Bandaríski blaðamaðurinn Barbara Demick var meðal gesta á Bókmenntahátíð í Reykjavík. Hún er höfundur þriggja bóka og tvær þeirra hafa komið út í íslenskri þýðingu.

Fyrsta bók hennar, Logavina Street, kom út árið 1996 og fjallar um Bosníustríðið. Önnur bók hennar, Engan þarf að öfunda, kom út árið 2009 og fjallar um daglegt líf í Norður-Kóreu. Sú frábæra bók kom út í íslenskri þýðingu árið 2013. Nýjasta verk hennar, Að borða Búdda, er nýkomið út á íslensku, en þar er fjallað um líf íbúa í Tíbet.

„Ég hef meðvitað valið að skrifa um fólk sem mætir litlum skilningi og fjölmiðlar hafa lítið fjallað um. Umfjöllun um Tíbeta og íbúa Norður-Kóreu er oft mjög klisjukennd. Íbúum Norður-Kóreu er lýst eins og séu þeir vélmenni sem marsera í takt og hafi enga sjálfstæða hugsun. Tíbetum er lýst eins og þeir séu hinn göfugi villimaður.“

Með harðan skráp

Demick velur að segja sögur sínar í gegnum einstaklinga sem lesandinn kynnist vel. „Allar þrjár bækur mínar eiga þetta sameiginlegt. Ég kýs að fjalla um fólk á afmörkuðum svæðum, lýsa litlum heimi innan heildarinnar. Ég valdi eina götu í Sarajevo, eina borg í Norður-Kóreu og einn bæ í Tíbet og lýsti mannlífi þar. Það er sagt að Stalín hafi sagt að dauði einnar manneskjur væri harmleikur en dauði milljóna tölfræði. Ef maður kynnist einni manneskju sem missir barn sitt eða systkini þá finnur maður raunverulega fyrir sorg hennar, nokkuð sem maður finnur ekki fyrir þegar maður skoðar tölfræðina.“

Demick hefur hitt fólk sem hefur upplifað skelfilega atburði. Það hlýtur að taka á hana, segir blaðamaður. „Vissulega, en ég hef komið mér upp hörðum skráp. Erlendir fréttaritarar eru eins og læknar, sjá margt slæmt en læra að harka af sér. Mér líður illa þegar ég skrifa um lífsreynslu þessa fólks. Ef það væri ekki þannig þá myndu lesendur mínir ekki finna fyrir þeirri sömu tilfinningu. Ég vil að lesendur bregðist við á tilfinningaríkan hátt.“

Hún segist ekki vera bjartsýn á framtíð Norður-Kóreu. „Ég held að lítið muni breytast þar og það sama á við um Tíbet.“

Vinnur að nýrri bók

Hún er spurð hvort það hafi ekki breytt henni sem manneskju að skrifa bækur um fólk sem býr við kúgun og má teljast heppið að lifa af. „Það hefur eflt samkennd mína með öðrum og ég hef líka áttað mig á því að allir hafa sína sögu að segja.“

Hún vinnur nú að nýrri bók sem fjallar um ættleiðingar kínverskra stúlkna til Bandaríkjanna og Evrópu. „Opinbera skýringin er sú að þær hafi verið yfirgefnar vegna þess að foreldrar þeirra vildu eignast strák. Það er hluti af skýringunni en ekki eina skýringin. Margar þeirra voru teknar frá fjölskyldum sínum með valdi eða vegna þrýstings frá stjórnvöldum. Ég er að skrifa um kínverska foreldra og aðstandendur þessara stúlkna.“