Fólk

Líður vel innan um listaverk

Anna Guðnadóttir býður til endurfunda við íslenska, sígilda hönnunargripi frá árunum 1950 til 1980 á HönnunarMars. Margt af því er orðið eftirsótt hönnunarvara en Anna vill minna á hvað áður var gert af íslenskum frumkvöðlum á sviði hönnunar.

Anna Guðnadóttir opnaði nýlega galleríið AnnaG, þar sem sýningin Endurfundir verður haldin. Diskurinn til hægri við Önnu er eftir Steinunni Marteinsdóttur frá árinu 1961 og gráu vasarnir tveir lengst til vinstri eru eftir Hring Jóhannesson. MYND/VALLI

Ég man eftir mér sem barni í stofunni heima að horfa á eftirprentun af Fjallamjólk Kjarvals, sem mamma gaf pabba í þrítugsafmælisgjöf. Ég varð hugfangin af myndinni og var alltaf að finna í henni nýjar ummyndanir og fígúrur, en ég var líka dolfallin af rósóttum diskum og listmunum úr leir,“ segir Anna Guðnadóttir sem hefur einkar næmt auga fyrir list og sérstakan áhuga á íslenskum, sígildum hönnunargripum frá því um og eftir miðbik síðustu aldar.

„Fyrir fimmtán árum hreifst ég mjög af keramiki frá listrænu tímabili sem ríkti í Gliti á sjöunda áratugnum. Þá var gamla Glit á Óðinsgötunni eins og samkomustaður myndlistarmanna sem voru í námi eða nýútskrifaðir. Þeir fengu oft frjálsar hendur við skreytingar. Þar má nefna seinni tíma þekkta listamenn eins og Hring Jóhannesson, Steinunni Marteinsdóttur, Þorbjörgu Höskuldsdóttur og Ragnheiði Jónsdóttur,“ upplýsir Anna.

Við tók ástríðufull söfnun Önnu á listmunum úr Gliti sem orðið er dágott safn og eftirsótt hönnunarvara.

„Margir þekkja hraunvasa og -skálar frá Gliti en það sem ég safna er ennþá eldra. Margt hefur rekið á fjörur mínar en oft líður langur tími á milli þess að ég finni nýjan hlut, enda hef ég orðið vandlátari með árunum,“ segir Anna sem í gærmorgun sótti á pósthúsið fágætan vasa frá gamla Gliti.

„Vasinn skartar myndum og texta úr þjóðsögunni Djáknanum frá Myrká og er skreyttur af myndlistarmanninum Sigurjóni Jóhannssyni árið 1964. Ég er forvitin að eðlisfari og það hefur rekið mig áfram að forvitnast um hverjir bjuggu til listmunina en þeir sem ég hef safnað eru merktir listamönnunum og gjarnan ártalinu líka.“

Dýrmætir gripir í geymslunni

Þegar Listaháskóli Íslands var stofnaður árið 1998 fluttust í hann allar deildir úr Myndlista- og handíðaskólanum nema keramikdeildin.

„Það segir dálítið um mat manna á þeirri listgrein, að hún hafi ekki átt heima í listaháskóla og leirmunagerð nýtur ekki nógu mikillar virðingar hér á landi. Á Norðurlöndunum, og ekki síst í Danmörku og Svíþjóð, seljast keramikhlutir á himinháu verði á uppboðum. Allt eru það jafn dýrmætir hlutir og málverk eða aðrir listmunir,“ útskýrir Anna.

Flestir hönnunargripirnir sem Anna sýnir á HönnunarMars voru framleiddir upp úr miðri síðustu öld.

„Ég held það hafi komið ákveðin eyða í íslenskt keramik eftir að námið breyttist,“ segir Anna sem sýnir einnig fáeina nýja keramikhluti. „Með því vil ég opna augu fólks fyrir því að kaupa nýtt keramik sem er á lægra verði en gömlu dýrgripirnir en getur í mörgum tilvikum verið fjárfesting til framtíðar, rétt eins og önnur listaverk. Ég vil líka auka virðingu almennings fyrir listmunum og hönnun úr keramiki og að það átti sig á að heima geti leynst dýrmætir gripir í geymslunni.“

Gott er að skoða merkingar og ártöl á keramikmunum sem hugsanlega leynast í fórum Íslendinga.

