Brunagaddur er ný ljóðabók eftir Þórð Sævar Jónsson en hann hefur áður sent frá sér ljóðakverið Blágil og ljóðabókina Vellankötlu.

Um nýju ljóðabókina segir Þórður Sævar: „Titillinn er mjög lýsandi fyrir ljóðin, þetta er mjög köld bók í alla staði. Ég er að yrkja um fyrsta veturinn minn á Akureyri í 22 ár. Ég er fæddur og uppalinn á Akureyri, var átta ára þegar fjölskyldan flutti suður og flutti síðan norður árið 2019. Sá vetur var með eindæmum snjóþungur og kaldur og ljóðin komu bara af sjálfu sér. Fannfergi, frost og myrkur tengja ljóðin saman og hljóðið í ljóðmælandanum verður æ þyngra eftir því sem líður á bókina.

Ég vona samt að það sé einhver húmor í ljóðunum, ég reyni allavega að sjá spaugilegu hliðina. Ætli ljóðin vegi ekki salt á milli þess að vera þunglyndisleg yfir í að vera nokkuð brosleg.“

Spurður hvort hann ætli að halda sig við ljóðagerð í framtíðinni eða snúa sér að prósagerð segir Þórður Sævar: „Mér er eðlislægt að sækja í ljóðið en mig langar til að spreyta mig á lengri textum. Ég gaf til að mynda út stutt prósaverk í hittifyrra sem heitir 49 kílómetrar er uppáhalds vegalengdin mín. Ég er aðeins farinn að safna í sarpinn en hef líka verið að grípa í þýðingar með eigin skrifum.“

Fyrsta tunglförin

Þórður Sævar hefur þýtt verk eftir Richard Brautigan og Lúkíanos frá Samosata. Ný þýðing hans á skáldsögu eftir Brautigan er væntanleg í byrjun næsta árs. Hann gefur Brautigan þessa einkunn: „Það er leitun að fyndnari og skemmtilegri rithöfundi. Hann er magnaður stílisti, ljóðrænn og á líka skemmtilega súrrealíska og furðulega spretti. Hjá honum er gott jafnvægi milli galsa og djúpstæðs trega.“

Þórður Sævar er með BA-gráðu í forngrísku. „Lokaverkefnið mitt í BA-náminu var þýðing á verki eftir Lúkíanos frá Samosata og í kjölfarið á því þýddi ég annað verk eftir hann, Sönn saga, en margir eru á því að það sé fyrsta bókmenntaverkið sem flokkast geti sem vísindaskáldskapur, en þar er sagt frá fyrstu tunglför bókmenntasögunnar.

Lúkíanos var uppi á annarri öld eftir Krist. Gríska var ekki móðurmál hans en hann náði ótrúlegum tökum á henni og saug í sig gríska menningu. Það er mál manna að hann sé einn fremsti stílsnillingur sem ritað hefur á forngrísku, afkastamikill og frumlegur.“

Yfirgripsmikið verk

Þessa stundina vinnur Þórður Sævar að því að búa til útgáfu endurminningar Guðjóns R. Sigurðssonar vesturfara og alþýðulistamanns. „Hann fæddist árið 1903 og lést 1991. Hann skrifaði endurminningar sínar árið 1980 en þær komu ekki út meðan hann lifði. Þegar konan mín setti upp yfirlitssýningu á verkum hans á Höfn í Hornafirði fengum við veður af þessum endurminningum. Guðjón bjó í Kanada í 37 ár og í áratug þvældist hann þar um óbyggðir og skaut dýr og seldi skinn. Þetta er yfirgripsmikið og stórt verkefni sem mig langar til að leiða til lykta.“