera einu leiðina til þess að komast í gegnum hluti hverjir sem þeir eru. Þriðji og síðasti hlutinn er þá þar sem innri friður og sátt ríkir. Þá get ég farið að skoða bara lífið, hver ég er og hef verið, út frá þessari sátt,“ segir Draumey.

Beið eftir rétta tímanum
Er bókin þá ákveðið uppgjör?
„Já, það má alveg segja að þetta sé sannarlega uppgjör. En samt sem áður, þegar ég skrifa bókina núna þá er ég ekki að gera hlutina upp, ég er löngu búin að því sjálf, fyrir áratugum síðan. Ég skrifa hana í algjörri kyrrð en ég dreg upp mynd af því sem var og þessu ferðalagi og þessum átökum sem voru á sínum tíma.“
Spurð um hvað hafi kveikt löngunina til að skoða þetta tímabil í sínu lífi aftur, segist Draumey innst inni alltaf hafa vitað að hún myndi skrifa bók um ferðalagið í gegnum óttann.
„Ég beið eftir rétta tímanum og svo bara kom hann skyndilega. Það var þegar ég flutti til baka til Hafnarfjarðar fyrir þremur árum síðan, en ég er fædd þar. Ég horfði yfir höfnina og horfði á ólgandi sjóinn og þá fann ég bara ólguna innra með mér, ekki neikvæða, ég fann bara að þetta snerti við mér og fann að nú er tíminn. Af því þá var ég komin í umhverfið og var alltaf minnt á þetta, bara með götunum og húsunum, minnt á upphaf óttans. Þá fann ég löngunina að gera þetta.“

Að lifa er að deyja
1
Allir eiga sína frásögn að hlýða á
sínar sögur að segja
sinn ótta að sættast við
allir þurfa að mæta sjálfum sér
í spurn
þú mætir þér
en af ótta við svarið líður á löngu
þar til þú áræðir að spyrja
Allir beri með sér ótta
Draumey segist trúa því að allar manneskjur beri ótta með sér einhvern tíma á lífsleiðinni.
„Ég trúi því að manneskjur beri einhvern ótta á einhverju tímabili ævi sinnar og svo er það náttúrlega misjafnt af hverju óttinn stafar og hvers konar ótti það er. Í mínu tilfelli þá var þetta ótti sem varð til út af andlegu ofbeldi. Ég fer með þennan ótta með mér frá Hafnarfirði þegar ég flyt þaðan um tvítugt og veit allan tímann að ég þarf að vinna í honum og það gerði ég,“ segir hún.
Draumey segist vonast til þess að bók hennar geti hjálpað öðrum sem eiga eftir að takast á við sinn eigin ótta.
„Ég held að það sé svo gott að skrifa bækur um svona ferðalög, hvort sem það er í gegnum ótta eða eitthvað annað, vegna þess að það veitir öðrum von sem eiga kannski sitt ferðalag eftir, sem þeir vita innst inni að þeir þurfa að mæta.“
Ég trúi því að manneskjur beri einhvern ótta á einhverju tímabili ævi sinnar og svo er það náttúrlega misjafnt af hverju óttinn stafar og hvers konar ótti það er. Í mínu tilfelli þá var þetta ótti sem varð til út af andlegu ofbeldi.
Enn ein ferðin
Bækur Draumeyjar eru gjarnan með eitthvert þema, hún hefur til að mynda áður skrifað ljóðabækur um ástina, lífið og dauðann og núna óttann. Hún segist þegar vera byrjuð að leggja drög að næstu bók.
„Ég byrjaði bara strax og ég var búin að setja lokapunkt á Varurð. Það er enn ein ferðin, ég er svona förukona, fer alltaf í ferðalög. Vinnuheitið á því sem ég er að gera núna er Hringsól, því að þetta eru margar ferðir, hring eftir hring, ótal hringfarir og svo á ég eftir að sjá hvað verður. Þetta verður ekki beint ljóðabók en mjög ljóðræn og ég ætla bara að leyfa því að verða sem vill,“ segir hún.