„Finnist slíkir gripir heima er hægt að leita sérfræðiþekkingar til mín eða í Hönnunarsafnið í Garðabæ sem á hrós skilið fyrir að safna upplýsingum um sögu og halda sýningar á íslenskri leirkeraframleiðslu. Ég er líka opin fyrir því að taka leirmuni í umboðssölu en þá er lykilatriði að hönnuðurinn sé þekktur og hluturinn sé með staðfestingu eða merkingu á því að vera fágætur, einstakur listmunur,“ segir Anna.

Fer léttstíg út af listsýningum

Anna safnar líka gömlum, íslenskum húsgögnum sem sýnd verða á sýningunni.

„Ég er einkar hrifin af tímabili sem kallast „mid-century modern“ eða sixtís, og spannar húsgagnaframleiðslu frá árunum 1950 til 1960, þegar húsgögn voru smíðuð úr tekki og palisander. Ég verð með borðstofuborð og stóla úr tekki frá húsgagnaverkstæðinu Valbjörk á Akureyri, stóla úr palisander og frægan ruggustól frá árinu 1968 eftir Helga Hallgrímsson sem gerður var í fáum eintökum,“ upplýsir Anna.

Á sýninginni verða einnig valdir nytjahlutir úr steinleir eftir Hauk Dór frá árunum 1967 til 1982.

„Á sýningunni ber margt forvitnilegt fyrir augu og sérstaklega fyrir yngra fólk að sjá hvað verið var að gera í íslenskri hönnun fyrir sextíu árum. Margir hönnuðir á HönnunarMars voru ekki fæddir á þeim tíma en þó kallast margt af þessum hlutum á við það sem verið er að gera í dag og er útlitið bæði sígilt og nútímalegt.“

Hönnunargripirnir á sýningu Önnu eru allir fágætir og verða meira og minna til sölu.

„Það getur verið erfitt að sjá á eftir gripunum en ég er nýjungagjörn og þá skapast pláss fyrir nýja og spennandi hluti. Mér líður einstaklega vel innan um listaverk. Það endurnærir mig að fara á listasöfn og ef mig skortir upplyftingu fer ég gjarnan á listsýningar og labba léttstígari út. Þess vegna hafði ég áhuga á að búa mér til starfsvettvang á þessu sviði; til að miðla fegurðinni og ræða um list og hönnun við viðskiptavini. Það er svo gaman að vera í samneyti við fólk með svipað áhugamál.“

Sýningin verður opnuð fimmtudaginn 15. mars og stendur fram á sunnudag, 18. mars í AnnaG, Sóltúni 20 (við hlið íþróttahúss fatlaðra). Sjá nánar á annag.is og um viðburðinn og sýningartíma á Facebook.

Anna Guðnadóttir heldur hér á gullfallegum og stórum diski úr keramiki eftir Hauk Dór frá árinu 1982. MYND/VALLI
Djákninn frá Myrká var viðfangsefni myndlistarmannsins Sigurjóns Jóhannssonar á þessum fágæta keramikvasa frá árinu 1964. MYND/VALLI
Nýir og fagrir leirvasar eftir Rögnu Ingimundardóttur eru til sýnis hjá ÖnnuG. MYND/VALLI
Spænski listamaðurinn Picasso beindi athygli að listgreininni og hafði áhrif á íslenska listamenn eins og sjá má á þessum gamla keramikplatta frá Glit. MYND/VALLI

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Fólk velur að eiga gott hjónaband

Fólk

Glasafrjóvgun í Prag skilaði tvíburum

Fólk

Lífssaga falin í prinsessuskóm

Auglýsing

Nýjast

Frískandi eftirréttir í brúðkaupið

Tölurnar á bak við brúð­kaup aldarinnar

Bitist um fyrsta hamborgarann

Ungir Píratar með pizzukrók á móti bragði

Selma Björns­dóttir leik­stýrir ást­föngnum Shakespeare

Byrjuð í ­með­ferð: „Ekkert stór­­­mál“ að missa hárið

Auglýsing