Tómas er fyrst spurður hvenær hann hafi byrjað að yrkja.

„Ég hef ort með hléum síðan í framhaldsskóla en mest af þeim skáldskap endaði í ruslinu. Þegar ég byrjaði í ritlist í Háskóla Íslands var mér ýtt út í að sýna öðrum verk mín og þar lærði ég líka að diskútera eigin ljóð og annarra og komst að því hvernig unnið var áfram með ljóð. Þá fór ég að sjá nokkur eigin ljóð sem langaði ekki í ruslið, þau vildu verða eftir á borðinu og ég fór að safna þeim. Svo fóru þau að tala saman og þannig varð til umframframleiðsla. Ég sá þráð á milli ljóðanna, byrjaði að tengja þau saman, taka þau í sundur og setja saman upp á nýtt.“

Í aðfaraorðum bókarinnar segir Tómas frá rannsóknum Duncans MacDougall árið 1907, en af þeim dró MacDougall þá ályktun að sál mannsins væri efnisleg og væri nákvæmlega 21 gramm.

Um sálina

Ljóðabók Tómasar fjallar ekki síst um sálina.

„Aftarlega í bókinni er ljóð þar sem segir að í hverri manneskju sé að finna 21 gramm af viljastyrk og frestunaráráttu. Þetta tiltekna ljóð opnaði fyrir mér ákveðna vídd og ég skrifaði fleiri ljóð sem töluðu við einhvern kjarna í því ljóði. Allt hverfðist þetta um þessa niðurstöðu MacDougall um að sálin sé 21 gramm, sem gangi af þegar við deyjum, hún sé þessi umframframleiðsla, þetta innsta sem við erum alltaf að reyna að tjá með menningu okkar og jafnvel iðnaði.

Ég er að yrkja um þessa efnislegu eða ekki efnislegu sál sem er þá óefni, með öðrum orðum ekki efni en samt kannski efni. Sögumaður í bókinni leitar til þriggja kvenna því hann vill ná utan um sjálfið í sér. Sögumaðurinn, sem er ókynjaður, byrjar hjá sálfræðingi sem hlustar, til að greiða úr þeirri flækju sem þetta óefni er. Síðan fer sögumaðurinn á öldurhús, þar sem hann fær að viðra skoðanir sínar en kemst ekkert lengra með þær. Í lok bókarinnar er sögumaður kominn til trúnaðarvinkonu sem raunverulega hlustar, en á svo sem ekkert annað ráð en að bjóða manneskjunni að leggja sig í sófanum, en hlýjan sem hún veitir er nauðsynleg gagnvart neyslu og þar með þjáningu heimsins. Það er skjól í svefninum og hvíldinni.“

Mósaík sinna

Tómas segist hafa gert mörg uppköst að bókinni.

„Í byrjun áttu að vera þrír meginkaflar en þeir voru síðan teknir í sundur. Ljóðin voru fyrst með titla en þeir voru teknir út og í staðinn gerðar tilraunir með kaflaheiti. Þetta voru mikil endurskrif. Mörg ljóð byrjuðu sem ákveðnar heildir en erindi í þeim enduðu síðan á nokkrum mismunandi stöðum í bókinni. Það var mósaíkvinna að búa til þessa heild þar sem ég var nokkurn veginn að stela myndum frá sjálfum mér og dreifa þeim um verkið.“

Spurður hvernig tilfinning það sé að fá fyrstu bók sína í hendur segir hann:

„Það að sjá hana og halda á henni var skrýtin tilfinning og henni fylgdi smá kvíði. Hugsun mín hafði ratað í bók og nú þarf ég að læra að lifa með þeirri afurð.“

Spurður hvort fleiri bækur séu á leiðinni segist Tómas vera að endurskrifa skáldsöguhandrit og bætir við:

„Það fjallar vonandi ekki um ráðvilltan mann í Reykjavík.“