Það er ó­hætt að segja að eftir­vænting ríki fyrir endur­gerðinni af Lion King sem kemur út í kvik­mynda­hús í næstu viku. Frétta­blaðið náði tali af tveimur af leikurum ís­lenskrar tal­setningar á myndinni þeim Ævari Þór Benediktssyni sem fer með hlut­verk Tímons og Írisi Hólm Jóns­dóttur en hún verður í hlut­verki full­orðinnar Nölu.

Eins og Frétta­blaðið hefur greint frá sér ein­vala­lið leikara um tal­setningu á myndinni sem Stúdíó Sýr­land stendur fyrir. Beðið er eftir endur­gerðinni með mikilli eftir­væntingu enda var upp­runa­lega teikni­myndin sú að­sóknar­hæsta hér­lendis til ársins 2018.

Fær að syngja skemmti­legasta lag myndarinnar

Hvernig leggst í þig að leika Tímon?

„Gríðar­lega vel. Hann er bæði afar skemmti­legur karakter og svo fær hann að syngja skemmti­legasta lag myndarinnar; Hakuna Matata. Það að fá að syngja lag í Dis­n­ey-mynd hefur verið á bucket-listanum frá því ég var ca 8 ára gamall, þannig að ég er afar sáttur,“ segir Ævar.

Ertu að­dáandi upp­runa­legu teikni­myndarinnar?

„Að sjálf­sögðu. Bestu Dis­n­ey-teikni­myndirnar koma á þeim tíma sem upp­runa­lega Lion King mætti á svæðið; Aladdín, Litla haf­meyjan, Fríða og Dýrið, Konungur ljónanna, Guffagrín og Herkú­les – allt saman tíma­laus klassík,“ segir Ævar.

Svaraði Billy Eichner þér á Twitter?

„Ekki enn. En ég treysti á minn mann.“

Hugsaðiru eitthvað um upprunalegu talsetninguna?

„Þar sem maður ólst upp með upp­runa­legu og frá­bæru ís­lensku tal­setningunni er náttúru­lega ó­mögu­legt að heyra ekki óminn af henni þegar maður er að leika sama karakter, sem stundum fer meira að segja með sömu línur,“ segir Ævar.

En núna eru auð­vitað nýjar er­lendar raddir og við leikararnir erum beðin um að fylgja þeim. Það er samt alveg örugg­lega smá Laddi í þessum nýja Tímon hjá mér, alveg eins og það er örugg­lega smá Nat­han Lane í nýju ensku út­gáfunni hjá Billy Eichner. Bæði Laddi og Lane léku Tímon ó­að­finnan­lega, þannig að það er sem sagt engin pressa á okkur Billy.“

Hvernig finnst þér nýja myndin?

„Það sem ég hef séð af nýju myndinni er eigin­lega ó­trú­legt. Ég hef lýst þessu eins og að maður sé að horfa á þátt með David Atten­bor­ough, nema dýrin kunna að tala. Og syngja. Það vantar bara Guðna Kol­beins yfir til að lýsa því hvað er að gerast. Ég get ekki beðið eftir að sjá hana á stóru tjaldi.“

via GIPHY

Ólst upp með myndinni og Beyoncé fyrirmynd

Hvernig leggst í þig að leika Nölu?

„Þetta er auð­vitað drauma­hlut­verk fyrir mig sem er þrí­tug og ólst upp með þessari mynd,“ segir Íris létt í bragði. „Mér fannst þetta bara al­gjör­lega æðis­legt.“

Hugsaði­ru eitt­hvað um upp­runa­legu tal­setninguna?

„Ég auð­vitað kann í rauninni þessa mynd utan­bókar,“ segir Íris. „Meira að segja í stúdíóinu þegar við vorum að tal­setja kom setning sem leik­stjóranum fannst eitt­hvað skrítin.

Þarna þar sem Nala gerir grín að Simba og segist hlæja framan í hættuna. Ég mundi auð­vitað alveg hvernig þetta var og út­skýrði að þetta hefði verið Nala að gera grín að Simba,“ segir Íris og hlær. „Maður mundi þetta allt saman mjög vel.“

Hvernig finnst þér nýja myndin?

„Ég held þetta sé meistara­verk. Manni finnst eins og maður sé bara að horfa á al­vöru dýr og það verður æðis­legt fyrir fólk sem ólst upp með gömlu myndinni að sjá þessa,“ segir Íris. „Og þetta er ekki leiðin­legri mynd fyrir börn heldur af því að þetta er svo of­boðs­lega raun­veru­legt,“ segir Íris.

„Mér finnst þetta bara æðis­leg mynd og al­gjör draumur að fá að tal­setja hana. Bæði er Beyonce ein af mínum fyrir­myndum í söng og Steinunn Ó­lína ein af mínum fyrir­myndum í leik, svo þetta var bara al­gjör draumur.“